19.12.1986
Sameinað þing: 35. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2047 í B-deild Alþingistíðinda. (1975)

1. mál, fjárlög 1987

Frsm. samvn. menntm. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Svo sem venja er hittust menntamálanefndir beggja deilda og ræddu um hvaða háttur skyldi hafður á um heiðurslaun listamanna að þessu sinni. Hittist nefndin á þrem fundum og varð sú niðurstaðan að tveir listamenn skyldu bætast í hóp þeirra sem fyrir væru, Árni Kristjánsson píanóleikari og Jón úr Vör skáld.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um þessa listamenn. Árni Kristjánsson er einn af brautryðjendum tónlistar hér á landi, framúrskarandi píanóleikari og átti vísan frama erlendis, en kaus að koma heim og starfa hér, mikill menningarmaður í lífi og starfi.

Jón úr Vör varð þjóðkunnur í einni svipan þegar ljóðabók hans, „Þorpið“, kom út og hygg ég að hann hafi skipað sér þann sess meðal íslenskra skálda að bókmenntasagan verði ekki rakin án þess að hans sé minnst. Hann er hógvær túlkandi og alþýðufólk, fólkið í þorpinu er honum kært yrkisefni og myndir hans þaðan mjög lifandi og skýrar.

Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um þetta. Við leggjum til að listamannalaun hækki úr 275 þús. kr. í 330 þús. kr. eða um 20%. Flm. þessarar brtt. eru allir nefndarmenn menntamálanefnda beggja deilda. Ég veit ekki hvort þessu þskj. hefur verið útbýtt, en ég hef afhent það og það hefur verið skráð.