27.11.1986
Sameinað þing: 22. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1239 í B-deild Alþingistíðinda. (1066)

184. mál, varaflugvöllur á Akureyri

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir þessa umræðu sem hefur orðið og hefur um margt verið gagnleg að ég tel. Ég vil í upphafi taka það fram, sem ég vonandi þarf þó ekki að gera, að ég geng út frá því og tala um að hér sé á ferðinni íslenskt samgöngumannvirki, byggt fyrir íslenskt fé og rekið af okkur Íslendingum og ég ræði þessi mál ekki á öðrum forsendum.

Eitt er staðreynd í þessu máli sem við getum gengið út frá: Akureyri er í dag miðstöð flugsamgangna á Norðurlandi og reyndar á landsbyggðinni allri. Þetta er auðvitað langmikilvægasti flugvöllur innanlandsflugsins utan Reykjavíkur eins og ég hef margtekið fram í mínu máli. Flugleiðir hafa allt frá þrem, fjórum upp í sjö, átta áætlunarferðir á dag til Akureyrar. Flugfélag Norðurlands er með frá sex og upp í tíu áætlunarferðir á dag til staða um allt Norðurland, til Ísafjarðar og Egilsstaða. Þannig er Akureyri ein höfuðtenging innanlandsflugsins, jafnvel með tilliti til Reykjavíkur, því þar tengjast saman allir fjórðungar með áætlunarflugi. Þar fyrir utan er umtalsvert leiguflug, einkaflug og kennsluflug rekið frá Akureyrarflugvelli sem er stærsti kennsluflugvöllur og þar er rekinn stærsti flugskóli utan Reykjavíkur. Það eru því tugir lendinga og flugtaka á Akureyrarflugvelli á hverjum einasta degi og farþegafjöldi sem þar fer um er geysimikill á íslenskan mælikvarða eins og kom fram í ræðu hv. 4. þm. Suðurl. Ég verð að minna hv. þm. sem hér hafa talað á það að þetta mikla áætlunarflug er allt saman rekið á Akureyrarflugvöll og ég vona að menn geri því ekki skóna að öryggi farþega í því flugi sé stofnað í hættu. Ég leyfi mér að fullyrða að svo sé ekki því ég hef mikla trú á því að íslensk flugfélög standi sig í þeim efnum og taki ekki áhættu sem óverjandi er. Það áætlunarflug sem rekið er nú á Akureyrarflugvöll næstum alla daga ársins, á skrúfuþotum, Fokker Friendship-skrúfuþotum og Boeing-farþegaþotum bæði um jól og páska, það er rekið við núverandi aðstæður og það hefur gengið vel sem betur fer eins og menn vita. Það að fullyrða að ef óhöpp hefðu orðið hefði það getað leitt til alvarlegra slysa á auðvitað við um allar flugsamgöngur. Ef óhöpp verða þar og slys verða þau oftast því miður mjög alvarleg. Það er eðli þessara samgangna.

Ég vil bæta því við, herra forseti, að staða málsins er sú að erlend flugfélög nota nú þegar Akureyrarflugvöll sem varaflugvöll. Í flugturninum á Akureyri fékk ég upplýsingar um það að þeir hafa fengið fyrirspurnir, þeir hafa fengið heimsóknir fagmanna frá erlendum flugfélögum sem hafa verið að gera úttekt á vellinum og a.m.k. tvö evrópsk flugfélög hafa þegar samþykkt völlinn sem slíkan og notað hann og Pan American hefur nýlega gert á honum úttekt og er að láta meta það hvort hann geti dugað þeim sem varaflugvöllur fyrir tveggja hreyfla þotur sem þeir ætla að hefja áætlunarflug á yfir Atlantshafið. Þetta er því staðreynd nú þegar. Vandamálin eru, eins og réttilega kom fram hjá hv. 4. þm. Suðurl., fyrst og fremst þau að blindflugsaðstæður, með þeirri tækni og með þeirri blindflugsleið sem minni flugvélar nota nú, eru of þröngar fyrir vélar af gerðinni DC-8 eða sambærilegar og stærri ef hreyfilbilun verður í aðflugi úr norðri. Hvað varðar að taka af vellinum til suðurs má benda réttilega á það að sem varaflugvöllur minnkar það í raun ekki getu hans því menn tækju ósköp einfaldlega ekki af vellinum aftur við ótryggar aðstæður í þeim tilfellum. Af því gæti að vísu leitt óhagræði en það er ekki öryggisatriði.

Vegna þeirra ummæla sem hér hafa komið fram, m.a. hjá hv. 1. þm. Norðurl. v., að algjör einhugur og samstaða ríki um það að Sauðárkróksflugvöllur verði fyrir valinu og að sú ákvörðun hafi í raun verið tekin, ef skilja mátti mál hans og hv. þm. Stefáns Guðmundssonar svo, vil ég taka fram að það er ekki rétt. Ég hef t.d. birt álit varaformanns flugráðs, Hilmars Baldurssonar, sem er reyndur flugmaður á DC-8 flugvélum og mikill flugáhugamaður, þar sem hann telur bæði nærtækasta og hagstæðasta kostinn vera, miðað við þær aðstæður sem við búum við, að láta þaulkanna hvort Akureyrarflugvöllur geti sinnt þessu hlutverki. Ég verð enn að taka fram, svo menn misskilji það ekki, að engin deila stendur um það, a.m.k. ekki af minni hálfu, að æskilegast væri að við hefðum efni á því að byggja fullkominn varaflugvöll á Sauðárkróki og það helst strax á morgun. Vissulega. Um það er ekki deilt hér. Hér er deilt um aðra hluti, svo sem forgangsröðun verkefna og hagstæðustu kostina með tilliti til þeirra fj ármuna og þeirra aðstæðna sem við búum við. Ég hlýt að benda á það, m.a. vegna þess að þm. Austurl. hafa hér nefnt Egilsstaðaflugvöll og þær óviðunandi aðstæður sem þar eru, og ég er þeim hjartanlega sammála. Hvernig yrði ástandið næstu 10-15 árin ef við bindum geysifjármuni í uppbyggingu varaflugvallar miðað við t.d. núverandi fjárveitingar til þessa málaflokks? Ég vil biðja hv. formann fjvn. að hugleiða það örlítið, ef við t.d. færum að ráðstafa af þeim takmörkuðu fjármunum sem við leggjum til þessa málaflokks, innanlandsflugsamgangnanna, hliðstæðum fjármunum og eiga nú að renna til flugstöðvarbyggingar á Keflavíkurflugvelli um árabil í svona verkefni, hvernig mundi okkur þá miða á Egilsstöðum og annars staðar þar sem flestu er ábótavant? Við höfum ekki efni á fyllsta öryggi alls staðar í okkar flugsamgöngum. Því miður. Ég hef sjálfur tekið þátt í því að lýsa upp flugvelli úti á landi með bílljósum og lugtum þegar verið var að fljúga sjúkraflug að næturþeli við algerlega óviðunandi aðstæður, þar sem flugmenn okkar leggja sig í lífshættu, svo ekki sé talað um sjúklinginn og lækna og aðra sem með þeim fara, við aðstæður sem eru jafnvel svo hættulegar að það er spurning hvort sjúkraflug er réttlætanlegt undir slíkum kringumstæðum.

Við þetta búum við enn á fjöldamörgum stöðum landið um kring. Þarna er öryggi ábótavant vegna þess að það vantar peninga. Á þetta benti ég í umræðum hér á Alþingi, þegar til umræðu var bygging flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli, við litla hrifningu sumra þm. sem töldu að ég væri í raun og veru að saka þá um óhæfu. En ég benti ósköp einfaldlega á það að við erum að velja og hafna og því miður höfum við ekki efni á því enn sem komið er, og því miður er sennilega langt í það, að kaupa okkur alls staðar fyllsta öryggi. Ég hlýt einnig í þessu sambandi að benda á, hafi menn ekki áttað sig á því, að varaflugvallardæmið er ekki eingöngu spurning um öryggi. Það er í raun og veru frekar, og það kemur fram í málsskjölum öllum, spurning um rekstrarhlið málsins. Það er miklu hagkvæmara fyrir flugrekstraraðilana að eiga fullnægjandi varaflugvöll hér á landi vegna eldsneytisbirgðanna og hleðslu flugvélanna. Þetta vita menn. Ég held þó að færa megi að því rök að það sé líka öryggisatriði, og það er það ábyggilega, að hafa varaflugvöllinn hér. Það er án efa æskilegra og þess vegna er það von mín að úr því rætist sem fyrst.

Ég vona sem sagt að það að skoða Akureyri gæti leitt okkur að þeirri niðurstöðu að þessi flugvöllur gæti með tiltölulega litlum úrbótum þjónað þessu hlutverki um sinn á meðan okkur miðar eitthvað áfram í uppbyggingu flugsamgangnanna og þangað til aðrir flugvellir verða komnir í það horf að geta sinnt þessu hlutverki einnig og jafnvel yfirtekið það. Ég held að Sauðárkróksflugvöllur verði tvímælalaust þar mjög ofarlega á blaði. Egilsstaðaflugvöllur hefur einnig ýmsa kosti, m.a. staðsetningu. Hann liggur nálægt Evrópu og flugsamgöngum þangað og gæti t.d. í sambandi við vörudreifingu orðið hagkvæmur af þeim ástæðum einnig, og fleira mætti til taka.

Ég flyt þetta mál ekki sem kjördæmapot og ég hlýt að harma það að menn skuli gera því sérstaklega skóna að þessi till. sé flutt til að ala á úlfúð og ýta undir einhvern kjördæmaríg. Ég nefndi það aldrei á nafn í minni ræðu og þess sér hvergi stað í þessari till. að hún sé á einhvern hátt flutt gegn öðrum valkostum eða möguleikum í þessu efni. Hún er einfaldlega flutt til þess að fá gerða þá rækilegu úttekt sem þarna er talað um og ég tel að það séu full rök fyrir því að fara fram á þessa úttekt einmitt nú. Ég vísa í álit manna eins og Hilmars Baldurssonar og Sigurðar Aðalsteinssonar, sem er flugstjóri og formaður stjórnar Flugfélags Norðurlands og sennilega sá maður íslenskur sem einna mesta reynslu hefur af aðstæðum við Akureyrarflugvöll eftir að vera búinn að fljúga þangað og stjórna flugi þaðan um árabil. Ég vísa í þá þróun, þær breytingar sem eru að eiga sér stað í þessum efnum og fyllilega réttlæta það að mínu mati að fram fari nú ítarleg úttekt á þessum málum.

Ég hlýt að mega upplýsa það hér að varaformaður flugráðs hefur einmitt farið fram á það þar, flutt um það tillögur, að slík úttekt verði gerð og eitthvað hefur verið unnið í þá átt. Það er á því stigi að ekki er rétt að skýra mikið frá því hér og nú, en þessi till. er m.a. flutt í framhaldi af álitsgerð slíkra manna, sem telja að þarna sé kostur sem sé tvímælalaust rétt að þrautkanna áður en menn snúa sér að öðrum möguleikum. Ef niðurstaðan verður sú að jafnvel með tilliti til líklegrar þróunar þessara mála verði Akureyrarflugvöllur ekki mögulegur í þessu skyni, þá hafa menn þá niðurstöðu og ganga síðan út frá henni. Könnun af þessu tagi ætti ekki að þurfa að taka þann tíma né kosta þá töf máls, sem er ekki einu sinni á ákvörðunarstigi enn þá, að það sé ekki réttlætanlegt. Ég hlýt einnig að spyrja hv. þm. Norðurl. v. í framhaldi af þeirra ummælum: Hvað hræðast þeir í sambandi við þessa könnun, við þessa till., ef sú bjargfasta sannfæring þeirra er fyrir hendi að Akureyrarflugvöllur sé ónothæfur í þessu efni eins og mér fannst brydda á í þeirra máli? Hvað hræðast þeir þá? Er þá ekki þeirra hagur í raun að fá úr því skorið í eitt skipti fyrir öll með rækilegri úttekt á málinu? Ég hefði haldið það.

Ég ætla í sjálfu sér ekki að fara út í miklar umræður um kostnað í þessu sambandi. Ég vil þó taka fram að þær upplýsingar sem ég hef um kostnað við að lengja flugbrautina á Akureyri eru nokkuð aðrar en þær sem hv. 4. þm. Suðurl. vitnaði í. Ég hef tölur um að sjálf lengingin gæti kostað innan við 30 millj., en með breikkun og malbikun flughlaða og annars slíks væri þetta nær þeirri tölu sem hann nefndi. Ég get t. d. vitnað í það að reikna má með að malbikunin ein kosti um 1000 kr. á hvern fermetra, þ.e. 4+7 cm í malbiki kosti um 1000 kr. á fermetra. Það segir okkur t.d. að malbikun á 2300 metra flugvel13, sem er 45 metra breiður, kostar ein sér á annað hundrað millj. kr. Þannig að sá hluti Akureyrarflugvallar sem þegar er malbikaður með fullnægjandi burði fyrir þotur er ekkert litil eign, akkúrat í því malbiki. Þar er sem sagt um fleiri tugi millj. kr. sparnað að ræða, bara það malbik sem þar er fyrir hendi.

Hv. 5. þm. Norðurl. v. Stefán Guðmundsson ræddi hér um þessi mál og fór á köflum aðeins út fyrir efnið þegar hann tók að ræða um fegurð og sjoppufjölda á einstökum stöðum. Ég hafði nú ekki hugsað mér að draga svo fjarskylda hluti inn í málin en út af fyrir sig get ég alveg eins haldið hólræður um náttúrufegurð í Skagafirði og Stefán um fegurðina á Akureyri. Ég held að það standi Skagafirði ekkert fyrir þrifum að hann sé svo miklum mun ljótari en Akureyri. En það eru að sjálfsögðu ýmsir aðrir kostir sem menn hljóta að hafa í huga, m.a. öryggisþátturinn ef eitthvað kemur upp á, viðbúnaður í slíkum tilfellum, slökkvilið, sjúkrahús, læknisþjónusta og annað af því tagi. Þetta er fyrir hendi á Akureyri í ágætum mæli eins og nú er.

Spurningin snýst um öryggi, segir hv. 5. þm. Norðurl. v. Það er að hluta til rétt en aðeins að hluta til. Spurningin snýst hér um fleira. Spurningin um öryggi í íslenskum flugmálum snýst um peninga. Spurningin snýst þar af leiðandi einnig um peninga vegna þess að menn þurfa að kaupa öryggið í þessum efnum fyrir peninga. Menn þurfa að byggja sig upp og búa sig út þannig að fyllsta öryggis sé gætt og það er ekki síst á þeim forsendum sem ég tel það í raun og veru ábyrgðarleysi að kanna ekki til hlítar þann kost sem í fyrsta lagi er nærtækastur, vegna þess að það tæki langstystan tíma að bæta þannig aðstæður á Akureyrarflugvelli að hann gæti sinnt þessu hlutverki, og sem í öðru lagi er hagkvæmastur, vegna þess að rekstrarlega séð er það óumdeilanlega hagkvæmasti kosturinn að sameina langþýðingarmesta og fjölfarnasta flugvöllinn í innanlandsfluginu utan Reykjavíkur varaflugvellinum. Það gefur auga leið. Þetta tvennt finnst mér rökstyðja það svo rækilega og segja allt sem segja þarf um að það er skynsamlegt. Og það má segja að það sé ábyrgðarleysi að kanna ekki fyrst til þrautar hvort þessi valkostur sem hér er flutt till. um, dugi.

Herra forseti. Ég er rétt að ljúka máli mínu. Ég vil að lokum segja að það er ljóst að hvort sem Akureyri verður sérstaklega höfð í huga sem varaflugvöllur eða ekki, þá verður þeim flugvelli ekki haldið á einhverju núlli um áraraðir. Þar verða uppi kröfur um frekari úrbætur vegna þeirrar miklu þýðingar sem flugvöllurinn hefur af sjálfu sér í innanlandssamgöngunum. Og þar verða einhverjar úrbætur í gangi á næstu árum, það er okkur öllum nokkuð ljóst, sem og á öðrum flugvöllum. Þó að svo væri, og þó að svo sé, að Íslendingar séu allir, hver einn og einasti í hjarta sínu sammála um það að þeirra óskavaraflugvöllur gæti orðið á Sauðárkróki eða Egilsstöðum eða öðrum stað sem hefur til þess ákjósanlegar aðstæður, þá er það, og ég undirstrika, þá er það óskavaraflugvöllur. Það er eitthvað sem er okkar framtíðarsýn, okkar ósk, en við lifum í núinu og við reynum að taka tillit til aðstæðna og með það í huga held ég að því verði ekki á móti mælt að þessi till. til þál., sem hér er flutt, sé skynsamleg, hér sé um vandaða málsmeðferð að ræða, till. af vandaðri málsmeðferð, og ég sé í raun ekki hvað menn geta haft á móti slíku.