27.11.1986
Sameinað þing: 22. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1215 í B-deild Alþingistíðinda. (1048)

Greiðslur afurðastöðva til bænda

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs utan dagskrár vegna fregna sem borist hafa síðustu daga um að afurðastöðvar, eins og þær eru kallaðar í framleiðsluráðslögum frá 1985, telji sig ekki geta staðið víð ákvæði þeirra laga um að greiða bændum fullt verð mánaðarlega fyrir mjólkurafurðir og fyrir sauðfjárafurðir í áföngum fyrir 15. des. ár hvert. Varðar þetta greiðslur fyrir sauðfjárafurðir um miðjan næsta mánuð, svo og mjólkurafurðir í desembermánuði fyrir liðinn mánuð.

Hér er á ferðinni mjög alvarlegt mál, sem snertir bændur í landinu, alla bændur í hefðbundnum greinum, og bætist við fjölda annarra mála sem þrengja að stöðu þeirra. Við þetta bætist að ríkissjóður, sem lýtur forustu hæstv. fjmrh., formanns Sjálfstfl., hefur ekki staðið við greiðslur á útflutningsbótum til afurðastöðva. Er mér tjáð að þar skorti á yfir 200 millj. kr. Afurðastöðvarnar, mjólkursamlög og sláturfélög, telja sig ekki fá þau afurðalán frá viðskiptabönkum sem loforð hafi verið gefin um og verðviðmiðunin sem bankarnir gangi út frá sé til muna of lág þar sem miðað sé við sama afurðaverð á einingu og í desember fyrir ári. Nefnd undir forustu Davíðs Ólafssonar, fyrrv. seðlabankastjóra, mun hafa fjallað um þessi mál í framhaldi af ákvörðun ríkisstjórnarinnar að flytja afurðalán frá Seðlabankanum yfir til viðskiptabankanna og þá verið gert ráð fyrir því að viðskiptabankarnir greiddu afurðastöðvunum afurðalán sem næmu um 74% af niðurgreiddu heildsöluverði sem þá þýddi um 67% af óniðurgreiddu verði. Síðan hefur niðurgreiðsluhlutfallið hækkað nokkuð sem valdið hefur lækkun á afurðalánum viðskiptabankanna niður í um 60% eða jafnvel meira af óniðurgreiddu heildsöluverði.

Viðskiptabankarnir, sem eiga að sjá afurðastöðvunum fyrir þessum lánum svo að þær geti staðgreitt vörurnar til bænda lögum samkvæmt, telja sig ekki geta hækkað þessi lán vegna samkeppnisaðstöðu gagnvart öðrum bönkum, einkabönkunum sem engar skyldur hafa í sambandi við afurðalán til atvinnuveganna. Hér eru því á ferðinni einnig afleiðingar ekki bara af landbúnaðarstefnu heldur af bankastefnu og vaxtastefnu ríkisstjórnarinnar og skipan afurðalánanna sem eru að bitna á bændastéttinni í landinu og afurðastöðvunum sem eiga að sjá um greiðslurnar. Hér er stórt dæmi á ferðinni, meira en milljarður, segja ýmsir. Nákvæmar tölur hef ég ekki. En það má ekki gerast að þessi staða og flækja í kerfinu bitni ofan á allt annað á bændum landsins sem eiga lagalegan rétt á greiðslum fyrir miðjan desembermánuð.

Herra forseti. Ég vil áður en ég vík úr ræðustól inna hæstv. landbrh. eftir því hvað ríkisstjórnin hafi gert í þessu máli og hyggist gera til að tryggja að lögum verði framfylgt.