03.02.1987
Sameinað þing: 44. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2684 í B-deild Alþingistíðinda. (2506)

224. mál, alnæmissjúklingar

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Mig langar til að fá að upplýsa í örfáum orðum sem einn af fulltrúum Alþingis í stjórnarnefnd ríkisspítalanna að sú stofnun, stjórnarnefnd ríkisspítala, hefur ítrekað tekið þessi mál fyrir, sem eðlilegt má teljast, og að innan ríkisspítalanna er viss lausn, a.m.k. tímabundin lausn, hvað varðar vistun sjúklinga sem hér um ræðir í undirbúningi. Læknaráð Landspítalans hefur líklega á flestum fundum sínum s.l. ár fjallað um þetta og verið stjórnarnefnd til ráðuneytis um þau mál.

Það sem ég hins vegar óttast sérstaklega og hvet hv. alþm. og ráðamenn til að hugleiða er sá geysilegi kostnaður sem hlýtur að leiða af glímunni við þennan sjúkdóm, bæði vegna vistunar og ekki síður vegna ýmissa varúðarráðstafana sem óhjákvæmilegt er að gera í rekstri heilbrigðisstofnana.