20.10.1986
Efri deild: 4. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í B-deild Alþingistíðinda. (102)

24. mál, lánsfjárlög 1987

Flm. (Eiður Guðnason):

Virðulegi forseti. Frv. það sem hér um ræðir á þriðja þskj. fjallar um frídag sjómanna. Það er tiltölulega stutt og einfalt. 1. gr. þess er svo:

„Fyrsti sunnudagur í júnímánuði ár hvert skal vera almennur frídagur íslenskra sjómanna. Sé fyrsti sunnudagur í júní hvítasunnudagur skal næsti sunnudagur þar á eftir vera frídagur sjómanna.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Í grg. með þessu máli kemur fram að frv. sama efnis var flutt á 108. löggjafarþingi, en varð eigi útrætt. Þá fylgdi því grg. þar sem m.a. kom fram að fyrir allmörgum áratugum helguðu íslenskir sjómenn sér fyrsta sunnudag í júní og gerðu hann að sérstökum hátíðisdegi. Þessi dagur hefur hins vegar ekki verið lögskipaður frídagur sjómanna og því ekki almennur frídagur stéttarinnar.

Það hefur lengi verið baráttumál sjómanna að þessi dagur yrði lögskipaður frídagur og þessu máli var upphaflega hreyft á Alþingi 1984, þá í formi fsp. til hæstv. sjútvrh. Ráðherra var þá að því spurður hvort hann hygðist beita sér fyrir því að sjómannadagurinn yrði lögskipaður frídagur og að það yrði á yfirstandandi þingi. Í svari sínu sagði sjútvrh. m.a.:

„Ég hefi, þrátt fyrir mínar yfirlýsingar, ekki viljað beita mér fyrir því á þessu þingi að svo verði, en tel hins vegar sjálfsagt að taka það upp á næsta þingi, enda er stutt eftir af þessu þingi og ekki öruggt, að slíkt mál næði hér fram að ganga nema mjög góð samstaða væri um það.“

Þegar fjórar vikur voru eftir af þingtímanum í fyrra og í þann veginn að renna út sá frestur er þm. hafa samkvæmt nýjum þingskapalögum til að leggja fram ný mál án afbrigða fluttu ofanritaðir tveir fyrstu flm., þ.e. Eiður Guðnason og Karl Steinar Guðnason, þetta mál í frumvarpsformi, en það varð eigi útrætt.

Í umræðum um málið kom m.a. fram réttilega sú ábending að gera yrði ráð fyrir því í frv. að hvítasunnudagur gæti verið fyrsti sunnudagur í júní og að frídagur sjómanna flyttist þá til. Tillit er nú tekið til þessa í 1. gr. frv. Það kom raunar einnig fram sú ábending að verið gæti að kosningar færu fram um þessa helgi og víst er það rétt að svo gæti farið, en ég hef nú haft um það samráð við forustumenn sjómannasamtaka sem telja enga ásfæðu til að breyta sjómannadegi enda þótt kosningar séu. Það var reyndar svo í vor að það fóru fram kosningar, ef ég man rétt, samhliða því sums staðar.

Því hefur einnig verið haldið fram í umræðum um þetta mál að ekki sé unnt að lögbinda frídag sjómanna því að ekki sé unnt að skipa öllum íslenskum farskipum að sigla til hafnar þann dag. Auðvitað hefur engum heilvita manni dottið í hug að frídagur sjómanna, þó lögskipaður væri, ætti að verða til þess að öllum farskipaflotanum íslenska, hvar sem hann væri á heimshöfunum staddur, yrði stefnt til hafnar þann dag. Það hefur engum manni dottið í hug og þarf meira en lítinn kjánaskap til að snúa út úr þessu máli á þann veg eins og reynt var hér í fyrra. En það á ekki að koma í veg fyrir að frídagur sjómanna verði lögskipaður enda þótt hann geti ekki náð til allra farmanna.

Flm. þessa frv. eru þeirrar skoðunar að með því að lögskipa sjómannadaginn sem frídag sé Alþingi fyrir hönd íslensku þjóðarinnar að sýna sjómannastéttinni heiður og virðingu sem raunar hefði átt að vera búið að gera fyrir löngu.

Virðulegi forseti. Ég hef nú mælt þau orð sem ég tel nauðsynleg til að fylgja frv. úr hlaði, en ég kemst ekki hjá því að víkja að svolítið sérstæðum þætti þessa máls sem kom upp í fyrrasumar þegar í Morgunblaðinu 8. júní er skrifuð frétt á 4. síðu blaðsins þar sem er þriggja hæða fyrirsögn og tveggja dálka frétt: „Sjómannadagurinn verði lögbundinn frídagur framvegis“. Ég hef mjög sterkan grun um, virðulegi forseti, án þess að ég geti fullyrt um það, það er ekki getið neins heimildarmanns hér, hver hafi skrifað þessa frétt. (ÁJ: Það væri fróðlegt að heyra það.) Já, mér þætti ekki ólíklegt að hv. þm. Árni Johnsen, sem að hluta til hefur starfað að fréttaskrifum á Morgunblaðinu og virðist eiga þar betri aðgang en flestir aðrir þm., hafi skrifað þessa frétt. Ég get látið mér detta það í hug, en auðvitað get ég ekkert fullyrt það. Hv. þm. verður að leiða okkur í allan sannleika um það hér á eftir, en mér finnst allur keimur og við skulum segja lyktin af þessari frétt gefa það mjög til kynna. Þessi frétt hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Þeir Guðjón A. Kristjánsson, formaður Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, og Óskar Vigfússon, formaður Sjómannasambands Íslands, hafa tekið jákvætt í að vinna að álitsgerð um lögbindingu sjómannadagsins. Með þetta álit til hliðsjónar hyggst Árni Johnsen alþingismaður flytja tillögu á þingi í haust ásamt fleirum um lögbindingu þessa dags sem frídags fyrir sjómenn. Árni Johnsen sagði að það væri ljóst að við lögbindingu sjómannadagsins sem frídags yrði að taka tillit til ýmissa atriða svo sem hvítasunnu og einnig að greina yrði á milli hjá farmönnum og fiskimönnum. Það er augljóst að það gengur ekki að lögbinda frí fyrir farmenn í landi á sjómannadaginn, en það á að vera unnt án teljandi erfiðleika fyrir alla sjómenn landsins sem stunda veiðar. Árni sagði að ýmsir aðilar hefðu á undanförnum árum haft slíka lögbindingu á orði án þess að nokkuð gerðist, en nú kvaðst hann telja lag og hann kvaðst telja að þingmenn úr öllum flokkum mundu taka þessu máli vel. „Það er sannarlega kominn tími til þess að sjómannadagurinn verði lögbundinn frídagur því engin stétt landsins hefur eins óreglulegan vinnutíma og langan“, sagði Árni.“ (ÁJ: Hvaða lykt er af þessu? Það væri gott að fá skýrgreiningu á lyktinni. Er þm. ósammála einhverju í þessu?) Já, já, hv. þm. getur rætt það hér á eftir þegar honum verður gefið orðið, en ég sagði að mér sýndist á ýmsu að hv. þm. Árni Johnsen hefði sjálfur skrifað þessa frétt í Morgunblaðið vegna þess að ég held satt að segja að ef blaðamaður hefði skrifað þetta hefði hann kannske munað eftir því að þetta mál hafði borið á góma hér á þinginu áður.

Nú er það ekki svo að menn eigi hér neinn einkarétt á hugmyndum, ekki get ég helgað mér neinn einkarétt á þessari hugmynd og dettur það ekki í hug. Hins vegar hafa það verið mannasiðir til þessa í samskiptum þm. að menn taka ekki annarra mál öðruvísi en a.m.k. að segja þeim af því. Það hafa verið þeir mannasiðir sem ríkt hafa hér í samskiptum manna. (Gripið fram í.) Vill ekki hv. þm. bíða þar til hann fær orðið á eftir? Það hafa verið mannasiðir hér að láta vita a.m.k. þegar menn hyggjast taka upp mál sem aðrir hafa flutt. En þarna er vaðið fram á ritvöll Morgunblaðsins eins og þetta mál hafi aldrei verið flutt á Alþingi. Ég leyfi mér að fullyrða að þetta eru mjög óvenjuleg vinnubrögð. Meira skal ég ekki segja. Þetta eru mjög óvenjuleg vinnubrögð.

Hins vegar spunnust um þetta svolítil blaðaskrif. Ég skrifaði grein í Morgunblaðið tveimur dögum seinna, sagði að Árna Johnsen væri velkomið að gerast meðflm. á frv. okkar þegar við endurflyttum það í haust. Hann hafði hins vegar ekkert frumkvæði í þeim efnum um að hafa samband við okkur og því er þetta frv. nú flutt að nýju. Ég heyri að hv. þm. Árna Johnsen er mjög mikið í mun að fá að taka til máls við þessa umræðu, en ég lýsi því aftur og enn að þetta eru heldur óvenjuleg vinnubrögð.

Hins vegar hafa þau gleðilegu tíðindi gerst að okkur var afhentur listi um þau frv. sem ráðherrar hyggjast flytja og á lista þeirra mála sem hæstv. sjútvrh. hyggst flytja er frv. till l. um lögbindingu frídags sjómanna og því ber að fagna. Auðvitað er mér það alveg eitt og okkur flm. hvort frv. okkar er samþykkt eða frv. ráðherrans. Aðalatriðið er að málin nái fram að ganga. Og að því er varðar þá álitsgerð sem vikið var að áðan um að hv. þm. Árni Johnsen hefði beðið þessa tvo heiðursmenn, Guðjón A. Kristjánsson, formann Farmanna- og fiskimannasambandsins, og Óskar Vigfússon, formann Sjómannasambandsins, að gera um þetta mál, er samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér ekkert byrjað á henni og sú álitsgerð yrði auðvitað fyrir alla alþm., ekkert einkamál þessa hv. þm.

Ég sé ekki ástæðu til, virðulegi forseti, að hafa þessi orð öllu fleiri, en legg til að að þessari umræðu lokinni verði þessu máli vísað til 2. umr. Nú brestur mig raunar minni um það til hvaða nefndar þessu máli var vísað í fyrra, en ég hygg að það hafi verið allshn.