16.02.1987
Efri deild: 40. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3031 í B-deild Alþingistíðinda. (2766)

326. mál, lögskráning sjómanna

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um lögskráningu sjómanna. Frv. er samið af nefnd sem ég skipaði 2. maí 1986 til að endurskoða gildandi lög um skráningu sjómanna, en þau eru nr. 63 frá 1961, ásamt síðari breytingum. Í nefndina voru skipuð Ragnhildur Hjaltadóttir deildarstjóri, formaður, Helgi Laxdal vélfræðingur, Hólmgeir Jónsson framkvæmdastjóri, Hjörtur Magnússon lögskráningarstjóri og Jónas Haraldsson skrifstofustjóri.

Svo sem að framan segir eru gildandi lög frá 1961, en nokkrar breytingar hafa verið gerðar á þeim síðar. Framkvæmd lögskráningar hefur verið töluvert gagnrýnd á undanförnum árum og hún ekki talin veita þá réttarvernd sem henni er ætlað. Ýmsir hafa hvatt til endurskoðunar á lögum um lögskráningu, nú síðast öryggismálanefnd sjómanna í tillögum sínum frá því í október á s. l. ári.

Gildandi lög eru mjög ítarleg og um margt fullnægjandi að því er varðar lögskráningarkerfið og skyldu til lögskráningar. Þau eru hins vegar í ýmsum efnum óaðgengileg og óskýr og lítt til þess fallin að auðvelda framkvæmd lögskráningar. Það verður að hafa hugfast að þeir sem lögskráningu annast eru mjög fjölbreyttur hópur og því er afar mikilvægt að lög um þessa stjórnvaldsathöfn séu skýr.

Með þessu frv. er leitast við að einfalda ákvæði laga um lögskráningu og færa þau til samræmis við nútímaaðstæður með hliðsjón af breyttu hlutverki lögskráningar. Áður fyrr var lögskráningin eina skriflega samningsgerðin um kaup og kjör sjómanna og um leið var hún líftrygging. Þessu tvíþætta hlutverki er að miklu leyti lokið, enda þótt lögskráning sé enn mikilvæg trygging fyrir því að tryggingar séu í samræmi við lög og samninga. Lögskráning sjómanna hefur margháttaða þýðingu og með eftirfarandi megintilgang hennar í huga er þetta frv. lagt fram:

1. Lögskráning á að tryggja að þeir sem eru um borð í skipi hafi tilskilin réttindi eða undanþágu.

2. Skráður er siglingatími sjómanna.

3. Lögskráning á að tryggja að tryggingar skipverja séu í samræmi við lög og kjarasamninga.

4. Lögskráning tryggir sönnur á því hverjir voru á skipi ef skip ferst.

5. Lögskráning felur í sér könnun gagna um haffæri skips.

Frv. þetta skiptist í þrjá kafla. I. kafli fjallar um lögskráningarskyldu og lögskráningarstjóra. Skylt er að lögskrá alla skipverja sem ráðnir eru til starfa á íslenskum skipum 12 rúmlestir eða stærri. Í 4. gr. frv. eru ákvæði um það hvenær lögskrá skuli í skiprúm og í 5. gr. hvenær lögskrá skal úr skiprúmi. Skv. frv. á lögskráning alltaf að fara fram á útgerðarstað skips og er það nýmæli.

Skipstjóri ber ábyrgð á því að lögskráð sé og verður frumkvæði um lögskráningu að koma frá honum í flestum tilvikum. Lögskráningin er stjórnvaldsathöfn sem lögskráningarstjórar annast. Meginreglan er sú að lögreglustjórar fara með lögskráningarvald og hafa eftirlit með lögskráningu í sínu umdæmi, tollstjórinn í Reykjavík. Þeim er þó heimilt að fela hreppstjórum og skipa sérstaka fulltrúa innan heimilisþinghár sinnar til að annast lögskráningu.

Skv. 2. mgr. 3. gr. er þessum aðilum gert skylt að skila yfirliti um lögskráningar til viðkomandi lögreglustjóra eigi sjaldnar en ársfjórðungslega. Þetta er nýmæli sem ætlað er að stuðla að bættri og samræmdari framkvæmd lögskráningar en nú er.

II. kafli frv. er um framkvæmd lögskráningar. Í gildandi lögum er greint á milli lögskráningar á fiskiskip annars vegar og á önnur skip hins vegar. Þessi greining er síst til þess fallin að einfalda framkvæmd lögskráningar og því er hér lagt til að sömu reglur gildi um öll skip.

Í 7. gr. eru talin upp þau gögn sem sýna ber við fyrstu árlegu lögskráningu og er þar að finna nýmæli um að lögskráningarstjóri skuli synja um lögskráningu ef tilskilin gögn eru ekki lögð fram. Er hér m.a. átt við yfirlýsingu tryggingarfélags um líf- og slysatryggingu skipverja, atvinnuskírteini eða starfsleyfi og skipshafnarskrá.

Ef skipstjóri getur ekki gengið frá lögskráningu áður en lagt er úr höfn skal hann eða útgerðarmaður skips tilkynna lögskráningarstjóra nöfn skipverja og annað sem skýra ber frá við almenna lögskráningu innan 24 klukkustunda. Honum er einnig heimilt að kalla upp næstu strandarstöð innan þess frests.

Um heimild skipstjóra til að sigla án lögskráningar er fjallað í 18. gr. gildandi laga en gildir aðeins um fiskiskip og skv. greininni þarf tilkynning til lögskráningarstjóra að vera skrifleg. Með bættum fjarskiptum eru slík formsskilyrði óþörf. Samkvæmt tillögu öryggismálanefndar sjómanna er lagt til að skipstjóra verði einnig heimilað að kalla upp strandarstöð sem kemur boðum til lögskráningarstjóra.

Í III. kafla eru almenn ákvæði sem er að finna í IV. kafla gildandi laga. Kaflinn er hins vegar mikið styttur. 16. gr. frv. er nýmæli sem heimilar starfsmönnum Landhelgisgæslunnar að fara um borð í íslensk skip á siglingu og kanna lögmæti lögskráningar og skilríki um réttindi yfirmanna. Sé þessu ábótavant ber að kæra það, en við ítrekað brot sama skipstjóra má færa skipið til hafnar, en bera má þá ákvörðun undir dómstóla.

Eins og að framan greinir hefur lögskráning sjómanna margháttaða þýðingu og ætti tilgangur hennar og sú réttarvernd sem hún veitir að vera mönnum hvatning til að stuðla að bættri framkvæmd hennar. Í frv. þessu er lögð áhersla á að öll framkvæmd lögskráningar verði örugg og einföld svo að tryggt sé að þeim megintilgangi laganna, sem ég ræddi um í byrjun máls míns, sé náð.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. samgn.