27.01.1987
Sameinað þing: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2579 í B-deild Alþingistíðinda. (2392)

218. mál, efling atvinnu og byggðar í sveitum

Flm. (Egill Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka undirtektir við þessa till. og alveg sérstaklega þykir mér vænt um þær brýningar sem koma fram um að hún verði látin ganga fram til atkvæðagreiðslu á Alþingi. Sérstaklega þykir mér vænt um það vegna þess að menn eru að láta að því liggja að það muni ekki öllum þm. Sjálfstfl. finnast kannske fýsilegt. Ég þakka þessar brýningar og vona að þær verði m.a. til þess að flýta afgreiðslu þessarar till.

Hér hefur komið fram frá hv. þm. Stefáni Valgeirssyni að það hafi verið mikil átök í kringum afgreiðslu búvörulaganna og ekki örgrannt um að hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson hafi verið að tala í svipuðum dúr. Ég kannast ekki við þennan ágreining. Ég kannast ekki við ágreining í sambandi við VIII. kafla búvörulaganna. Hv. þm. Davíð Aðalsteinsson er hér meðal áheyrenda og við sömdum þennan kafla. Efnislega var kaflanum ekki nokkurn skapaðan hlut breytt í meðferð Alþingis. 38. gr. kveður á um að það sé lögbundið að endurskoða skuli lögin að þessu leyti áður en aðlögunartímabilinu lýkur. Það er sagt í 38. gr. að á árinu 1989 eigi endurskoðuninni að vera lokið með tilliti til þess að það sé hægt að meta hver áhrifin eru þá orðin. Það var nákvæmlega enginn ágreiningur um þetta. Ég spurði Þórarin Sigurjónsson um það áðan, þann heiðursmann, og ekki mundi hann eftir þeim ágreiningi. Eins og ég segi, ég minnist þess ekki að það hafi hallað einu einasta orði á milli okkar Davíðs Aðalsteinssonar þegar við gengum frá þessu máli. Menn eru því að reyna að gera sig að miklum mönnum á afskaplega veikum forsendum.

Það var raunar nokkuð athyglisvert hvernig hv. þm. Steingrímur Sigfússon talaði áðan. Það var líka nokkuð athyglisvert að það var annar tónn í ræðunni þegar hann kom hér upp í seinna skiptið. Í fyrra sinnið sem ræðumaður talaði fjallaði hann aðallega um hvað þetta væri gagnslaust plagg, tillagan, og marklaust. En í síðari ræðunni talaði hann hins vegar um það hvers vegna ég notaði ekki aðstöðu mína til þess að koma málefnum landbúnaðarins í betra horf sem stjórnarþingmaður. Ég get bara minnt á það að í mörgum öðrum tilvikum en varðandi búvörulögin hafa verið teknar mjög mikilvægar ákvarðanir til betri hags fyrir bændur í landinu. Ég minni t.d. á breytingar sem voru gerðar í fyrra á viðskiptum landbúnaðarins við Stofnlánadeild landbúnaðarins og spara bændum á þessu ári 78 millj. kr. greiðslur til Stofnlánadeildar landbúnaðarins. Það eru ekki nema tiltölulega fáir bændur, þeir sem skulda mest og hafa þyngstu byrðina, sem þessi sparnaður kemur niður á. Ég minni á að það voru teknar miklar ákvarðanir fyrir tveimur árum með breytingum á jarðræktarlögunum sem núna verða endurflutt innan fárra daga. Þær breytingar gera það að verkum að fjármagn til nýrra búgreina hefur stóraukist samkvæmt jarðræktarlögunum. Ég bendi á að fjármagnskostnaður við byggingu loðdýrahúsa hefur verið lækkaður um 50% vegna beinna ráðstafana af hendi ríkisstjórnarinnar. Það er því vissulega víða sem unnið er að bættum hag bænda í landinu og á ég að sjálfsögðu minn þátt í því eins og aðrir stjórnarþingmenn.

Það er svo annað mál að markmiðin í VIII. kafla búvörulaganna, og það er hárrétt sem kemur fram í grg. og hv. þm. Steingrímur Sigfússon las hér upp, eru alveg skýr, þ.e. að gerðar verði þær breytingar á að í staðinn fyrir útflutningsbótaréttinn sem áður var komi mikið fjármagn inn, 1,5 milljarða kr., á fimm árum til atvinnusóknar og aðlögunar og til að auðvelda bændum aðlögun í landbúnaði. Þetta er afar skýrt. Það er líka skýrt að þessi mál á að taka til endurskoðunar og endurmats á fjórða ári þessa tímabils. Þetta er skýrt. Það er svo aftur annað mál að úti í landbúnaðinum hafa þessi markmið ekki verið nógu skýr og menn hafa verið þar sumir hverjir seinir til verka, sumar hverjar þessar stofnanir, og það hefur ekki enn þá náðst fram nógu markvisst starf til að koma þessu skipulagi á.

Máli mínu til stuðnings skal ég aðeins tilfæra orð tveggja forustumanna í landbúnaði. Annar þeirra er nýkjörinn formaður Búnaðarsambands Austur-Skaftfellinga og hinn er einn af reyndari ráðunautum og bændum, Einar bóndi á Skörðugili. Í ræðu hans um áhrif búvörulaganna á þessum fundi kom m.a. fram að samdráttur í hefðbundnum búgreinum þyrfti að nema ca. 4% af framleiðslu þeirra greina í sýslunni. Þar var einnig sýnt fram á að uppbygging í nýjum búgreinum, einkum loðdýrarækt, er þegar orðin miklu meiri en nemur þeim samdrætti, en formaður Búnaðarsambandsins sýndi líka fram á að búin væru of smá, enda þótt meðalstærð búa í Austur-Skaftafellssýslu sé vel ofan við meðalbústærðina í landinu, og einmitt sá væri vandinn sem við væri að fást. Jafnframt skýrði Reynir Sigursteinsson frá áformum Búnaðarsambandsins um byggingu og eflingu nýrra búgreina í sýslunni, ekki ólíkt því sem bændur þar höfðu áður gert með skipulögðu ræktunarátaki sandanna.

Og svo að ég vitni í orð Einars á Skörðugili hljóða þau þannig: Við skulum byrja á því að gera okkur grein fyrir því að þetta eru staðreyndir sem við stöndum frammi fyrir og hætta að troða skóinn hver niður af öðrum. Það er óraunhæft tal að ætla að taka áunninn rétt af þeim bændum sem höfðu kjark og áræði til að fjárfesta og leggja undir á framfaraárunum þegar við allir höfðum sömu möguleika að undanskildum þeim allra yngstu. Það skapar aðeins öfund og illindi að lifa í slíku samfélagi og er okkur ekki samboðið. Við þurfum að einbeita okkur að framtíðaruppbyggingu og leita þeirra úrræða sem telja má líklegast að passi hverjum og einum til að leysa vandann. Hér á Búnaðarsambandið að grípa inn í. Það þarf að breyta starfsháttum ráðunauta okkar og jafnvel bæta við manni til þess að heimsækja alla bændur sem eru með minnsta fullvirðisréttinn og aðra sem óska þess og hafa ekki þegar snúið sér að annarri atvinnu til að auka tekjur sínar. Ráðunautarnir eiga að koma heim á bæina, skoða allar aðstæður, gera rekstraráætlun með bóndanum, benda honum á þá möguleika sem sjáanlegir eru.

Þetta segir Einar m.a. Og þetta er nú ærið mikið annar tónn en kveðið hefur við í landbúnaðarumræðunni að undanförnu og það er einmitt undir þessar raddir sem ég vil taka.

Það þarf ekki að vera deiluatriði á milli mín og hv. þm. Pálma Jónssonar hvernig til tókst með framleiðslustjórnun í þeirri tíð sem hann var landbrh. Það vekur gjarnan athygli að þegar ég minnist á það tímabil hafa Alþýðubandalagsmenn það eitt að segja að ég sé að gera árásir á Pálma Jónsson. Ekki hafa þeir annað um þetta tímabil að segja þegar á það er minnst.

Ég held að það sé komin reynsla á að það hafi ekki verið neinum manni fært að hafa hemil á landbúnaðarframleiðslunni með þeim stjórnunaraðgerðum sem voru teknar upp árið 1979. Það var að vísu eitt ráð sem hv. þm. Pálmi Jónsson hafði kjark í sér til að beita og þurfti satt að segja mikið til. Það var þegar hann lagði 200% kjarnfóðurgjald á árið 1980. Það er hárrétt, sem kom fram í ræðu hans þá, að það sló mjög á mjólkurframleiðsluna. Það var svo annað mál að bændur tóku því ekkert vel frekar en ýmsu öðru og mér er til efs að það hefði verið liðið að beita því þannig. Við þurfum ekki heldur að vera að deila um tölur. Ég fékk upplýsingar frá Búnaðarfélagi Íslands um notkun á kjarnfóðri í nautgriparækt og hún hefur aðeins eitt ár verið undir 700 kg á hverja fullmjólka kú, og það var árið 1980, fyrr en núna á allra síðustu árum sem kjarnfóðurnotkunin hrapar niður.

Já, það hafa heyrst fyrr á þessu þingi kvartanir yfir því frá þm. Alþb. að það væri lítið ráðrúm til að tala um landbúnaðarmál og hv. þm. Steingrímur Sigfússon hefur verið að biðja um að það væri gefinn kostur á slíkri umræðu. Ja, ekki var nú innleggið hjá honum afar mikið í þeim efnum og efnislega hef ég ekki heyrt Alþýðubandalagsmenn núna á síðustu árum, ekki heldur séð það í skrifum þeirra né ræðum hér á Alþingi, hafa neitt annað ráð en hækka útflutningsbótaréttinn, veita meira fjármagn í að flytja landbúnaðarvörur úr landi. Þetta kom m.a. fram í ræðu ekki ómerkari manns en hv. fyrrv. fjmrh. Ragnars Arnalds. Það er þess vegna afar mikilvægt að menn meti hvernig staðið var að þessum málum þegar Alþb. hélt um lyklana hjá ríkissjóði.

Það voru að vísu ekki háar upphæðir sem lagt var upp með árið 1979 með verðtryggingarákvæðum í jarðræktarlögunum. Þau ákvæði skiluðu á fjórum árum einungis 122 millj. kr., en það komu inn í þessi verkefni úr ríkissjóði þá 55 millj. kr., rétt aðeins ríflega. Langsamlega stærsti hlutinn af þessu fjármagni kom inn á fyrsta árinu og var þá búið að taka ákvörðun um að ráðstafa því til Stofnlánadeildar landbúnaðarins til að gera henni kleift að starfa með eðlilegum hætti. Alþb. ætti því ekki mikið að hafa sig í frammi þegar þessi mál eru rædd. A.m.k. er fortíð þess með þeim hætti og þær efnislegu ábendingar sem fram hjá þeim hafa komið á síðari árum eða síðari tímum, sem sé þær að auka útflutningsbótaheimildina og reyndar að sjá fyrir bærilegum fullvirðisrétti til bændanna á Hólsfjöllum. (SJS: Hvað með niðurgreiðslurnar?) Þetta er afar þýðingarmikið að menn athugi. (SJS: Hvað með fortíð Pálma Jónssonar?) Niðurgreiðslurnar í tíð Ragnars Arnalds lækkuðu um 50% að raungildi (SJS: Þetta er lygi.) þannig að það er eins með það og annað.

Tími minn er liðinn, herra forseti. Ég skal ekki syndga upp á náðina frekar.