26.11.1985
Neðri deild: 20. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 923 í B-deild Alþingistíðinda. (746)

134. mál, álbræðsla við Straumsvík

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Í fyrstu umræðu vil ég hafa örfá orð um þetta mál. Hér liggur nú fyrir Alþingi frv. til laga um lagagildi fjórða viðauka við aðalsamning milli ríkisstjórnar Íslands og Sviss Aluminium Ltd.

Í síðustu lotu langrar glímu okkar Íslendinga við Golíatinn Alusuisse fór allt á sama veg og áður. Álrisinn náði þeim undirtökum sem hann hefur ævinlega áður náð, að sveigja samningagerðina í þá átt að tryggja hagsmuni sína langt umfram hagsmuni Íslendinga. Auk ýmissa ívilnana tókst Alusuisse að ná afdrifaríkri stöðu í samningsmálinu. Hún var sú að kljúfa tvö nátengd atriði þessa máls í aðskilda þætti sem samið sé um hvorn í sínu lagi, og er hér átt við megintekjustofna Íslendinga í viðskiptum við Alusuisse, þ.e. raforkuverð annars vegar og skattlagningu hins vegar. Þó eru þessir þættir í órjúfanlegum tengslum hvor við annan og virðist ótækt að semja um annan án tillits til hins. Þessu fylgdi svo uppgjöf saka og hreint siðgæðisvottorð vegna meintra skattsvika fyrirtækisins. En þau mál voru á viðkvæmu stigi fyrir gerðardómi og stutt í dómsúrskurð. En staða okkar þótti sigurstrangleg að mati ýmissa þeirra er komu á fund iðnn. þegar þetta mál var til umfjöllunar á s.l. ári. Því stöndum við mun verr að vígi hvað skattamálin snertir nú, að við höfum misst þá viðspyrnu sem hefði getað knúið Alusuisse til að virða hagsmuni Íslendinga.

Öll fyrri reynsla Íslendinga af viðskiptum við þetta fjölþjóðafyrirtæki hefur verið með þeim hætti, samningagerð á samningagerð ofan allt frá 1966, að fjölþjóðafyrirtækið hefur haft tögl og hagldir og knúið fram vilja sinn af ófyrirleitni.

Í síðustu viku var dreift meðal þm. ljósritum af blaðagreinum frá Ástralíu þar sem uppi eru deilur milli ástralskra skattayfirvalda og dótturfyrirtækis Alusuisse í Ástralíu vegna meintra skattsvika. Er hér fyrst og fremst um útflutning á súráli að ræða sem verður fyrir mikilli hækkun í hafi, t.d. á leið sinni til Íslands. En skattsvik Alusuisse gagnvart Íslendingum, sem lágu fyrir gerðardómi, voru einmitt vegna hækkunar í hafi á súráli og tilheyrandi bókhaldsbrellna. Fjölþjóðafyrirtækið Alusuisse virðist því leika sinn undanbragðaleik bæði við Ástrali og Íslendinga og svíkur báða.

Með leyfi forseta langar mig að vitna hér í álit meiri hluta álbræðslunefndar, sem var dags. 28. apríl 1966, þar sem sagði m.a.:

„Hinar frjálsu þjóðir heims gera sér ljóst hver þörf er á alþjóðlegri samvinnu um efnahagslegar framfarir og hvern þátt alþjóðleg einkafjárfesting getur átt í bættum lífskjörum þjóða. Alþjóðleg samvinna, sem hér um ræðir, er fyrst og fremst fólgin í því að lönd“ - og ég endurtek, herra forseti, hér stendur „lönd“ - „sem hafa fjármagn aflögu láta það öðrum löndum í té til uppbyggingar á arðvænlegum atvinnuvegum viðkomandi lands, m.a. í formi fjárfestingar í viðkomandi landi.“

Herra forseti. Fjölþjóðafyrirtæki eru einmitt ekki lönd og þar liggur stór og ljótur hundur grafinn. Fjölþjóðafyrirtæki byggjast að vísu á fjármagni sem er falt til fjárfestingar, en þau eru í eðli sínu landlaus og gegna ekki sömu samskiptareglum og lönd gera jafnan sín á milli. Þess vegna geta þau verið hættuleg viðskiptis og ekki síst fyrir fámennar þjóðir.

Það er því ekki einungis með mikilli varfærni að ég geng að því að skoða þennan nýja samning, heldur af þó nokkurri tortryggni sem byggð er á reynslu fyrri ára. Og síðast en ekki síst, þá ber ég kvíðboga fyrir velferð og hagsmunum Íslendinga í þessu máli.

Stefna Kvennalistans í stóriðju- og stórvirkjanamálum hefur frá upphafi haft nokkra sérstöðu hér á Alþingi en samt hefur hún vafist fyrir mönnum og því vil ég ítreka hana nú. Í stefnuskrá Kvennalistans stendur eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Við viljum ekki frekari stóriðju, hvorki innlenda né erlenda. Stóriðja hefur kostað okkur hundruð milljóna í rekstrarstyrkjum, erlendum lánum og fríðindum ýmiss konar og hefur ekki skilað okkur arði. Stóriðju fylgir byggðaleg og félagsleg röskun og mengun af ýmsu tagi. Hvort tveggja hefur ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir land og þjóð. Stóriðja er ekki atvinnuskapandi miðað við þann fjármagnskostnað sem henni fylgir. Fram til aldamóta er búist við því að a.m.k. kosti 25 þúsund manns komi út á vinnumarkaðinn. Stóriðjuuppbygging í samræmi við stóriðjuáætlanir til sama tíma mundu aðeins veita tæplega 6% af því fólki atvinnu. Við viljum því ekki frekari stórvirkjanir heldur virkjanastefnu sem miðar við okkar eigin þarfir. Við viljum ekki frekari erlendar lántökur til rekstrar óarðbærra fyrirtækja.“

Þessi stefna hefur ekkert breyst nema þá að hún hafi styrkst með aukinni reynslu. Og því vil ég áfram vitna, með leyfi forseta, í nýgerða ályktun, sem samþykkt var á landsfundi Kvennalista um atvinnumál, þar sem segir m.a.:

„Menntun, hugvit og þekking er grundvöllurinn að uppbyggingu og nýsköpun í atvinnulífinu. Því ber að leggja megináherslu á menntun og rannsóknarstarfsemi, ekki síst með tilliti til vöruvöndunar og markaðsöflunar. Auðlindir landsins eru ekki aðeins fiskimið, jarðvarmi og fallvötn, heldur einnig og ekki síður hreint loft, tært vatn og ómengað land. Það eru nú orðin ómetanleg auðæfi í iðnvæddum heimi.

Íslendingar eru fyrst og fremst matvælaframleiðendur og eiga ýmsa ónýtta möguleika á því sviði þar sem taka ber mið af vaxandi kröfum um ómengaða framleiðslu. Stóriðjustefnan hefur gengið sér til húðar. Smáfyrirtæki eru og verða kjölfestan á sviði iðnaðar. Þar geta konur sótt fram með áherslu á umhverfisvernd og mannleg sjónarmið. Í orkukerfi landsins er mikil umframorka sem nýta ber til eflingar smáiðnaði, t.d. með því að bjóða framleiðslufyrirtækjum lágt orkuverð utan álagstíma.“

Að síðustu, herra forseti, vil ég taka það fram að ég mun ekki fara út í efnislega umræðu í þessu máli nú heldur mun ég geyma mér það þar til málið hefur verið nánar upplýst og unnið í hv. iðnn. þar sem ég á sæti. Því áskil ég mér allan fyrirvara um afstöðu til þessa samnings þar til það starf hefur farið fram.