02.12.1986
Sameinað þing: 24. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1303 í B-deild Alþingistíðinda. (1139)

195. mál, leiguhúsnæði

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Mér finnast nú þessir útúrsnúningar hv. 3. þm. Norðurl. e. kunnuglegir. Ég hef flutt hér margar ræður um húsnæðismál og ég hef ævinlega lagt á það þunga áherslu að ég treysti stéttarfélögum og sveitarfélögum best til þess að meta þörf þeirra einstaklinga sem erfiðast eiga. Ég hef talið að verkamannabústaðakerfið ætti að svara þeirri þörf gagnvart miklum hluta þessa fólks. Síðan eru aðrir sem búa í leiguíbúðum sveitarfélaga og það verða að gera. Ég hef ekki talið að aðrir en þessir tveir aðilar, sveitarfélögin og verkalýðsfélögin, væru betur fær til þess að meta þörf þess fólks sem er verst statt í þessu þjóðfélagi. Þetta hefur margsinnis komið fram. Og ég ítreka að í þeirri milliþinganefnd, sem ég sat í um húsnæðismál á árunum 1983-1984, beitti ég mér sérstaklega fyrir því að það ákvæði væri tekið inn að heimild væri til að lána - eða ég víkka það út, ég man ekki hvort það var vísir að því áður - ég gerði a.m.k. rýmra það ákvæði sem veit að því að heimilt sé félagasamtökum eða sveitarfélögum að byggja leiguíbúðir við hóflegum kjörum fyrir aldraða, öryrkja eða námsmenn og aðra þá sem verst eru settir. Þannig að útúrsnúningur af þessu tagi nær náttúrlega engri átt.

Það sem ég var að segja og er kjarninn í mínu máli: Fyrir fólk sem er jafnvel statt, sem er heilbrigt, sem gegnir hinum ýmsu gagnlegu störfum í þjóðfélaginu á að vera til sá kostur að það eigi sæmileg tök á því að eignast sína íbúð. Það er það sem ég er að segja. Það dregur ekkert úr því að ég vilji koma til móts við aðra. En ef við ætlum að stækka þann hóp óþarflega mikið, sem hér er verið að tala um, sem við bjóðum þessi kjör, leiguíbúð, það þýðir að lagt er fram 100% fjárins og vextirnir eigi að vera 1% á ári, þá erum við náttúrlega að fara illa með opinbert fé. Við erum að því. Og við erum að bjóða upp á húsnæðiskost sem engar líkur eru til að þetta fólk sé ánægt með til lengdar. Þess vegna segi ég að við mætum best þörfum þessa fólks með því að rýmka heimildir til þess að fólk geti spjarað sig sjálft, eignast sínar íbúðir og því má ekki gleyma.