28.10.1986
Sameinað þing: 8. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í B-deild Alþingistíðinda. (274)

44. mál, húsnæðismál

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það er erfitt þegar svo naumt er skammtaður tíminn að svara öllum þeim tilhæfulausu fullyrðingum sem hér hafa komið fram varðandi þetta mál. Kjarni málsins er sá að það var samkomulag milli Alþingis og aðila vinnumarkaðarins, sem staðfest var með lögum á s.l. vori, að taka upp nýtt húsnæðislánakerfi hér á landi sem nær til verkamannabústaðanna og þar voru ákveðnar nýjar reglur og ný lánskjör og lánalengd varðandi verkamannabústaðina.

Ég veit að hv. þm. Svavar Gestsson man þetta, en við getum kannske fundið okkur annan tíma til að ræða þetta nánar. Þannig liggur algerlega ljóst fyrir að við erum að tala um nýtt húsnæðislánakerfi. Það liggur líka ljóst fyrir að þeir fulltrúar aðila vinnumarkaðarins sem kallaðir hafa verið fyrir nefndina hafa lýst þeirri skoðun sinni að nauðsynlegt sé að fá reynslu af þessu nýja húsnæðislánakerfi áður en bryddað sé upp á róttækum breytingum á húsnæðislánakerfinu í heild.

Þetta liggur hvort tveggja fyrir, herra forseti, og þess vegna álít ég að ekki séu efni til þeirra fullyrðinga sem hér hafa komið fram, en vildi gjarnan að við gætum fundið okkur annan tíma til að ræða málið ítarlegar og er reiðubúinn til þess hvenær sem er.