10.12.1985
Sameinað þing: 28. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1294 í B-deild Alþingistíðinda. (998)

Viðskipti Hafskips og Útvegsbankans

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Í einu dagblaðanna ekki alls fyrir löngu var því máli sem er til umræðu utan dagskrár lýst sem ævintýri. Skiljanleg en ekki heppileg lýsing því eins og allir vita enda ævintýrin alltaf vel en það gerir þetta mál svo sannarlega ekki. Hins vegar á þetta mál það sameiginlegt með ævintýrunum að í því virðast hinir ótrúlegustu hlutir hafa gerst. Sögurnar sem heyrast um meðferð fjármuna fyrirtækisins Hafskips, fjármuna sem fyrirtækið hafði m.a. fengið að láni hjá almenningi í landinu, eru lyginni líkastar. Golfferðalög til annarra landa, lúxusbílar keyptir og fluttir heimsálfa á milli, hótelreikningar upp á hundruð þúsunda, pappírsfyrirtæki notuð til að draga að fé og jafnvel að lánsfé frá Útvegsbankanum hafi verið látið renna til annarra fyrirtækja í eigu stjórnenda Hafskips.

Þessar sögur eru óneitanlega lyginni líkastar og óskiljanlegar því fólki hér á landi sem á undanförnum árum hefur þrælað myrkranna á milli til þess að verða ekki vanskilamenn vegna þess að það er að reyna að koma sér þaki yfir höfuðið. Og þetta fólk spyr: Hvernig í ósköpunum getur þetta gerst? og beinir augum sínum til hæstv. Alþingis. Þá er einnig lyginni líkast að heyra skýringar stjórnenda Útvegsbankans á því hvernig þessi ævintýralega martröð varð að veruleika. Í sjónvarpinu 6. desember s.l. kom fram hjá Halldóri Guðbjarnasyni, bankastjóra Útvegsbankans, að í október 1984, fyrir rúmu ári síðan, var bankanum ljóst að það stefndi í tap á rekstri Hafskips. Bankinn tók þá við sér og krafðist hlutafjáraukningar í fyrirtækinu. Síðan var ekki annað á bankastjóranum að skilja þegar hann sat fyrir svörum í sjónvarpinu en að bankinn hefði ekki fengið upplýsingar um rekstrarafkomu fyrirtækisins eins ört og hann hefði kosið fyrri hluta árs 1985, en samt, þrátt fyrir greinilega upplýsingatregðu af hálfu fyrirtækisins og þrátt fyrir að ljóst var strax í október 1984 að reksturinn stóð höllum fæti, virðist það hafa komið bankastjórum og bankaráði Útvegsbankans í opna skjöldu í júlí s.l. að stórkostlegt tap væri í raun á rekstri fyrirtækisins. Þetta er líka lyginni líkast og auðvitað hljóta menn að spyrja sig: Hvað var stjórn Útvegsbankans að hugsa? Sofnaði hún gersamlega á verðinum og var fé almennings stolið frá henni á meðan? Og áfram má halda með ævintýralegu sögurnar sem eru á hverju strái í þessu máli.

Síendurteknum viðvörunum bankaeftirlits Seðlabankans um að ekki væri allt eins og best væri á kosið í málum Hafskips og Útvegsbankans var ekki sinnt að því er virðist, a.m.k. ekki þannig að árangur væri af í tæka tíð. Og þegar hv. þm. taka að ókyrrast og spyrja út í þessi mál á Alþingi á s.l. sumri var fátt um svör. Borið var við ákvæði í lögum um bankaleynd og sagt að allt væri í lagi og engar ástæður til að hafa áhyggjur. Einum og hálfum mánuði seinna er það viðurkennt af stjórn Hafskips að geigvænlegt tap er á rekstri fyrirtækisins. Þá spyrja menn enn og aftur: Hvað hafa allir gæslumenn almannafjár verið að gera? Sváfu þeir allir á verðinum eða er eitthvað annað á kreiki í þessu máli? Og menn horfa til þess að stærsti stjórnmálaflokkur landsins er óþægilega tengdur þessu máli. Persónur og leikendur eru flestir úr honum og menn spyrja þess vegna líka: Hvernig stendur á því? Eru viðskiptahagsmunir skyldir pólitískum hagsmunum? Slíkar og þvílíkar spurningar fljúga nú manna á meðal hér á landi og á hæstv. Alþingi en það er fátt um svör og upplýsingar af skornum skammti. Svo skornum skammti að meira að segja hv. alþm. sem kjörnir eru af þjóðinni til þess m.a. að hafa eftirlit með ráðstöfun sameiginlegra fjármuna landsmanna hafa fram til dagsins í dag haft nánast ekki neitt í höndunum um þetta mál þótt fast hafi verið knúið á um upplýsingar. Enda er það svo að þegar hafa komið fram og verið þingfest á Alþingi hvorki meira né minna en fimm þingmál sem öll miða að því að ná fram upplýsingum í þessu stærsta gjaldþrotamáli í sögu íslenska lýðveldisins. Minna virðist ekki duga til.

Herra forseti. Spurningarnar í þessu máli eru margar og þær eru stórar og þegar stórt er spurt verður oft fátt um svör. Þessar spurningar snerta siðferðilegan grundvöll þess kerfis sem sér um ráðstöfun á sameiginlegu fé landsmanna. Bankakerfið hefur sína öryggisventla. Það hefur bankaeftirlit Seðlabankans og það hefur bankaráð kjörin af Alþingi, en þessir öryggisventlar brugðust í þessu máli. Stóra spurningin er: Hvers vegna? Það mun verða rannsakað og það mun ekki standa á okkur Kvennalistakonum að knýja á um það að sú rannsókn sem gerð verður á þessu máli geti talist marktæk. Ég leyfi mér að láta í ljós það álit mitt að hluti af svarinu við þessari stóru spurningu sé að þeir sem nú hafa steypt a.m.k. 350 milljón króna skuld á herðar landsmanna hugsi að einhverju leyti öðruvísi en það fólk sem finnst orðið vanskilamaður vera hnjóðsyrði og sem vinnur yfirvinnu, eftirvinnu og aukavinnu til að standa við sínar skuldbindingar. Hluti skýringarinnar liggur í því að á þann veg hugsa forsvarsmenn þessa gjaldþrotamáls ekki. Rannsókn málsins verður að skera úr um hvort um lagabrot er að ræða eða ekki en við skulum ekki ganga gruflandi að því hversu siðlaust það er að svona hlutir skuli geta gerst. Og það verkefni sem blasir við okkur sem hér sitjum er að koma í veg fyrir að það geti aftur gerst.