11.02.1987
Efri deild: 39. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2939 í B-deild Alþingistíðinda. (2698)

119. mál, umferðarlög

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð. Hér hafa ýmsar ábendingar komið fram og mismunandi þungvægar að sjálfsögðu.

Varðandi þau atriði sem hv. 5. þm. Vesturl. gerði hér að umtalsefni, þá eru þau vissulega misþung á metunum. Ég held að þetta með þokuljósin sem hann gat um gefi auga leið. Þetta orð hefur alveg fasta og skýra merkingu í þessu sambandi. Hins vegar fannst mér afar athyglisverð ábending hans um hjólbörurnar og ég legg til að nefndin haldi jafnvel sérstakan fund um það mál og taki afstöðu til þess. Formaður hefur áreiðanlega svarað því. (Gripið fram í.) Þá er rétt að svara því. Mér finnst sjálfsagt að nefndin taki afstöðu til þess, hvort sem hv. þm. á sérstakra hagsmuna að gæta í sambandi við akstur og umferð þeirra ökutækja sem ég ekki veit.

En annað atriði sem hann gerði að umtalsefni var skráningin og sú fyrirkomulagsbreyting sem er gert ráð fyrir. Það er alveg rétt að það leiðir af samþykkt þessa frv. að það verður horfið frá núverandi skráningarfyrirkomulagi. Ég held að það sé til mikilla bóta. Það er til einföldunar og það er ódýrara. Það eru að vísu alls konar röksemdir gegn því, eins og það að menn hætti að sjá hvaðan af landinu bílar eru. Ég held að þó að stundum geti það verið notalegt og jafnvel þægilegt skipti það ekki meginmáli. Það er líka vissulega í þessu máli að margir hafa átt númer mjög lengi, í áratugi, hafa tekið við þau ákveðna tryggð, einkanlega ef þetta eru nú samstæð númer og fallegir tölustafir, fallegar talnaraðir. Það er auðvitað skiljanlegt af tilfinningalegum ástæðum. Ég veit að þau rök hafa vegið mjög þungt hjá ýmsum og komu mjög inn í þessa umræðu þegar hún var í þinginu fyrir allmörgum árum þegar lagt var fram frv. til l. um einmitt þessa breytingu. En skynsemisrökin í þessu máli eru miklu þyngri að mínu mati. Þetta verður til þess að það léttir mjög á Bifreiðaeftirliti ríkisins. Það ætti þess vegna að geta veitt betri þjónustu. Þá hættir þessi umskráningar- og númeravitleysa, sem ég vildi leyfa mér að kalla, með öllum þeim ruglingi sem því fylgir þannig að hver bifreið hefur sitt ákveðna númer frá því að hún er skráð og þangað til hennar lífdögum lýkur.

Ég hika ekki við að fullyrða að öll skynsemisrök mæla með því að gera þessa breytingu og ég held að þm. megi ekki láta það á sig sannast enn einu sinni að þetta dagi hér uppi eða nái ekki fram að ganga vegna þess að þetta hefur í för með sér verulegan sparnað.

Hv. 4. þm. Reykn. gerði að umtalsnefni ljósabúnað og aðeins örfá orð um það. Ég held að íslenskir ökumenn séu einstakir ljósasóðar, ef má nota það orð, hirði illa um ljósabúnað bifreiða sinna. Það er svo ótrúlega algengt að mæta bifreiðum á götum höfuðborgarinnar og alls staðar með eitt aðalljós og raunar kemur það býsna oft fyrir úti á vegum að maður dregur uppi bíla sem hafa bókstaflega ekkert ljós að aftan. Þessu fylgir margvísleg hætta, fyrir utan að þau ökutæki sem þannig eru eru auðvitað alls ekki í fullkomnu lagi. Þetta er í rauninni ekki atriði sem hægt er að ráða bót á með lagasetningu eða reglugerð. Þetta er atriði sem fyrst og fremst lögreglan á að fylgjast með. Manni ofbýður að aka um göturnar vegna þess að á stuttri ökuferð er ekkert óalgengt að mæta fjórum til fimm bílum sem vantar annað aðalljósið.

Ég gerði það einu sinni mér til dundurs á leiðinni úr miðborg Stokkhólms út á Arlandaflugvöll að telja þá bíla sem á móti komu sem voru með eitt ljós. Af eitthvað rúmlega 500 bílum voru fimm eða sex sem vantaði eitt ljós. Ég gerði það sama á leiðinni frá Keflavík til Reykjavíkur. Af um 90 bílum voru um átta sem vantaði annað ljósið, næstum því tíundi hver bíll. Mér hefur sýnst að þetta láti nokkuð nærri lagi, a.m.k. seinni hluta vetrar, að það sé einn af hverjum næstum því tíu bílum þar sem maður sér beinlínis að ljósabúnaðurinn er í ólagi, fyrir utan það sem maður sér ekki, eins og afturljós, hemlaljós eða því um líkt. Þetta er ófyrirgefanlegur trassaskapur. Satt að segja hefur mér oft blöskrað að löggæsluyfirvöld skuli ekki beita sér meira í þessu máli og hreinlega stöðva þá bíla sem þannig eru og benda ökumönnum á að koma þessum hlutum í lag því stundum er þetta vegna þess að menn vita ekki af því.

Að lokum, virðulegi forseti, var eitt atriði sem ég vildi minnast á, má nú vera að hv. 4. þm. Austurl. hafi minnst á það, en það er mál sem ekki er tekið á í þessu frv. Að undanförnu og í vaxandi mæli hefur flust hingað til lands ný tegund farartækja sem er ýmist á þremur hjólum eða fjórum. Þetta nær því ekki að vera bíll að neinu leyti. Þetta er miklu nær því að vera hjól, jafnvel þó það sé á fjórum hjólum. Þetta er gert til víðavangsaksturs og mættu gjarnan held ég kallast torfæruhjól. Þetta eru afar þægileg farartæki og ég hygg að þessi farartæki komi að góðum notum víða í búrekstri þar sem þarf að fara um vegleysur vegna þess að þetta fer fjöll og firnindi nánast. En sá er gallinn á gjöf Njarðar í þessu tilviki að um þessi farartæki eru engar reglur og þá er ég ekki að tala um endilega reglur til að takmarka notkun þeirra. Ég á fyrst og fremst við reglur sem tryggja að þessi farartæki og þeir sem þeim aka séu tryggðir, bæði ökumaðurinn sjálfur eða sá sem situr á hjólinu og ekki síður þeir aðrir sem kynnu að verða fyrir slysum vegna slíkra farartækja.

Nú skyldu menn kannske halda því fram að það væri ekki svo mjög líklegt að menn slösuðust á farartækjum af þessu tagi. En það er nú eitthvað annað. Í bandarísku fréttablaði var fyrir skömmu, og vitna ég nú eftir minni, smáklausa um þessi hjól sem á ensku eru gjarnan nefnd með skammstöfuninni ATV eða All Terrain Vehicles. Þar kom fram að á einum átta árum hafi verið seld 1300 þús. svona tæki í Bandaríkjunum, fjórhjól eða þríhjól. Nú getur verið að það skakki örlitlu með tölur, en það skakkar ekki mjög miklu. Á þessum árum hafa orðið 856, minnir mig, banaslys á þessum tækjum og helmingur þeirra sem hafa slasast, beðið bana eða meiðst eru undir 16 ára aldri. Gott ef ekki var drjúgur hluti þeirra sem voru undir 16 ára aldri undir 12 ára aldri. Það gefur auga leið að svo ung börn hafa hvorki vald, getu eða dómgreind til að stjórna farartækjum sem náð geta kannske 70-80 km hraða. Ég held að það sé í rauninni afar brýn slysavörn að með einhverjum hætti verði settar reglur um þessi hjól, þ.e. til verndar þeim sem þau nota.

Það má líka minna á að innflutningur á þessum tækjum lýtur ekki neinu eftirliti og þá er ég líka að tala um öryggisþáttinn. Mér er kunnugt um að yfirvöld í Noregi hafa algerlega bannað innflutning á einni gerð þessara hjóla og það hafa þau gert af þeirri ástæðu að á þeim er enginn fjöðrunarbúnaður. Það er sem sagt járn í járn eins og þar stendur. Það er enginn fjöðrunarbúnaður. Það telja öryggismálayfirvöld í Noregi að sé ekki verjanlegt. Við höfum lítillega rætt þessi mál í nefndinni, en hins vegar urðum við ásátt um, til þess að tefja ekki málið, að láta það ganga til 2. umr. en taka svo kannske afstöðu milli 2. og 3. umr. til einhverrar reglusetningar varðandi þetta atriði. Ég lít fyrst og fremst á þetta sem öryggisatriði, sem slysavörn. Það er ekki tilgangurinn að hefta eða takmarka notkun þessara tækja neitt óeðlilega vegna þess að þau eru áreiðanlega mjög gagnleg og nytsöm, ekki sem leikföng heldur til sinna nota. Auðvitað nota margir þetta sem leikföng öðrum þræði og kannske sumir eingöngu, en alveg eins og var með snjósleðana á sínum tíma held ég að sé nauðsynlegt að þarna séu vissar lágmarksreglur fyrst og fremst til verndar fólki. Skal ég svo ekki hafa þessi orð fleiri, virðulegi forseti.