03.02.1987
Sameinað þing: 44. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2677 í B-deild Alþingistíðinda. (2496)

260. mál, snjómokstursreglur

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin þó að ég sé ekki alls kostar ánægður með þau, að vonum.

Hæstv. ráðherra kom inn á það réttilega að þessar reglur sem nú gilda hafi verið settar í desember 1985. Það er rétt, að sjálfsögðu. Þá þegar var óánægja með þessar reglur einmitt varðandi þá fjallvegi sem hann gat um að væru dýrastir en um leið erfiðastir og sem hefur auðvitað mesta þýðingu að séu ruddir reglulega eða sem allra reglulegast vegna þeirrar einangrunar sem viðkomandi byggðarlög búa við.

Hæstv. ráðherra gat um það að brátt mundi vegáætlun verða lögð hér fyrir Alþingi. Hann gat um það að þar gæfist mönnum kostur á því að breyta eitthvað hlutföllum innan vegáætlunarrammans og leggja þá meira í snjómokstur og minna til annarra hluta. Ég minni hæstv. ráðherra á það að þarna hlýtur að skipta öllu máli hvaða heildarfjármagn verður til skipta og inn á það kom hæstv. ráðherra mjög glögglega því að hann sagði að framlög hefðu minnkað til vegamála. Það er m.ö.o. stefna hæstv. ríkisstjórnar að minna sé til skiptanna og þar með minna svigrúm til þess að færa á milli einstakra liða. Það er auðvitað alveg ljóst að því þrengri sem þessi rammi er því erfiðara er vitanlega að færa þarna til svo sem full þörf er á, ekki síður varðandi snjómokstursþáttinn en marga aðra þætti vegamála.

Ég vil svo aðeins segja það að vissulega kostar það sitt að halda leiðum opnum. En það er líka dýrt þegar vegir eru lokaðir. Það kostar marga mikið, ekki bara einstaklinga, ekki fyrirtæki eingöngu, heldur samfélagið líka, auk margvíslegra þæginda og annmarka í mannlegum samskiptum almennt. Hæstv. ráðherra kom inn á það að sveigjanleiki hefði verið aukinn varðandi snjómokstur. Ég hef nú ekki orðið svo mjög var við það þó að ég viðurkenni að eitthvað hefur verið gert í þeim efnum. Þar mætti miklu meira gera því að allt of oft þykir mér sem hefðbundnir ruðningsdagar séu látnir gilda og ekki sé litið til næstu daga ef veður hamlar opnun á ákveðnum degi. Það er vissulega miður þegar sá ósveigjanleiki gildir allt um of. Öll mismunun í þessu efni einnig, ef hún er stingandi, er af hinu illa og kemur illa við íbúa viðkomandi staðar á margan veg. Hér er í raun og veru um grundvallarþátt að ræða um greið samskipti og samgöngur sem þarf og á að tryggja sem best.

Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að þessi mál koma til frekari umræðu við afgreiðslu vegáætlunar. Þá tökum við þessi mál upp í heild sinni, m.a. það sem hæstv. ráðherra kom réttilega inn á, að framlög til vegamála eru minnkandi og þar af leiðandi er þrengra um búið af hálfu hæstv. ríkisstjórnar til þess að lagfæra þá hluti sem brýnast er að lagfæra.