16.02.1987
Efri deild: 40. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3080 í B-deild Alþingistíðinda. (2786)

340. mál, staðgreiðsla opinberra gjalda

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég ætlaði mér ekki að lengja þessa umræðu með því að taka aftur til máls, en eftir að hafa hlýtt á ræðu hæstv. fjmrh. get ég ekki orða bundist. Svo gekk ósvífni hans úr hömlu, svo voru blekkingarnar stórfelldar að óhjákvæmilegt er að hafa þar uppi hin hörðustu mótmæli. Það getur enginn alþm. setið undir slíkum blekkingum eins og þeim að með þessu frv. sé búið að afnema skatt af almennum launatekjum, það sé bara búið að ná þessu takmarki. Þetta var það sem hæstv. ráðh. bauð mönnum upp á áðan. Hann sagði að vegna þess að skattfrelsismörk hjóna í tekjuskatti með tvö börn væru komin upp í 90 þús. kr. væri augljóst að það væri búið að ná því marki að afnema skatt af almennum launatekjum.

Hvað var hæstv. ráðh. eiginlega að fara þarna? Er þetta nýja blekkingaklisjan sem hann ætlar að hafa uppi í komandi kosningabaráttu? Er þá ekki tímabært að fara að átta sig á í hverju hún er fólgin? Vissulega er hægt að orða það eins og hann gerði áðan að skattfrelsismörk í tekjuskatti geti talist eitthvað hærri en í útsvari, jafnvel þó að menn séu búnir að sameina þetta hvort tveggja í eina skattlagningu, því að það má segja sem svo að ef útsvarið telst vera 6,25% og ef skattfrelsismörk eru talin vera 33 þús. fyrir báða skattana má með fullum rétti segja að skattfrelsismörkin, ef bara er litið á tekjuskattinn, séu dálítið hærri. Það er út af fyrir sig rétt og skal viðurkennt. En auðvitað er fjarstæða í fyrsta lagi að taka dæmið um hjón með tveimur börnum vegna þess að þegar skattur er reiknaður út fyrir hjón með tvö börn koma inn í myndina barnabætur sem er greiðsla ríkisins til stuðnings barnafjölskyldum, hét á sínum tíma fjölskyldubætur og var alveg óháð skattakerfinu, hefur síðan smám saman þokast inn í skattakerfið og komið þar til frádráttar, en er greiðsla sérstaks eðlis og er fjarstæða að blanda því þar saman við.

Ef við lítum á skattfrelsismörk einstaklinga og miðum við að fyrstu greiðslurnar gangi upp í útsvar getum við kannske með fullum rétti sagt að skattfrelsismörk í tekjuskatti hjá einhleypingum þokist upp í 40 þús. kr. á mánuði meðan heildarskattfrelsismörkin eru 33 þús. Við getum sagt að síðan séu næstu 7 þús. kr. eða svo skattfrelsismörkin sem hækka ef tekið er tillit til útsvarsins. En hvað eru 40 þús. kr. í dag? Eru það almennar launatekjur? Nei, það eru ekki almennar launatekjur. Það er langt þar fyrir neðan eins og menn þekkja. Meðaltekjur í þjóðfélaginu í dag eru um 63 þús. kr. og þá er ekki reiknað með bifreiðastyrkjum og dagpeningagreiðslum eins og meiningin er að gera í þessu væntanlega skattakerfi þannig að meðaltekjur reiknaðar á þann hátt yrðu vafalaust hærri. Sjá þá allir að það er fjarstæða að tala um að skattfrelsismörk í tekjuskatti séu komin upp fyrir almennar launatekjur því að þær gera greinilega ekki mikið meira en að ná liðlega hálfum meðaltekjum fólks, enda er það svo að skattfrelsismörk barnlausra hjóna eru væntanlega, ef miðað er við tekjuskattinn einan, einhvers staðar í kringum 80 þús. kr., þ.e. tvöfaldar þær sem eru hjá einhleypingnum, gróft reiknað. Þar er sem sagt um tvöfaldar tekjur að ræða og því augljóst að við erum að tala þarna um skattfrelsi almennra launatekna í mesta lagi að hálfu leyti eða svo. Ég vildi alveg sérstaklega mótmæla þessari túlkun hæstv. fjmrh. sem ég taldi með eindæmum ósvífna og vildi ekki láta hana standa hér ómótmælt.

Um fyrirtækin og þá tillögu mína að þau séu látin greiða tekjuskatt með eðlilegum hætti hafði hæstv. ráðh. ekki margt að segja. Hann afgreiddi þá tillögu á ákaflega yfirborðslegan hátt. Hann sagði að í fjármálaráðherratíð minni hefði lítið verið hreyft við þessum málum og það sýndi að ég mundi ekki mikið meina það sem ég segði í þessum efnum. En ég vil minna á að í fjármálaráðherratíð minni voru fyrningar hjá rekstraraðilum skertar frá því sem var í fyrri löggjöf og þá voru rekstrartekjur skildar frá launatekjum þannig að menn gátu ekki komist undan að greiða skatt af launum með því að skuldajafna á móti rekstrartapi sem gat verið meira eða minna illa fengið.

Og fleira mætti nefna. Álagningarhlutfall á félög var þá hærra. Það var 58% á félög, en er nú 50%. Í tíð núv. ríkisstjórnar hafa verið gerðar mjög margar breytingar á skattlagningu fyrirtækja allt til ívilnunar og það eru reyndar ekki breytingar sem hafa verið gerðar vegna einhvers samkomulags milli aðila vinnumarkaðarins. Það eru ósannindi sem hæstv. ráðh. fór hér með áðan. T.d. að frádráttur vegna fjárfestinga í atvinnurekstri hafi verið afrakstur einhverra samninga milli aðila vinnumarkaðarins. Það er fjarstæða. Ég veit að það kannast enginn við það. Það er hins vegar rétt að breytingar sem gerðar voru á sköttum í fyrra léttu skattbyrði fyrirtækja. En við munum það vafalaust öll rétt að þar var ekki um að ræða breytingu á tekjuskatti. Þar var um að ræða breytingu á launaskatti og það er allt önnur saga. Nú var gerður samningur vinnuveitenda og launafólks. Breytingar á tekjuskatti félaga hafa hins vegar ekki átt uppruna sinn í samningum vinnuveitenda og verkalýðsfélaga.

Ég ætla hins vegar ekki að fara að lengja þessa umræðu með því að endurtaka ræðu mína frá því í dag um þær ýmsu frádráttarheimildir sem skotist hafa inn í skattalöggjöfina í tíð þessarar stjórnar. Ég hef rakið það svo oft hér í deildinni áður að það er óþarfi að gera það hér nú. En auðvitað skaut hæstv. ráðh. langt yfir markið þegar hann reyndi að halda því fram að álagning á fyrirtæki sé með hliðstæðum hætti í dag eða fyrir fjórum árum. Þar er verulegur munur á.

Ég get svo aftur á móti fyrirgefið hæstv. ráðh. þó að hann hafi kannske misskilið orð mín um skattvísitölu og þá tillögu sem hann gerir í frv. um að skattafslátturinn breytist í hlutfalli við hækkanir á lánskjaravísitölu. Það var greinilegt að hann hafði hreinlega misskilið orð mín og ekki áttað sig á því hvað ég var að fara. Ég get nefnilega ósköp einfaldlega tekið undir með honum að það er ekki auðvelt í staðgreiðslukerfi að ætla að breyta frádráttarliðum eða upphæðum skattafsláttar í hlutfalli við tekjubreytingar í þjóðfélaginu vegna þess að við vitum ekki um tekjubreytingar í þjóðfélaginu fyrr en mörgum mánuðum eftir að þær eiga sér stað. Þær koma ekki fram í hagskýrslum fyrr en í fyrsta lagi hálfu ári eftir að þær hafa átt sér stað. Það væri því alveg óraunhæft að ætla að nota sömu aðferðir í staðgreiðslu og gert er í núverandi kerfi með því að miða við skattvísitölu sem hreyfðist eftir tekjubreytingum. Þetta var ekki mín meining þegar ég ræddi þessi mál hér í dag. En hitt er alveg jafnfjarstæðukennt að ætla að fara að miða breytingar á skattafslætti við verðlagsbreytingar í þjóðfélaginu, miða þær við hvort olía hækkar eða lækkar í verði eða eitthvað annað sem kemur skattálagningunni ekki nokkurn skapaðan hlut við. Það er algerlega út í bláinn. Við höfum að sjálfsögðu ákveðna viðmiðun sem við getum treyst, en það eru hreinar kauptaxtabreytingar og kauplagsbreytingar. Það er reiknuð út vísitala kauptaxta og meðallaunataxta og hver svo sem reikniaðferðin yrði nú í sambandi við þetta er augljóst mál að það mætti vafalaust finna hvaða breytingar hefðu orðið á launagreiðslum tvisvar á ári. Það yrði að sjálfsögðu fyrst og fremst að vera sú breyting sem verður bersýnilega á töxtum, en það yrði ekki hægt að reikna þar launaskrið inn í eða annað það sem menn raunverulega sjá ekki fyrr en að nokkrum tíma liðnum. Sú viðmiðun væri að sjálfsögðu miklu sanngjarnari og eðlilegri. Í hvert skipti sem einhver breyting yrði á almennum launatöxtum í þjóðfélaginu væru frádráttarliðir eða skattafsláttur hækkuð í samræmi við það og aðrar fastatölur í skattalögum. En að ætla sér að fara að miða við breytingar á verðlagi að einhverju leyti með viðmiðun við lánskjaravísitölu er að sjálfsögðu algerlega út í bláinn. Ég vona að hæstv. ráðh. skilji þessa athugasemd því það var bersýnilegt að hann hafði ekki skilið hana í dag.