08.12.1986
Neðri deild: 17. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1415 í B-deild Alþingistíðinda. (1256)

228. mál, Kjaradómur

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það frv. sem hér er til umræðu er flutt í beinum tengslum við frv. til laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna og því mjög mikilvægt að um það sé fjallað í samhengi og samræmi við þá umfjöllun sem það frv. fær. Samkvæmt venju hefur verið um þau mál fjallað, þ.e. breytingar á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, í fjh.- og viðskn. í a.m.k. aldarfjórðung sem Alþingi hefur fengið þau mál til meðferðar.

Í annan stað vil ég minna á að síðast þegar breytingar voru gerðar á lagaákvæðum um Kjaradóm fékk hv. fjh.- og viðskn. það mál til meðferðar. Ég tel það þess vegna í fullu samræmi við þær hefðir sem hér hafa verið og þær ákvarðanir sem Alþingi hefur áður tekið, bæði að því er varðar nefndarmeðferð um breytingar á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna og eins að því er varðar Kjaradóm sjálfan, og legg þess vegna áfram til að frv. verði vísað til hv. fjh.- og viðskn.