27.11.1986
Sameinað þing: 22. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1228 í B-deild Alþingistíðinda. (1061)

184. mál, varaflugvöllur á Akureyri

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Hv. þm. munu efalaust álíta að erindi mitt upp í ræðustól sé að taka þátt í kjördæmaslag um varaflugvöll. Ég er sömu skoðunar og aðrir að auðvitað þarf að byggja varaflugvöll ef við mönnum okkur upp í það einhvern tímann að leggja til flugmála þá lágmarksfjárhæð sem verkefnin þarfnast. Hins vegar undrast ég dálítið hvað umræða síðustu vikna hefur snúist um varaflugvelli fyrir millilandaflug, en það hörmulega ástand sem ríkir í mannvirkjum fyrir innanlandsflugið er gleymt má segja. Auðvitað má halda því fram að við berum þarna nokkra sök, þingmenn, að hafa ekki haldið betur á þessum málaflokki en raun ber vitni, en ég vil ekki láta hjá líða að minna á þetta við þessa umræðu.

Það er sjálfsagt að byggja varaflugvöll fyrir millilandaflug, en ég vil taka undir það, sem hefur komið fram við þessa umræðu, að það er höfuðatriðið að sú fjárfesting nýtist fyrir innanlandsflugið jafnframt því að varaflugvöllur er afskaplega lítið notaður fyrir millilandaflug. Hann er öryggisatriði og hann gerir að verkum að flugvélar þurfa ekki að bera eins mikið eldsneyti yfir hafið þó að maður hafi heyrt ýmsar skoðanir á því hve virkt það muni vera í raun, a.m.k. í Ameríkufluginu, því að flugvélar taki ætíð fullt eldsneyti á þeirri leið án tillits til varavalla. Þær skoðanir hefur maður heyrt einnig.

Erindi mitt upp í þennan ræðustól nú, af því að flugmál eru til umræðu, var að minna á innanlandsflugið og m.a. að minna á að austur á Egilsstöðum er flugvöllur sem er gífurlega mikið notaður fyrir innanlandsflug. Um þann flugvöll fóru á árinu 1985 65 000 manns og hann er samgöngumiðstöð Austurlands. Þessi flugvöllur er í þannig ástandi að iðulega er hann ófær vegna aurbleytu. Það eru reyndar ekki margir dagar á ári, en hitt er öllu alvarlegra að þessi aurbleyta gerir það að verkum að öryggið minnkar. Ég hef oftlega farið sjálfur á milli Egilsstaða og Reykjavíkur og flýg mjög mikið á þeirri leið. Ég hef horft á það þegar menn hafa verið að skola aurbleytu af hjólastelli Fokker-vélanna. Mönnum er ekkert rótt í sinni þegar þeir horfa á slíkar athafnir. Vatn og aurbleyta geta gert að verkum að öryggið minnkar og þegar frýs fari hjólastellin jafnvel ekki niður með eðlilegum hætti. Svona er ástandið sjálfsagt víðar, en ég minni á að ástandið er svona á þessum mikla umferðarvelli og samgöngumiðstöð þarna fyrir austan.

Það hafa gengið um það yfirlýsingar frá samgrh. að uppbygging Egilsstaðaflugvallar verði næsta stórverkefnið í uppbyggingu flugmannvirkja hér á landi og ég vonast til þess að þingheimur sé á sama máli hvað sem öllum varavallarumræðum líður. Ég minni á að Egilsstaðaflugvöllur er völlur þaðan sem stundað er millilandaflug til Evrópu, héðan frá Reykjavík í gegnum Egilsstaði til Færeyja, þannig að frá þeim velli væri hægt að stunda flug til Evrópu í vaxandi mæli ef hann væri vel upp byggður. Það væri hægt að stunda það flug frá Austurlandi.

Ég vildi ekki láta hjá líða að minna á þessi atriði í ræðu við þessa umræðu án þess að blanda mér í deilur Norðlendinga um hvort varavöllur á að vera á Akureyri eða Sauðárkróki. Ég held satt að segja, eins og komið hefur fram, að veðurfarslega sé Sauðárkrókur betri til þeirra hluta, en að sjálfsögðu kemur Egilsstaðaflugvöllur fyllilega til greina sem slíkur ef út í það er farið. Hann kemur næstur Sauðárkróki hvað veðurfar snertir.

Ég undirstrika að sú fjárfesting sem verður lögð í varavöll hér á landi nýtist innanlandsfluginu. Það verður a.m.k. að verða mikil breyting á fjárframlögum til flugmála ef við höfum nógum fjármunum úr að spila allt í einu, en ef menn taka jafnmikið lánsfé og til flugstöðvar í Keflavík til innanlandsflugsins rætist kannske úr, ef menn halda áfram slíkum lántökum.

En ég minni á þá yfirlýsingu samgrh. að Egilsstaðaflugvöllur sé næsta stórverkefni í flugmálum og ég vona að menn séu á sama máli, að það þurfi að byggja upp þennan ónýta völl þannig að hann geti þjónað sem samgöngumiðstöð fyrir Austurland og sem stökkpallur okkar yfir til nágrannalandanna