20.10.1986
Efri deild: 4. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í B-deild Alþingistíðinda. (101)

24. mál, lánsfjárlög 1987

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég var því miður fjarverandi fyrri hluta þessarar umræðu á síðasta fundi hv. deildar og kem því að henni fyrst nú. Ég heyri, eins og ég hafði reyndar áður heyrt í fréttum af umræðum í deildinni, að hér muni hafa verið vegið að einni menningarstofnun þjóðarinnar. Ég vil því ekki láta mitt eftir liggja nú og segja nokkur orð.

Það sem hefur borið einna hæst í þessari umræðu eru ummæli hæstv. fjmrh. þess efnis að vel gæti komið til greina að selja Rás 2 Ríkisútvarpsins. Eins og aðrir hafa bent á í umræðunni var það einn upphaflegur tilgangur Rásar 2 að þar væri hægt að koma fyrir annars konar útvarpsstarfsemi en núna er á þeirri rás og Rás 1. Þar má nefna fræðsluútvarp sem mjög miklu máli skiptir, einkum og sér í lagi fyrir þá sem úti á landsbyggðinni búa og eiga langan veg að sækja í framhaldsskóla. Því er útvarpsrás sem sinnt getur fræðsluhlutverki ákaflega mikilvæg í skólamálum framtíðarinnar. Eins mætti nota Rás 2 á þann veg, sem við Kvennalistakonur höfum iðulega rætt hér um í sambandi við útvarpsmál, að leigja út tíma á rásinni til þeirra sem hafa hug á að stunda sjálfstæða dagskrárgerð, þannig að menn geti rekið sín litlu frjálsu útvörp nokkra klukkutíma í viku og þannig stundað það sem við mundum kalla raunverulegt frelsi í útvarpsrekstri, þ.e. að menn hafi aðgang að öldum ljósvakans án þess að þurfa að kosta mjög miklu til þannig að frelsi til útvarpsreksturs byggi ekki á peningum heldur á aðgangi sem öllum er jafnopinn.

Frelsi sjálfstæðismanna er hins vegar mælt í peningum og það er ekki nein ný bóla hér í þingsal að heyra það. Ekki var annað að heyra á fjmrh. en að sú ástæða sem hann nefndi fyrir því að honum hugnast að selja Rás 2 sé sú að Ríkisútvarpið sé í heild sinni óarðbært og skili ekki peningum í ríkiskassann. Það eru auðvitað fjöldamargar aðrar ríkisstofnanir sem ekki eru arðbærar í þessum skilningi og skila ekki peningum í ríkiskassann. Við getum nefnt sjúkrahúsin. E.t.v. hefur hæstv. fjmrh. uppi einhverjar áætlanir um að selja þau líka.

Þar að auki kemur á daginn í þessum umræðum að Rás 2 mun hreint ekki vera óarðbær í peningum og því ekkert óálitleg fyrir þann fjmrh. sem nú situr í stólnum. Þannig er alveg ljóst að það er ekki frelsishugsjón peninganna sem þarna ræður þegar hæstv. fjmrh. talar um að selja rásina heldur einfaldlega að hann er ekkert sérlega hlynntur Ríkisútvarpinu. Rásin skilar arði, hún er ekki óarðbær í peningum, þannig að það eina sem hlýtur að vaka fyrir hæstv. fjmrh. er að hann kærir sig ekki um að Ríkisútvarpið hafi yfir fleiri en einni rás að ráða.

Kvennalistakonur hafa ævinlega viljað styrkja þá menningarstofnun sem Ríkisútvarpið er og þess vegna er ljóst að við munum snúast öndverðar gegn 27. gr. lánsfjárlagafrv.

Að lokum vil ég ítreka spurningu sem hv. þm. Eiður Guðnason bar fram í umræðunum áðan og hæstv. ráðh. lét ósvarað þegar hann kom hér í stólinn. Það kom fram í máli hv. þm. að dreifikerfi Rásar 2 og hluti af dreifikerfi sjónvarpsins eru samtvinnuð. Og þá er það spurningin sem hæstv. ráðh. hefur enn ekki svarað: Hvað ætlar hann að selja þegar og ef hann auglýsir Rás 2 til sölu?