16.12.1986
Sameinað þing: 32. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1816 í B-deild Alþingistíðinda. (1621)

190. mál, umhverfismál

Félagsmálaráðherra (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Í sambandi við fsp. er rétt að geta þess að ég var fyrir löngu tilbúinn að svara henni, en síðast þegar hún var tekin á dagskrá var hv. fyrirspyrjandi ekki til staðar.

Ég vil af þessu tilefni gefa stutt yfirlit um sögu þessa máls. Í tengslum við gerð stjórnarsáttmála eða stefnuyfirlýsingar núv. ríkisstjórnar var ákveðið að vinna áfram markvisst að eflingu náttúruverndar og gróðurverndar, eins og þar segir, með löggjöf. Í ágúst 1983 skipaði félmrh. nefnd fimm manna til að ganga frá frv. til l. um stjórn umhverfismála og skyldi m.a. byggja að nokkru á fyrri frumvörpum um sama efni. Í nefndina voru skipaðir Hermann Sveinbjörnsson, formaður, Ólafur Dýrmundsson, Markús Á. Einarsson, Salome Þorkelsdóttir og Sturla Friðriksson. Af hálfu ráðherra var lögð áhersla á að nefndin hraðaði störfum. Nefndin hóf því þegar umfjöllun um fyrri frumvörp og hafði samband við þá sem þar höfðu komið við sögu, m.a. hv. alþm. Gunnar G. Schram sem kom á fund nefndarinnar.

Á síðasta degi þings fyrir jól haustið 1983 lagði Gunnar G. Schram ásamt nokkrum þm. Sjálfstfl. fram frv. til l. um umhverfismál. Var þar að stofni til um að ræða frv. sem lagt var fram á Alþingi 1978, sem samið var á vegum félmrn., með minni háttar umbótum, viðbótum og breytingum. Með því að frv. Gunnars G. Schram o.fl. var fram komið álitu fulltrúar Framsfl. í nefndinni að sjálfstæðismenn væru þar með að færast undan að vinna að stjfrv. um málið og fulltrúar Sjálfstfl. í nefndinni töldu ekki þörf á frekara starfi að málinu eftir að frv. Gunnars G. Schram var lagt fram. Leystist nefndin þar með upp og staðfesti formaður nefndarinnar það í bréfi til félmrh. í febr. 1984. Samkomulag náðist hins vegar milli þingflokka um að fresta umræðu um frv. Gunnars G. Schram o.fl. með hliðsjón af þeim farvegi sem málið var í og ætti að vera í á vettvangi félmrh.

Eftir að starf framangreindrar nefndar leystist upp fól félmrh. formanni nefndarinnar, Hermanni Sveinbjörnssyni, að vinna áfram að framgangi málsins í umboði ráðherra. Með samþykki ráðherra fékk Hermann Sveinbjörnsson sér til aðstoðar Pál Líndal lögfræðing til að vinna að greinargerð um málið ásamt tillögum og afhentu þeir félmrh. greinargerð í ágúst 1984 sem ber yfirskriftina „Heildarstjórn umhverfismála. Hugtakið umhverfismál, heildarstjórn þeirra, tilraunir til lagasetningar hérlendis um umhverfismál og hugmynd um næstu skref í því efni.“ Félmrh. kynnti greinargerð þessa í ríkisstjórninni í september sama ár.

Í greinargerð frá ágúst 1984 er lagt til að kanna í upphafi pólitískan vilja Alþingis varðandi tvö lykilatriði.

1. Hugtakið umhverfismál, málefni og þar með framkvæmd eldri laga og reglugerða eiga að falla undir heildarstjórn umhverfismála.

2. Stjórn umhverfismála á að mynda ráðuneyti umhverfismála með tilfærslu málaflokka milli ráðuneyta.

Í október 1984 lagði félmrh. fram í ríkisstjórn drög að þáltill. varðandi svör Alþingis við fyrrgreindum lykilatriðum. Þessi málsmeðferð hlaut ekki stuðning í ríkisstjórn.

Í ársbyrjun 1985 ákvað ríkisstjórnin að framlagðar tillögur félmrh. um stjórn umhverfismála skyldu hljóta frekari umfjöllun í viðkomandi ráðuneytum. Fór félmrh. fram á skriflegar greinargerðir um afstöðu allra þeirra ráðuneyta sem málið varðar mest. Komu þær athugasemdir í seinni hluta febrúar 1985 og var þar í stórum dráttum lýst yfir andstöðu við tillögur um breytingar á núverandi skipan umhverfismála í íslenskri stjórnsýslu.

Í byrjun apríl 1985 gerði félmrh. ríkisstjórn grein fyrir afstöðu embættismanna þeirra og ráðuneyta sem beðin höfðu verið um viðbrögð. Í minnisblaði sínu til ríkisstjórnarinnar dags. 2. apríl 1985 ítrekaði félmrh. þá skoðun sína að stefnan verði að koma ofan frá, þ.e. frá Alþingi en ekki embættismönnum og frv. yrði þannig að fara fyrir Alþingi.

Með hliðsjón af tómlæti ríkisstjórnar, ekki síst af hálfu Sjálfstfl., ákvað félmrh. haustið 1985 að samið yrði frv. á vegum félmrn. Í ársbyrjun 1986 lá frv. fyrir í anda greinargerðarinnar frá 1984. Í samráði við forsrh. varð þó að ráði að freista þess enn einu sinni að ná samkomulagi í ríkisstjórn um meginstefnuna áður en lengra yrði haldið, m.a. með hliðsjón af frv. um Stjórnarráð Íslands. Í þessu augnamiði lagði forsrh. fram ákveðnar tillögur til ríkisstjórnarinnar í júlí og september s.l. sem báru yfirskriftina „Stefna ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum.“ Þar lagði forsrh. m.a. fram málamiðlunartillögur um flutning verkefna milli ráðuneyta. Seinni tillögur forsrh. frá september s.l. má líta á sem lágmarksmálamiðlunarbyrjun með sameiningu náttúruverndar- og skipulagsmála á vettvangi félmrn. Þessi till. hlaut heldur ekki frekar en fyrri tillögur undirtektir í ríkisstjórn. Að svo komnu þótti forsrh. og félmrh. fullreynt með pólitískan vilja í þessu máli og hefur málið ekki komið á dagskrá á ríkisstjórnarfundum síðan í september.

Herra forseti. Ég taldi rétt að rekja nákvæmlega sögu þessa máls eins og fram hefur komið til þessa dags og að sjálfsögðu hef ég á þessari stundu ekki meira við málið að bæta öðru en því að samskipti Íslands við Norðurlöndin hafa verið að öllu leyti eins og til hefur staðið og ekki staðið á því að vinna á þeim vettvangi með hinum Norðurlöndunum. En meira hef ég ekki um málið að segja á þessu augnabliki, herra forseti.