13.12.1986
Sameinað þing: 31. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1678 í B-deild Alþingistíðinda. (1400)

1. mál, fjárlög 1987

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Það hefur verið höfn á Blönduósi í meira en hálfa öld og verður það áfram. En þessi höfn þarfnast endurbóta eins og aðrar hafnir. Fyrir fimm árum fór fram alveg nákvæmlega eins atkvæðagreiðsla um höfn á Blönduósi hér á hv. Alþingi, sérstök atkvæðagreiðsla að beiðni þess sama sem nú ber fram beiðnina. Þá var samþykkt að veita fjárveitingu upp á 623 þús. sem samsvarar um 3 millj. kr. í dag. Árið eftir var samþykkt samhljóða verulega hærri fjárhæð sem jafngildir um 3,3 millj. í dag og síðan hvert árið 1983, 1984 og 1985. Samtals nema þessar fjárveitingar rúmum 11 millj. kr. á núvirði. Þessi atkvæðagreiðsla í dag um 4 millj. til endurbóta á Blönduóshöfn hlýtur því að koma mjög spánskt fyrir sjónir að ekki sé meira sagt eftir þær fjárveitingar sem veittar hafa verið á undanförnum árum. Ég segi hiklaust já.