02.12.1986
Sameinað þing: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1257 í B-deild Alþingistíðinda. (1082)

164. mál, hernaðarframkvæmdir

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fyrir hæstv. utanrrh. fsp. á þskj. 174 um hernaðarframkvæmdir. Spurt er um þær framkvæmdir sem leyfðar hafa verið eða beðið hefur verið um frá því að Alþingi var síðast gerð grein fyrir slíkum hlutum. Ég spyr, með leyfi forseta:

„1. Hefur utanrrh. heimilað Bandaríkjaher eða Atlantshafsbandalaginu að hefja einhverjar nýjar framkvæmdir síðan Alþingi var síðast gerð grein fyrir slíku á s.l. vori eða liggja fyrir beiðnir fyrrgreindra aðila um nýjar framkvæmdir?"

Það er, herra forseti, að verða nokkuð árviss viðburður að ég leggi slíka fsp. fyrir hæstv. utanrrh. og uppskeran hefur ætíð verið nokkur, því miður verð ég að segja. Er ágætt fyrir skjalasöfn framtíðarinnar að hafa það dagsett með svörum hæstvirtra utanríkisráðherra í þessari ríkisstjórn hvenær ákvarðanir voru teknar um hverja kippu af hernaðarframkvæmdum í senn. Þetta er að verða dálaglegur listi. Þetta verður væntanlega í síðasta sinn sem ég legg a.m.k. í tíð þessarar hæstv. ríkisstjórnar svona fsp. fyrir og verður skráningunni lokið og hún fullkomnuð þegar svörin liggja fyrir.

Í öðru lagi spyr ég: „Hafa átt sér stað viðræður um aðild Íslands að mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins og ef svo er, á hvaða stigi eru þær viðræður?"

Ég vísa til skýrslu hæstv. utanrrh. um utanríkismál á síðasta þingi þar sem vikið er lítillega í skýrslunni að þessu tiltekna atriði og rætt um að kanna hvort það sé hagkvæmt fyrir Íslendinga að gerast aðilar að þessum sjóði. Ég bið menn að hugleiða í því sambandi þá eðlisbreytingu sem yrði á aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu ef það tengdist með þeim hætti hinni hernaðarlegu uppbyggingu þess og hinum hernaðarlegu stofnunum þess enn frekar en orðið er, en eins og kunnugt er hefur það verið stefna hæstvirtra utanríkisráðherra Sjálfstfl. í þessari ríkisstjórn að tengja Ísland með öllum tiltækum ráðum meira við hina hernaðarlegu hlið NATO og hernaðarlegu stofnanir þess, sbr. sérstakan hernaðarfulltrúa í Brussel og aðild að hernaðarlegu nefndinni og uppbyggingu sérstakrar skrifstofu eða deildar herspekinga heima á Íslandi sem bólgnað hefur mjög út á síðustu árum og fengið nægar fjárveitingar til að auka umsvif sín hvað sem líður öllum öðrum niðurskurði. Þess vegna er nauðsynlegt að Alþingi sé þegar í stað gerð grein fyrir því á hvaða stigi hugsanlegar kannanir á aðild okkar Íslendinga að mannvirkjasjóði NATO eru staddar.