04.02.1987
Efri deild: 37. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2736 í B-deild Alþingistíðinda. (2567)

316. mál, flugmálaáætlun

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Með því að þetta mál gengur til samgn. Ed. Alþingis og þar sem ég á sæti í þeirri nefnd sé ég ekki ástæðu til að fara mikið efnislega ofan í þetta frv. Ég hlýt þó að fagna því mjög að þetta frv. sé hér lagt fram og raunar aðrar þær ákvarðanir sem þessu máli tengjast. Þar á ég sérstaklega við byggingu flugbrautar á Egilsstaðaflugvelli, en auk þess, eins og kom fram hjá hv. þm. Jóni Kristjánssyni, mun tæpast nokkurt kjördæmi geta vænst eins mikils árangurs af þeim ráðstöfunum sem hér eru í frammi hafðar af hæstv. samgrh. og einmitt Austurlandskjördæmi því að eins og menn vita nær flugmálaáætlunin til allra flugvalla og að sjálfsögðu kemur hún sér þannig mjög vel fyrir allt Austurland sem eins og við vitum öll byggir mikið á flugþjónustu.

Hv. 2. þm. Austurl. hvíslaði því að mér - ég hafði brugðið mér aðeins af fundi - að þau orð hefðu verið látin falla að hæstv. samgrh. hefði gert þessar tillögur einkum vegna áherslu frá okkur Sverri Hermannssyni. Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir að það sem segir í erindisbréfi nefndarinnar sé tilkomið m.a. vegna okkar óska því að umræðan um Egilsstaðaflugvöll var vissulega hafin um þetta leyti og m.a. höfðu þm. Austurlands verið boðaðir til fundar austur á Egilsstöðum einmitt um uppbyggingu flugvallarins á Egilsstöðum. Ég hafði samband við ráðherrann um hvaða áform væru uppi áður en ég fór á þann fund og þar staðfesti hann það, sem hér er komið fram, að það væri hans stefna og markmið að stórauka fjármagn til flugmála hér á landi og að Egilsstaðaflugvöllurinn yrði þar forgangsverkefni. Þetta er ekki nýr boðskapur fyrir Austfirðinga.

En vegna þessara sárinda hjá hv. 2. þm. Austurl. má kannske minna á tillögugerð hans og félaga hans Hjörleifs Guttormssonar við 3. umr. fjárlaga þar sem var af þeirra hendi lögð fram till. um að fjárveiting gengi til Egilsstaðaflugvallar upp á 50 millj. kr. Þetta var að sjálfsögðu, eins og ég sagði áðan, við 3. umr. Það er mikil spurning hvaða meiningar hafa fylgt þessari tillögugerð. Að sjálfsögðu var beðið um nafnakall til að fá staðfest hvar þingheimur stæði í þessum mikilvæga tillöguflutningi og í blaði þeirra Alþýðubandalagsmanna á Austurlandi kom svo flennistór fyrirsögn um að þm. Austurlands aðrir en Alþýðubandalagsmennirnir og Tryggvi Gunnarsson hefðu greitt atkvæði á móti þessari till. Sárindi hv. þm. Helga Seljans eru að því leyti ákaflega auðskilin að Alþb. var farið að líma þessar fyrirsagnir upp á vinnustaði á Austurlandi. En tillöguflutninginn sem slíkan dæmdi svo hv. 2. þm. Austurl. Helgi Seljan að verðleikum því að í Morgunblaðinu þar sem hann var spurður um hvernig honum litist á áform og tillögur samgrh. um byggingu nýrrar flugbrautar á Egilsstöðum var svar hv. þm. afar skýrt. Hann hafði ekkert nema gott um það að segja og hann tók skilmerkilega fram að auðvitað væri þetta verkefni af því tagi að það þyrfti að fjalla um það sérstaklega og það þyrfti að vera sérverkefni og það væri ekki hægt að taka þetta mál til meðferðar og afgreiðslu með fjárlögum heldur þar fyrir utan. Hann hefur því svarað tillöguflutningi þeirra sjálfur. Það er út af fyrir sig ástæðulaust fyrir þennan hv. þm. að vera með einhver sárindi í þessum efnum því að auðvitað styður hann þetta mál heils hugar eins og öll önnur góð mál. En fram hjá því verður hins vegar ekki gengið hver er í forustu fyrir þessu máli hér á Alþingi. Það er auðvitað samgrh. og þetta mikla mál er náttúrlega allt saman tilkomið vegna þess að Sjálfstfl. hefur haft forystu.