09.12.1986
Sameinað þing: 26. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1432 í B-deild Alþingistíðinda. (1276)

Fjarvera ráðherra

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Nú er að hefjast fyrirspurnafundur og þá eru þrír ráðherrar með boðuð forföll, auk hæstv. menntmrh. sem mun vera fjarverandi úr þinginu þessa daga. Það er ákaflega bagalegt, þá sjaldan þarf á ráðherrum að halda hér til að umræður geti gengið eðlilega fyrir sig, að þeir skuli ekki mæta á þingfundi. Sérstaklega er þetta alvarlegt í dag vegna þess að hæstv. heilbrmrh. hefur boðað forföll þegar fyrir liggur hér fsp. sem ég lagði fram í síðustu viku um kaup ríkisins á Borgarspítalanum. Fsp. er á þskj. 23? þar sem spurt er:

„Mun heilbrmrh. beita sér fyrir því að ríkið kaupi Borgarspítalann? Hafa farið fram viðræður um kaup ríkisins á Borgarspítalanum eða öðrum sjúkrahúsum sveitarfélaga? Telur heilbrmrn. að auðveldara sé að tryggja vandaða heilbrigðisþjónustu ef fleiri sjúkrahús landsins verða í eigu ríkisins?"

Ég tel að það sé ákaflega brýnt að svar hefði fengist við þessari fsp. strax í dag vegna þess að fyrir borgarráði Reykjavíkur liggur í dag tillaga frá borgarstjóra um að Reykjavíkurborg selji ríkinu Borgarspítalann. Ég tel að það sé nauðsynlegt að viðhorf hæstv. heilbrmrh., ríkisstjórnar og stjórnarflokka til þessa máls komi fram þegar í stað þannig að það sé unnt fyrir alla aðila, borgaryfirvöld og starfsmenn Borgarspítalans, að átta sig á því hvað hér er á ferðinni. Það hefur verið pukrast með þetta mál. Það hefur verið lokað inni og mér er kunnugt um að þó að fyrir liggi samningsuppkast um sölu á Borgarspítalanum hefur forstjóri Borgarspítalans ekki fengið að sjá það samningsuppkast enn þá.

Hér er framkvæmd mála öll mjög í skötulíki þegar ljóst er hins vegar að nauðsynlegt er að taka fjármál spítalanna í landinu til alvarlegrar athugunar, m.a. vegna þess að hallinn á daggjaldaspítulum landsins var fyrstu níu mánuði þessa árs 500 millj. kr., 19,4%. (Forseti: Hv. þm. er beðinn að athuga að þetta eru umræður um þingsköp.) Já, þetta tengist þingsköpum, herra forseti.

Ég tel að það sé óhjákvæmilegt að vekja athygli á þessu máli hér vegna þess að umræða verður að fást um þetta mál og niðurstaða áður en 2. umr. fjárlaga fer fram. Ætlar Sjálfstfl. að knýja ríkið til þess að kaupa eina tíu spítala í landinu á einu bretti næstu daga? Er þetta valddreifingarstefna Sjálfstfl.? Hæstv. heilbrmrh. hefur kosið að vera fjarverandi þegar þetta mál er á dagskrá. Ég vænti þess að hæstv. forseti sjái svo til að þetta mál verði rætt á fundi í Sþ. á þriðjudaginn kemur þannig að umræða geti farið fram hér um þessi mál og vandamál sjúkrahúsanna í landinu áður en fjárlög verða afgreidd. Ég fullyrði að ef standa á að þessum málum, sem snúa að spítalakerfinu í landinu, með þeim hætti sem uppi eru hugmyndir um mun það taka langan tíma í umræðum á hv. Alþingi við umræður um fjárlög fyrir árið 1987. Það verða öll ráð til þess að sjá fram úr því.