10.12.1985
Sameinað þing: 27. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1225 í B-deild Alþingistíðinda. (986)

130. mál, endurnýjun á Sjóla GK

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þegar þessi fsp. var lögð fram hafði ekkert bréf verið sent í viðskrn. en hins vegar kom bréf síðar, það er dags. 19. nóv. en móttekið 25. nóv., og er stílað á mig sem viðskrh., þar sem sagt er frá þeim hugmyndum eigenda að hverfa frá því að gera við Sjóla og að vátryggjendur togarans hafa borgað út tryggingarfé skipsins. Eigendur Sjóla höfðu nokkru áður rætt við mig lauslega hvað mér fyndist um að breyta miðað við þær kostnaðartölur sem hér væri um að ræða, en þær voru svona gróflega áætlaðar.

Í sambandi við þetta mál hef ég gefið fyrirmæli um það í ráðuneytinu nú alveg nýlega að ekkert sé því til fyrirstöðu hvað snertir viðskrn. að Sjólastöðin fái leyfi til að kaupa annað skip með því að leggja vátryggingarverð hins skipsins upp í það og að Sjóli verði seldur úr landi eins og hann er nú. Hins vegar er eftir að senda bæði samning og beiðni til réttra aðila í þessum efnum og þá tel ég víst að það muni ekki standa neitt á afgreiðslu mála. Þau taka sinn tíma eins og gengur og gerist.