27.11.1986
Sameinað þing: 22. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1219 í B-deild Alþingistíðinda. (1053)

Greiðslur afurðastöðva til bænda

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Þegar búvörulögin voru sett vorið 1985 var það eitt af grundvallaratriðum þeirra laga að bændur fengju grundvallarverð fyrir afurðir sínar sem næst við afhendingu. Ég held að mönnum hafi verið það ljóst, eða vonandi hefur þeim verið það ljóst, að gera þyrfti sérstakar ráðstafanir með lánafyrirgreiðslu, breyta afurðalánakerfinu þannig að afurðastöðvum væri fært að uppfylla þetta grundvallaratriði. Það var reyndar undirstrikað við afgreiðslu laganna og var forsenda fyrir stuðningi þm., þar á meðal mín, við þessa lagasetningu.

Ég treysti því og fagna því að yfirlýsingar hafa gengið um það við þessa umræðu að það sé unnið að þessum málum og ríkisstjórnin hyggist standa við yfirlýsingar sínar varðandi þessi mál vegna þess að bændastéttin þarf á því að halda nú að fá sínar greiðslur á réttum tíma. Það er grundvallaratriði, eins og hv. 5. þm. Vesturl. kom inn á áðan, að afurðastöðvarnar hafi bærilegan fjárhag til að uppfylla þær skyldur sínar sem þær hafa skv. lögunum. Það er nú einu sinni þannig að þessar afurðastöðvar eru yfirleitt í eigu bændanna sjálfra og erfitt er að skilja þar á milli.

Ég ætla ekki að lengja þetta mál, en treysti því að að þessu máli verði unnið af hálfu viðskrh., landbrh. og ríkisstjórnarinnar í heild í samráði við viðskiptabankana og Seðlabankann og þetta mál verði leyst á næstu dögum.