22.10.1986
Neðri deild: 5. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í B-deild Alþingistíðinda. (223)

53. mál, endurmat á störfum láglaunahópa

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð vegna ræðu hv. þm. Karvels Pálmasonar.

Ég vil ítreka, til að fyrirbyggja allan misskilning, að það er ekki tilviljun að ég tek stundum þingmannslaun sem dæmi. Ástæðan fyrir því er sú að framfærslukostnaður vísitölufjölskyldunnar er nokkurn veginn sama upphæð og þingmannslaun eru nú. Laun þar fyrir neðan og laun sem eru þrisvar og tvisvar sinnum lægri eru beinlínis móðgun við vinnandi fólk. (Gripið fram í: Mér finnst það.) Þetta vil ég leggja áherslu á. Ég skal hins vegar taka undir með hv. þm. að meinalaust væri það mér ef menn gætu komist að því samkomulagi að þeir sem væru með yfir 70 þús. kr. á mánuði biðu með launahækkun, svo sannarlega. En það sýnir auðvitað hversu fáránleg laun í landinu eru orðin að þm. skuli vera með þau mánaðarlaun sem talin eru nægja til framfærslu fjögurra manna fjölskyldu. Þetta var ég að vona að þjóðin skildi. En menn hafa vitanlega reynt að snúa út úr þeim orðum mínum.

Ég vil taka undir allt sem hv. þm. Kjartan Jóhannsson sagði áðan. Það er ekki bara að við búum við ónýtt lífeyrissjóðakerfi og skattamálin séu öll í ruglingi, heldur eru húsnæðismálin auðvitað ekki minna vandamál. Það er auðvitað gjörsamlega fáránlegt að fólk, sem er með laun eins og hv. þm. Karvel Pálmason var að lýsa, skuli svo í leiðinni vera tilneytt að eiga eignir upp á tvær, þrjár milljónir. Þetta kemur hvergi heim og saman. Og ég vil líka ítreka það sem hv. þm. Kjartan Jóhannsson minntist á sem er landflóttinn. Mér er það mjög minnisstætt eins og honum þegar ég dvaldist erlendis á árunum 1968-72 að þá heyrðist varla sú rödd meðal Íslendinga að menn ætluðu ekki að flytjast heim. Það datt beinlínis engum annað í hug.

Við sem starfs okkar vegna ferðumst nokkuð um Norðurlöndin heyrum allt annað hljóð í íslenskum námsmönnum í dag. Það er nefnilega alveg rétt sem hv. þm. sagði: Samgöngumál eru orðin þannig, beinn sími, þéttar samgöngur, að það er auðvitað engin fjarstæða fyrir fólk að búa í næstu nágrannalöndum. Það getur haldið sambandi við allt sitt fólk fyrir því. Og það er satt að segja óhugnanlega stór hópur sem hyggur ekkert á að koma heim sem eðlilegt er.

Núverandi ríkisstjórn hefur gengið hvað vaskast fram í því að annast stórkostlega tilfærslu á fjármunum á tímum þegar þjóðin hefur aflað meira en dæmi eru um. Íslendingar eru nefnilega forrík þjóð. Það er hins vegar farið verr með peninga í þessu landi en að ég hygg víðast hvar annars staðar og þar er mikið verk að vinna ef leiðrétta á.

Þetta gerist á sama tíma og launþegar nenna ekki, eyða ekki tíma í að svara fyrirspurnum um sín eigin kjör. Þetta er auðvitað alvarlegt sjúkdómseinkenni. Launþegar eru orðnir gjörsamlega vanmáttugir við að taka ákvarðanir um eigin mál. Og þá erum við komin aftur að því sem hv. þm. Karvel Pálmason sagði áðan. Hann vildi halda því fram að það væri ekki verkalýðsforustan sem ætti um að saka, heldur fólkið sjálft. (KP: Ekki einvörðungu.) Nei, ekki einvörðungu, segir hv. þm. (KP: Sagði.) Vitanlega leiðir það af sjálfu að fólk sem er undir því vinnuálagi sem Íslendingar eru er ekki líklegt til þess að vera virkt í sínum verkalýðsfélögum og hafa þrek til að gera tilraun til að ráða sínum málum sjálft. Það kann vel að vera að ástandið sé betra á Bolungarvík en annars staðar en það er ekki gott hér á þéttbýlissvæðunum, svo mikið veit ég. Og þegar fólk hættir að hafa vilja til að ráða sínum eigin málum er eitthvað alvarlegt að í þjóðfélaginu. Það er kannske einungis við hæfi að hæstv. fjmrh. taldi mála brýnast að leggja niður aðflutningsgjöld af afruglurum á þessum síðustu og verstu tímum. Helst datt honum það í hug til að bæta hag þjóðarinnar.

Hv. þm. verða að gera sér grein fyrir að það er alvarlegt mál ef samtök launamanna eru að liðast í sundur fyrir innbyrðis meting og árekstra milli hinna ýmsu starfshópa og viljaleysi félaganna til að hafa samkennd, eins og hv. þm. Kjartan Jóhannsson orðaði það réttilega áðan, og þeir hætta að líta á sig sem hluta af starfshæfri heild sem rekur þetta þjóðfélag. Ég efast um að allir hv. þm. geri sér grein fyrir í hverri hættu við erum. Ef svo kynni að fara, sem ég óttast og hv. þm. Karvel Pálmason virðist gera líka, að Alþýðusamband Íslands færi að liðast í sundur, ef launamenn í landinu missa það afl sem einungis slíkt samband getur gefið, held ég að við séum að fara inn í nýja öld, mér liggur við að segja verr í stakk búin til að reka þetta þjóðfélag en við vorum um síðustu aldamót.