21.11.1985
Sameinað þing: 19. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 836 í B-deild Alþingistíðinda. (666)

Okurmál

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Það skal nú vakin athygli á því að þessi utandagskrárumræða hefur nú staðið um sjö klst. í tvo daga. Þetta er ekki vegna þess að þingið hafi ekki haldið sér vel að verki, ekki verður annað sagt. Hins vegar sér ekki högg á vatni. Þegar við hófum þessa umræðu í dag voru fimm á mælendaskrá, nú eru níu á mælendaskrá. Af þessu má marka að við skulum ekki gera ráð fyrir því að á þessum fundi verði unnt að snúa sér að dagskrá fundarins og taka fyrir merk mál sem þar eru. Hins vegar hefði mátt vænta þess að þessari umræðu gæti lokið fyrir kvöldmat því að ef svo yrði ekki gæti þurft að hafa kvöldfund til að ljúka umræðunni í dag. Þessi orð eru ekki mælt í þeim tilgangi að forseti lýsi yfir takmörkun umræðna. Hins vegar er með þessum orðum vakin athygli á stöðu umræðna ef hv. þm. vildu taka mið af því í ræðum sínum hér á eftir.