27.11.1985
Neðri deild: 21. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1009 í B-deild Alþingistíðinda. (766)

145. mál, stjórn fiskveiða

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ástæðan til þess að ég kvaddi mér hljóðs í kvöld var fyrst og fremst ræða hv. 2. þm. Reykn. og það hvernig hann lýsti ástandinu í sjávarútveginum. Hann sagði: Ástandið í sjávarútveginum að því er reksturinn varðar hefur sjaldan verið eins hrikalegt og um þessar mundir. - Hann sagði: Útgerðarmenn eyða mestöllum sínum tíma á biðstofum bankastjóranna. Stór hluti atvinnugreinarinnar er að komast á vonarvöl. Hvert húsið af öðru lokast.

Þetta er sú einkunn sem er gefin eftir fimm ára samfellda stjórn Framsfl. á sjútvrn. Þetta er sú einkunn sem er gefin eftir að núv. ríkisstj. hefur setið að völdum í hálft þriðja ár. Og það er fróðlegt í þessu sambandi að íhuga hvernig þessi stjórnarstefna hefur leikið einstaklingsfrelsið í sjávarútveginum. Það er fróðlegt í framhaldi af ræðu hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar hér áðan að velta því fyrir sér hvaða rök það séu, sem hugsanlegt er að þeir Sjálfstæðisflokksmenn finni, til þess að standa að því kerfi sem hér er verið að gera tillögu um í þriðja sinn. Er reynslan kannske svo góð? Er rekstrarstaðan svo góð og trygg að ástæða sé til að fagna, að ástæða sé til þess að menn láti nauðugir beygja sig til þess að styðja þetta eins og mér heyrðist á hv. þm. Friðjóni Þórðarsyni og hv. þm. Gunnari G. Schram?

Hvernig er staðan hjá sjálfu flaggskipi íhaldsins í einkarekstri í sjávarútvegi á Íslandi, flaggskipinu, sem um hafa verið skrifaðar heilu síðurnar í Morgunblaðið fyrir hverjar einustu kosningar undanfarin ár ef ekki áratugi - fleiri, fleiri síður upp og síður niður, um einkaframtakið og dásemd þess í Ísbirninum - hvernig önnur útgerðarfyrirtæki í landinu mættu læra af þessu stórkostlega framtaki, einkaframtaki sem þar var um að ræða? Hvernig er komið fyrir þessu kompaníi, þessu fyrirtæki, þessu flaggskipi, þessari fyrirmynd eftir þennan tíma?

Ísbjörninn er búinn að segja sig á hreppinn. Sjálfur Ísbjörninn, stolt íhaldsins í einkarekstri í sjávarútvegi er búinn að segja sig á hreppinn. Hreppurinn, Reykjavíkurborg, ætlar að yfirtaka góssið. Er hægt að finna í rauninni stórkostlegra dæmi um niðurlægingu Sjálfstfl. varðandi framleiðslu og rekstur í sjávarútvegi? Er hægt að finna gleggri heimild um það hvað íhaldið er í rauninni djúpt sokkið í þessum efnum? Er nokkurs staðar ljósari vottur til um það að í Sjálfstfl. er í rauninni enginn talsmaður lengur til fyrir framleiðsluna í landinu, í hinu fasta þingliði Sjálfstfl.? Þar eru einvörðungu þeir sem leggja áherslu á að efla hag verslunar og viðskipta. Ég undanskil í þessu efni hv. 1. þm. Vestf. sem talaði hér í kvöld, Einar Guðfinnsson, sem talaði um þessi mál af skilningi og bersýnilega betri þekkingu en iðulega hefur heyrst áður frá talsmönnum Sjálfstfl. hér að undanförnu. M.a. hefur sá maður sem hann er staðgengill fyrir, hv. 1. þm. Vestf. Matthías Bjarnason, lítið látið í sér heyra um þessi mál. Þó hefur hann haft það við orð að þetta kvótakerfi sem hér er á dagskrá væri slæmt. En hann hefur þó ekki sagt eins og hæstv. forsrh. sagði eftir frægan fund á Vestfjörðum hérna fyrir nokkrum mánuðum, með leyfi hæstv. forseta: „Ég er enginn kvótamaður.“

Það var hæstv. forsrh. landsins, sem tvisvar sinnum hefur knúið þetta frv. í gegnum þingið ásamt hæstv. sjútvrh., sem lýsti því yfir á miðju sumri að hann væri enginn kvótamaður. Og nú er ástæða til þess að spyrja, af því að hæstv. forsrh. mun hafa heiðrað Alþingi Íslendinga með nærveru sinni á þessari kvöldstund, það er rétt að spyrja hann að því: Styður hann þetta frv.? Er hann kannske orðinn kvótamaður aftur? Var hann ekki kvótamaður aðeins um nokkurra daga skeið meðan hann var á kjördæmisráðstefnunni á Vestfjörðum? Hefur hann síðan skipt um skoðun eftir síðustu ferðalög sín, ekki til Vestfjarða heldur til annarra staða á hnettinum? Ég vænti þess að hæstv. forseti þessarar deildar vildi vera svo vinsamlegur að hóa í hæstv. forsrh. vegna þess að ég vildi gjarnan spyrja hann þessarar spurningar: Er hann kvótamaður eða er hann enginn kvótamaður? Það er alveg óhjákvæmilegt að hæstv. forsrh. svari þessari spurningu, þessari knýjandi spurningu. Ef hann er enginn kvótamaður, eins og hann sagði í sumar, þá er auðvitað augljóst mál að það er kominn talsverður brestur í stjórnarliðið.

Nú kann hins vegar svo að vera að hæstv. forsrh. hafi enn skipt um skoðun. - En hann skiptir eins og kunnugt er iðulega um skoðun og jafnvel í sömu málsgreininni í sömu ræðunni, því að málsgreinarnar eru oft langar hjá honum en framsóknarlegar, þannig að endirinn er iðulega alveg þversum á upphafið. - Það væri fróðlegt að vita hvort hæstv. sjútvrh. og varaformaður Framsfl. hefur beygt formanninn í þessu máli, hefur beygt formann Framsfl. í þessu máli þannig að hann sé neyddur til þess að styðja þetta frv. sem hér liggur fyrir. Ég vænti þess að hæstv. forsrh. sjái sér fært að svara þessari brennandi spurningu.

Ég vil einnig í sambandi við þetta mál, herra forseti, benda á að það er í rauninni umhugsunarvert hvernig með þetta mál allt er farið, eins og hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson benti hér á áðan. Það eru hagsmunasamtökin, m.a. útgerðarmanna, sem eru látin tala. Það er ekki þorskhausalýðræði, eins og það var kallað stundum hér áður, það er lýðræði stálsins, tonnatölunnar, sem er látið tala í LÍÚ. Og hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson spurði að því áðan: Hve stórum hópi þarf að hygla innan LÍÚ til að hafa þar meiri hluta? Hve stórum hópi þarf að hygla þar til að hafa þar meiri hluta? Ég vænti þess að hæstv. sjútvrh. svari flokksbróður sínum í þessu efni. Þetta er mjög alvarleg ásökun sem fram kemur hjá hv. 5. þm. Vestf. og er nauðsynlegt að hæstv. sjútvrh. svari. En það er umhugsunarvert fyrir Alþingi hvernig þessi samtök atvinnurekenda, LÍÚ, hafa fengið að ráða lögum og lofum í þessu máli, þó svo að draga verði í efa að í raun tali LÍÚ fyrir útgerðarmenn eins og þeir vilja vera láta í þessu máli. Það verður að draga í efa.

Ég vil í sambandi við þetta mál, herra forseti, taka undir þær ábendingar sem fram komu hjá hv. 5. þm. Austurl. varðandi frv. sem hér liggur fyrir og þær óhjákvæmilegu brtt. sem hann nefndi að rétt væri að gera við þetta frv.

Varðandi framkvæmd þessa máls vil ég einnig inna hæstv. sjútvrh. eftir því hvaða rök séu fyrir því að á s.l. sumri er togurum fyrir Vestfjörðum hleypt inn á hefðbundin línusvæði í mjög stórum stíl, sem hefur orðið til þess að línubátar, sem hafa gjarnan verið á svæðinu milli 8 og 12 mílna, hafa hrakist af svæðum sem þeir hafa lengi verið á fyrir miklum skara togara.

Ég held að það væri nauðsynlegt í tengslum við þetta frv. að ræða einmitt um reglugerðarsetningarnar og hvernig að þeim hefur verið staðið og að sjútvn. þessarar deildar aflaði sér upplýsinga um reynsluna af þeim í einstökum greinum. Ég vil spyrja hæstv. sjútvrh. um þetta mál sérstaklega vegna þess að ég hef orðið var við það vestur á fjörðum að menn telja að þarna hafi verið þrengt að þeim með óeðlilegum hætti.

Ég vil einnig benda á það í þessu sambandi, herra forseti, að talað er um að nauðsynlegt sé að ná fram réttlætinu sem, eins og hv. 1. þm. Vestf. benti á hér fyrr í kvöld, hefur verið glímt við af mannkyninu núna um nokkurra árþúsunda ára skeið. Ég held að varðandi þessi mál eigum við að hugleiða það mjög vandlega hvort við séum hér í rauninni ekki með of þröngt svið undir, hvort ekki sé nauðsynlegt að móta hér fyrir þjóðina, landið og fiskimiðin heildarauðlindastefnu þar sem tekið er tillit til allra aðstæðna, bæði að því er varðar sjóinn og landið. Það er kannske engin tilviljun að einn landshluti hefur að því er þetta mál varðar skorið sig alveg úr með afstöðu. Það eru Vestfirðir og Snæfellsnes að hluta til. Ástæðan er m.a. sú að þessir landshlutar hafa ekki átt kost á því að bæta sér upp síðasta hluta ársins með veiðum á loðnu og síld eins og sumir aðrir landshlutar. Ég held að það væri eðlilegt ef við gætum náð að horfa á þessi mál í stærra heildarsamhengi en gert hefur verið á undanförnum árum.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé óhjákvæmilegt að setja takmarkanir varðandi sókn í okkar viðkvæmustu fiskistofna. Ég hef hins vegar á undanförnum þingum greitt atkvæði gegn þeirri leið sem hér hefur verið lögð til. Ég hef talið að þannig væri að málum staðið af hæstv. ríkisstj. að mér væri það alla vega ekki kleift að taka undir með henni í þessum efnum, þó ég viðurkenni og fallist á að það sé rétt að hafa almennar takmarkanir af einhverju tagi. En ég hef verið, og lýsi því enn yfir, til viðtals um það að öðrum aðferðum verði beitt til þess að ná sama marki, jafnvel betur en hér eru uppi tillögur um. Ég met það þó nokkurs við hæstv. sjútvrh. og ríkisstj. í þessu efni að að sumu leyti hefur í þessu frv. verið komið til móts við þá gagnrýni sem fram hefur verið flutt hér á síðustu tveimur þingum.

Ég bar fram eina fsp. áðan, herra forseti, til hæstv. forsrh. Hann var þá ekki í salnum en er nú kominn í salinn. Ég hlýt þess vegna að endurtaka spurningu mína. Þannig var að á s.l. sumri barst sú frétt á öldum ljósvakans, höfð eftir hæstv forsrh., að hann væri enginn kvótamaður. Og þetta var haft eftir ráðherranum í öðrum fjölmiðlum, látið á þrykk út ganga. Ég man ekki hvort það var í málgagni hæstv. forsrh., en það kom fram eftir kjördæmisþing framsóknar á Vestfjörðum að hann væri enginn kvótamaður.

Nú vildi ég spyrja hæstv. forsrh. hvort hann hafi skipt um skoðun síðan á kjördæmisþinginu fyrir vestan, hvort hann ætli sér að styðja það frv. sem hér liggur fyrir eða hvort hann ætli að vera á móti því í samræmi við þá yfirlýsingu sem hann gaf eftir kjördæmisþing framsóknarmanna á Vestfjörðum. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að þetta komi fram. Jafnframt er nauðsynlegt að ganga eftir því hér við frekari umræður um málið hver sé afstaða annarra þm. sem hafa haft við orð að þeir teldu að ekki ætti að framlengja þetta kvótakerfi óbreytt og hafa lýst því yfir með opinberum hætti á undanförnum mánuðum. Eru þeir allir runnir af hólminum, vinir einstaklingsframtaksins, sem kalla sig svo? Eru þeir uppteknari af öðrum útgerðum? Eru þeir svo uppteknir af öðrum útgerðum að þeir telji enga ástæðu til að huga að útgerð fiskiskipa hér í þessu landi? Eru þeir svo önnum kafnir við þau vandamál sem herja nú á farskipaútgerðina, að þeir komist ekki nálægt sjálfum undirstöðuatvinnuvegi landsmanna? Fróðlegt væri að fá svar við því. (FrS: Hvaða skoðun hefur Alþb. á frv.?) Og einkum og sér í lagi þó þessari afstöðu forsrh. sem ég spurði um hér áðan.

Hv. 2. þm. Reykv. hefur skyndilega vaknað til lífsins, hefur nú verið heldur daufur hér í sölunum í kvöld og fölur á vangann, en hefur núna vaknað til lífsins og vill fá að vita hvaða skoðun ég hafi á þessu frv. (FrS: Alþýðubandalagið.) Ég hef gert grein fyrir því hvaða skoðun ég hef haft á þessu frv. á undanförnum árum. Við höfum Alþýðubandalagsmenn, flestallir hér í þinginu á undanförnum árum eins og þm. veit, greitt atkvæði gegn þessu fyrirkomulagi. Við höfum áskilið okkur rétt varðandi afstöðu okkar endanlega til þessa frv. þegar við sjáum hvernig því fram vindur á þessu þingi, því að auðvitað er ekki útilokað að meiri hlutinn hugleiði málin og komi til móts við eitthvað af þeim skynsamlegu brtt. sem væntanlega verða fluttar af stjórnarandstöðunni við meðferð málsins á þingi. Hv. 2. þm. Reykv. þarf þess vegna að bíða varðandi hina endanlegu niðurstöðu. En hann getur kannske haft áhrif á hana með því að fallast á eitthvað af brtt. Alþb. Til þess er hann vís og ég hlakka til að njóta liðsinnis hans í þeim efnum.