27.11.1985
Neðri deild: 21. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 960 í B-deild Alþingistíðinda. (758)

145. mál, stjórn fiskveiða

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Stundum heyrast fullyrðingar um að Kvennalistakonur hafi hvorki áhuga né skoðanir á stjórnun fiskveiða né sjávarútvegsmálum yfirleitt, okkar áhugi sé einskorðaður við kvennamál. Þetta er vitanlega hinn mesti misskilningur því eins og við höfum margsinnis sagt eru öll mál kvennamál ef grannt er skoðað. Sjávarútvegurinn er undirstaða efnahags- og atvinnulífs okkar og verður svo lengi enn. Vandi hans er vandi okkar allra.

Hitt er svo þm. kunnugt að vegna smæðar þingflokksins okkar eigum við ekki aðild að öllum þingnefndum, þar á meðal hvorugri sjútvn., og höfum þar af leiðandi ekki haft jafngóða aðstöðu og aðrir þingflokkar til að fylgjast með þeim málum, því að það er fyrst og fremst í nefndunum sem málin ráðast. Rétt er að taka fram að hæstv. sjútvrh. hefur gert sér far um að láta okkur ekki gjalda þessa aðstöðumunar og boðið okkur alla þá aðstoð og upplýsingar sem við teldum okkur vanta. Það er því hreint ekki við hann að sakast í þessum efnum né svo sem nokkurn annan, en það væri mjög æskilegt að Kvennalistinn fengi áheyrnaraðild að hv. sjútvn. og ég hef reyndar þegar óskað eftir því og rætt málin við formann nefndarinnar sem tók því mjög vel fyrir sitt leyti. Nú er reyndar mikill annatími og sérstaklega þá í fjvn. svo að ekki er víst að hægt verði að nýta þennan möguleika, en ég vildi gjarnan að hann væri fyrir hendi og mun sækja eftir því.

Herra forseti. Sá tími er löngu liðinn að náttúran var einráð um stjórnun fiskveiða. Mannleg stjórnun hefur nú gilt árum saman, aflahámark á fisktegundir og takmarkanir af ýmsu tagi og misjafnlega vel þokkaðar. Kvótakerfið, sem nú hefur fengið tveggja ára reynslutíma, var eitt helsta ágreiningsmálið á haustþingi 1983 og fékk einnig mikla umfjöllun hér fyrir ári og það hefur sannarlega ekki legið í láginni þetta ár þó það sé fyrst nú til umræðu hér í þinginu. Við getum nú litið til baka og metið hvernig til hefur tekist og hagað framhaldinu í samræmi við niðurstöður af því mati.

Við 1. umræðu um þetta mál í desember 1983 lýsti ég þeirri afstöðu Kvennalistans að líklega væri kvótaskipting á skip skásti möguleikinn til að ná tökum á sókninni í einstaka fiskistofna og vinna gegn ofveiði eins og málum var þá komið. Töldum við slíkt fyrirkomulag líklegast til að stuðla að bættri meðferð aflans þar sem magnið er gefinn hlutur en gæðin ráða tekjum. Einnig töldum við að með þessu fyrirkomulagi ætti að vera unnt að koma á betri samræmingu í veiðum og vinnslu og tilkostnaður útgerðar mundi verða minni þegar kapphlaupið á miðunum væri úr sögunni. Meginmarkmiðið var að okkar mati að draga úr kostnaði við veiðarnar og auka verðmæti aflans. Spurningin er því nú hvort það hafi tekist sem skyldi. Því miður er það ekki að öllu leyti. Raunin virðist sú að fiskveiðistefna síðustu tveggja ára hafi fyrst og fremst verið rekin með tilliti til ástands fiskistofnanna og með hag sjómanna og útgerðar í huga en síður tekið mið af fiskvinnslunni og þannig ekki leitt til þeirrar hámarksnýtingar aflans sem stefnt skyldi að. Þessi niðurstaða veldur vonbrigðum og hlýtur að verða að taka mið af henni því okkur er brýn nauðsyn að auka verðmæti framleiðslunnar til hins ýtrasta. Það er það eina sem nokkurt vit er í.

Öll vinnutilhögun verður að miða að því að nýta sem best þann fisk sem veiddur er og vinna hann í þær umbúðir sem gefa mestan hagnað. Til þess að það sé unnt þarf mjög markvissa stjórnun á dreifingu aflans. Og það er rétt, sem hæstv. ráðherra sagði áðan, að þetta er atriði sem hver og einn verður að leggja sig fram um að hafa stjórn á. Vissulega eru dæmi um aðila sem hafa gætt þessa vel og uppskorið samkvæmt því. Á því hagnast ekki aðeins viðkomandi aðilar heldur þjóðarbúið í heild.

Kvótakerfið leiðir til fækkunar útivistardaga sem kemur að sjálfsögðu útgerðinni til góða. Hins vegar er það hagur vinnslunnar að aflinn dreifist sem jafnast yfir árið. Það er hagur fiskvinnslufyrirtækjanna og það er hagur starfsfólksins í fiskvinnslunni. Á þessu hefur orðið nokkur misbrestur sem að nokkru leyti má rekja til kvótakerfisins. Það virðist t.d. ljóst, þegar litið er á tölur um afladreifingu, að hlutfallsleg aukning sumarafla hafi orðið mjög mikil. Árið 1983 veiddust um 36% af heildarþorskafla togaranna fyrstu átta mánuði ársins í júlí og ágúst, en sumarið 1984 var þessi hlutfallstala komin í 45%. Þessi þróun í afladreifingu er óhagstæð með tilliti til vinnslunnar, fyrst og fremst vegna þess að einmitt þessa mánuði er vanasta og besta starfsfólkið í fríi. Við vitum öll hverjar það eru sem standa undir fiskvinnslunni í landinu. Þær konur eru ýmist í eigin sumarfríi eða heima vegna lokunar barnaheimila yfir þessa tvo sumarmánuði. Fiskvinnslan er því yfir hásumarið að miklu leyti í höndum óvanara fólks, skólafólks og erlendra starfskrafta sem ekki hafa tök á að skila jafngóðri vöru og unnt væri. Gegn þessari þróun er náttúrlega ekki einfalt að vinna því enginn hefur áhuga á að auka aftur tilkostnað útgerðarinnar né minnka öryggi sjómannanna.

Við hljótum m.a. í þessu efni að líta vonaraugum til nýrrar tækni og nýrra aðferða og þá fyrst og fremst tvífrystingar aflans sem þýðir nánast byltingu í þessari atvinnugrein ef vel tekst til. Einnig þarf að taka þetta sjónarmið inn í verðlagskerfið og reyna að nota það til stýringar á þessu sviði.

Það er mín skoðun að fiskverð endurspegli ekki nægilega gæði aflans og mætti vera miklu meiri munur á flokkum. Sá munur verður að vera nægilega mikill til að sjómenn sjái sér verulegan hagnað í því að færa sem bestan fisk að landi. Þá finnst mér vel athugandi að hafa verðið breytilegt eftir árstíðum og stuðla með þeim hætti að meiri og jafnari dreifingu aflans. Við megum ekki einblína á verðmæti upp úr sjó. Það þarf ekki síður að leggja áherslu á verðmæti aflans þegar hann selst úr landi. Aukin nýting og aukning verðmæta er höfuðmarkmiðið og er vert í því sambandi að minna á mikilvægi fiskileitar og rannsókna í hafinu umhverfis landið svo og rannsókna og tilrauna með vannýtta fiskistofna og tilrauna til betri nýtingar þeirra stofna sem veiddir eru. Í rauninni veitum við furðulitlu fé til slíkra rannsókna með tilliti til þeirrar staðreyndar að við fáum 70-80% útflutningstekna okkar úr sjávarútveginum.

En þetta frv. er ekki um fiskverð né rannsóknarstarfsemi heldur hvernig skipta eigi væntanlegum fiskafla sem réttlátast á milli skipa og byggðarlaga. Það er reyndar margra álit, eins og hæstv. ráðh. minntist á áðan, að fiskiskipaflotinn sé of stór og segja má að þær leiðir sem farnar hafa verið og fyrirhugaðar eru áfram í stjórnun fiskveiði séu að því leyti gallaðar að þær bera ekkí í sér næga hvatningu til fækkunar skipa. Það er alveg rétt og vel má vera að auðveldara væri að treysta rekstrargrundvöll sjávarútvegsins með skipulegri fækkun skipa og fiskvinnslustöðva. Það gæti áreiðanlega gefið okkur betri tölur á pappírnum. En beinharðar tölur eru eitt og mannleg sjónarmið oft allt annað. Ef út í beina fækkun væri farið yrði að búa svo um hnútana að um leið og úrelding færi fram væri tryggt að útgerðin missti ekki þar með allan aflakvóta skipsins sem hætt er rekstri á heldur gæti jafnað honum á önnur skip og haldið kvótanum í byggðarlaginu. Eins og 13. gr. hljóðar missir útgerðin kvóta þess skips sem tekið er úr rekstri nema nýtt skip komi í staðinn. Með því er því síður en svo hvatt til fækkunar í skipastóli landsmanna. Þetta finnst mér rétt að taka til athugunar.

Um þær reglur við skiptingu aflans sem þetta frv. byggist á er það að segja að hér er vitanlega um málamiðlun mismunandi sjónarmiða að ræða. Kvótakerfið kemur niður á öllum hvort sem um aflamark eða sóknarmark er að ræða. Allir eru sammála um að stjórnunar sé þörf og slík stjórnun verður að taka mið af hagsmunum þjóðarinnar allrar sem auðvitað geta rekist á hagsmuni einstakra byggðarlaga eða landshluta. Reynt er að draga úr slíkum árekstrum með möguleikum á vali milli aflamarks og sóknarmarks með hámarki á þorskafla. Sá sveigjanleiki hefur þegar gefið allgóða reynslu þar sem í ár mun meira en fjórðungur skipa hafa notfært sér möguleika á sóknarmarki.

En það er eitt atriði sem veldur áhyggjum og ég sé ekki að tekið sé á í þessu frv. Ég sé ekki að tekið sé á þeim vanda sem skapast hefur víða þar sem skip hafa verið seld milli landshluta og flutt með sér aflakvóta. Margir vilja halda því fram að slík séu lögmál markaðarins og þeim beri að lúta möglunarlaust, en ástæður geta verið ýmsar og alls ekki endilega þær að óhagkvæmt sé að stunda útgerð og vinnslu í því byggðarlagi sem um er að ræða í hverju tilviki. Slík dæmi höfum við líklega gleggst frá Suðurnesjum þar sem fólk horfir í skelfingu á eftir fiskiskipum sínum til annarra landshluta og er afkoma fjölda heimila í voða af þeim sökum. Með engu móti verður þó sagt að þar séu ekki hagstæð skilyrði fyrir sjávarútveginn frá náttúrunnar hendi.

Öllum hér ætti að vera kunnugt um hvers vegna Suðurnesjabyggðir voru verr undirbúnar að mæta þeim vanda sem skapast hefur í sjávarútvegi nú. Suðurnesin guldu nálægðar sinnar við höfuðborgarsvæðið þegar byggðastefnan var rekin af mestum móði og nutu ekki sömu lánskjara og fyrirgreiðslu og önnur byggðarlög úti um landið. Því varð öll uppbygging og endurnýjun í sjávarplássum Suðurnesja erfiðari og hægari sem sýnir sig nú m.a. í því að meðalaldur skipa er hvergi hærri en þar.

Mér hefði fundist eðlilegt að búa svo um hnúta að seld skip færu ekki með allan sinn kvóta burt úr byggðarlaginu, en að auki þarf að leita leiða til að draga úr áhrifum þess þegar stór skip eru seld burt með því t.d. að leita verkefna fyrir minni skipin og setja ekki smærri bátum svo þröngar skorður að illþolanlegar séu.

Þá erum við komin að reglunum fyrir smábátana sem flestir eiga erfitt með að sætta sig við. Er ótrúlegt annað en að þær reglur taki breytingum í meðferð hv. sjútvn. Ég ætla ekki að vera margorð um þau atriði, enda hefur þegar töluvert verið um þau fjallað bæði hér í þinginu og úti í þjóðfélaginu. Við getum ekki lokað augunum fyrir því að aðstæður þeirra sem eiga allt sitt undir þessum veiðum eru mjög sérstakar. Við getum nefnt sem dæmi Grímsey þar sem byggðarlagið í heild á mestallt sitt undir veiðum af þessu tagi. Slík byggðarlög þola ákaflega illa langtíma stöðvun sem verður þegar gæftir og sóknarleyfi fara ekki saman eins og iðulega hendir. „Það er nóg sem náttúran skikkar okkur í land þó ráðherra sé ekki með nefið á kafi í þessu“, sagði einn þessara sjómanna við mig. Þessir menn eru ekki að heimta ótakmarkaðan afla þótt augljóst sé að of naumt var skammtað í ár miðað við fjölgun báta í þessum stærðarflokki. Þeir vilja hins vegar rýmri ramma, meira frelsi til að ákveða hvenær þeir sæki þennan tiltekna afla, og virðist það ekki ósanngjörn krafa.

Herra forseti. Ég fer nú að ljúka máli mínu. Samkvæmt 1. gr. frv. skal sjútvrh. ákveða heildaraflamagn hvers árs að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunar. Í fylgiskjali II á bls. 14-29 um ástand nytjastofna og aflahorfur næstu ár er að finna tillögur Hafrannsóknastofnunar sem m.a. gera ráð fyrir að þorskveiðar verði takmarkaðar við 300 000 tonn á ári næstu tvö árin sem er þó hærra en skynsamlegast væri með tilliti til stofnsins. En það þarf að taka tillit til fleiri þátta og Hafrannsóknastofnun viðurkennir það með tillögu um 300 000 tonna markið. Ef að líkum lætur verður fast sótt að hæstv. ráðh. að fara verulega yfir þau mörk og hafa þegar heyrst kröfur um allt að 400 000 tonn á ári eða jafnvel meira, ef ég man rétt. Um þetta er aðeins það að segja að skammtíma sjónarmið mega aldrei hafa forgang í þessum efnum. Afkomendur okkar ætla líka að lifa á fiski.