10.12.1985
Sameinað þing: 27. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1218 í B-deild Alþingistíðinda. (969)

Um þingsköp

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það er rúm vika síðan ég óskaði eftir því að umræður utan dagskrár færu fram um Hafskipsmálið. Hún hefur frestast vegna veikinda hæstv. viðskrh. og sú frestun var í góðu samkomulagi við mig. Það er hins vegar alveg ljóst af þeim atburðum sem orðið hafa, m.a. í morgun, að þingið getur ekki beðið eftir því að fjalla um Hafskipsmálið hér. Hann er sérkennilegur þessi áhugi Alþfl. á því að fresta þeirri umræðu um nokkra daga og enn sérkennilegri fyrir þá sök að það mun hafa verið m.a. formaður þingflokks Alþfl. sem lagðist gegn því að útvarpað yrði frá þessari utandagskrárumræðu hér í dag, að Alþfl. sé að koma í veg fyrir það að þjóðin geti fengið að hlusta hér á umræður í dag.