27.11.1986
Sameinað þing: 22. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1217 í B-deild Alþingistíðinda. (1051)

Greiðslur afurðastöðva til bænda

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég ætla mér ekki að leggja út af lögskýringum hv. 11. landsk. þm. (EgJ: Hann var ekki með neinar lögskýringar.) Það sem er meginmál í þessari umræðu er að hæstv. ríkisstjórn standi við þá stefnu sína, sem hún setti fram á sínum tíma, um það leyti sem búvörulögin voru til meðferðar, að fullt verð yrði greitt út fyrir landbúnaðarafurðir, þær afurðir sem féllu undir komandi samninga, enda yrði afurðastöðvum gert það kleift með afurðalánum. Þessar samþykktir ríkisstjórnarinnar liggja fyrir og m.a. á þessum grundvelli er það frv. og þau lög, sem hér hefur verið vitnað til, unnin og m.a. á þessum grundvelli var að þeim staðið, a.m.k. af hálfu margra okkar stjórnarliða.

Það þarf ekkert að vefengja hversu brýnt er að fjárhagur afurðastöðvanna í landinu sé með þokkalegu móti. Hvernig í ósköpunum ætlumst við til þess að þau fyrirtæki sem eru svo mikilvæg og eru raunar í eigu bænda geti staðið við allar þær skuldbindingar sem við alþm., sem samþykktum búvörulögin, höfum lagt þeim á herðar ef við ætlum ekki að standa við það, sem einhver mundi segja að væru stóru orðin, að þeim yrði tryggt fé svo að þau gætu staðið við að greiða bændum fullt verð fyrir sínar afurðir? Að mínu áliti væri það heimskulegasta aðgerðin að stofna til fjársveltis afurðastöðva, ekki síst vegna þess að við þurfum aldrei í ríkari mæli á því að halda en einmitt nú að stofna til fjölbreytni, bæði í framleiðslu og markaðsmálum á sviði búvöruframleiðslunnar. Það verður ekki unnt ef afurðastöðvunum verður haldið í fjársvelti. Ég treysti því raunar að svo verði ekki. Og stuðningur minn og atfylgi við búvörulögin á sínum tíma var ekki síst bundinn því að ríkisstjórnin stæði við þá stefnu, sem hún setti fram og hefur ítrekað sameiginlega og hefur verið ítrekuð af einstökum ráðherrum síðan, að fjármagn verði tryggt til framgangs þessu máli.