27.01.1987
Sameinað þing: 41. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2548 í B-deild Alþingistíðinda. (2363)

263. mál, aðstoð við foreldra veikra barna

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Hér er vissulega hreyft mikilsverðu máli sem ástæða er til að gefa betri gaum en gert hefur verið. Ég held að ljóst megi vera af orðum hæstv. heilbrmrh. að þetta rúmast ekki innan almannatryggingalöggjafarinnar sem við búum við. En það er eigi að síður mjög stórt skarð sem höggvið er í afkomu einstakra fjölskyldna í landinu. Kannske er það ekki stór upphæð á landsvísu og í slíku góðæri sem við Íslendingar erum nú taldir búa við ætti þjóðinni ekki að verða það um megn að kippa hér í liðinn. Þetta er mjög breytilegt eftir því hvar fólk er búsett á landinu. Það eru stærri skörð sem þetta heggur í afkomuna hjá fólki sem á heima úti á landsbyggðinni en í nágrenni Reykjavíkur þó að skarðið sé alltaf stórt.

Ég tók eftir því að hæstv. ráðh. minntist á sjúkrasjóði stéttarfélaga og kjarasamninga stéttarfélaga. Ég er þeirrar skoðunar að launafólk eigi ekki að þurfa að kaupa sér rétt af því tagi sem hér um ræðir í sjúkrasjóði síns stéttarfélags eða stéttarfélögin sjálf. Hér á samfélagið að sjálfsögðu að koma til skjalanna og borga það sem þarf að borga, en ekki vera að kaupa þetta í gegnum launasamninga með einum eða öðrum hætti.