17.02.1987
Sameinað þing: 50. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3149 í B-deild Alþingistíðinda. (2851)

322. mál, viðskiptahagsmunir Íslendinga gagnvart Evrópubandalaginu

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Spánn og Portúgal gengu í Efnahagsbandalag Evrópu 1. janúar 1986. Mörgum árum áður en til þess kom var þó af hálfu íslenskra stjórnvalda vakin athygli á nauðsyn þess að viðhalda tollfrelsi eða stækka þyrfti tollfrjálsa kvóta bandalagsins varðandi innflutning á saltfiski þar eð nýju aðildarríkin flyttu inn mikinn saltfisk og þar væru aðalmarkaðir fyrir íslenskan saltfisk. Þrátt fyrir þessa viðleitni okkar var þó lagður tollur á saltfisk og saltfiskflök og skreið 1. júlí 1985, en fríverslunar samningur Íslendinga við bandalagið nær ekki til þessara vara. Tilraunum til að fá tollinn afnuminn, lækkaðan eða tollfrjálsa kvóta hækkaða var haldið áfram með ýmsum hætti og var þessu máli öllu nánar lýst í svari mínu við fsp. hv. 3. þm. Reykn. hér á Alþingi 29. okt. 1985.

Breytingar á fríverslunarsamningi Íslands og Efnahagsbandalags Evrópu vegnainngöngu Spánar og Portúgals gengu í gildi 1. mars á s.l. ári að lokinni meðferð Alþingis og að fenginni heimild þess 27. febr. til fullgildingar breytinganna. Málinu er lýst mjög ítarlega í till. til þál. sem lögð var fyrir Alþingi í febrúarmánuði þess árs og þar er m.a. gerð grein fyrir þeim viðræðum sem fram fóru við fulltrúa bandalagsins. Þar kemur m.a. fram að EBE hefur fyrir skömmu tekið upp þá stefnu að vilja tengja varanlegt gildi bókunar nr. 6 við fríverslunarsamninginn við bandalagið við viðunandi fiskveiðiréttindi bandalagsins á Íslandsmiðum. Virðist sem þessi hugmynd hafi komið upp í tengslum við inngöngu Spánar og Portúgals í bandalagið og vilji bandalagið með því skapa sér möguleika á að leysa hluta vandamálsins vegna mikils fiskveiðiflota Spánverja og Portúgala með öflun fiskveiðiréttinda í lögsöguríki utan EBE.

Íslensk stjórnvöld léðu ekki máls á því í viðræðum um breytingar á fríverslunarsamningnum að fallast á tengsl milli viðskiptafríðinda og fiskveiðiréttinda og tóku m.a. fram að slík tengsl byggðust ekki á texta hafréttarsamningsins og væru vafasöm með tilliti til GATT-samkomulagsins. Þá var einnig bent á það að eftir gildistöku bókunar nr. 6 um vissar sjávarafurðir, eða seint á árinu 1976, hafi Finn Gunderlach, framkvæmdastjóri sjávarútvegsmála í framkvæmdanefnd EBE, lýst því skýrt og skorinort yfir á fundi í Reykjavík að bandalagið hygðist ekki tengja saman viðskiptafríðindi og fiskveiðiréttindi. Í júní á s.l. ári var saltfisktollamálið í mikilli óvissu og tollfrjálsir kvótar vel innan við helming af innflutningi bandalagsins. Seinna í sama mánuði, júní 1986, tók bandalagið þó ákvörðun um 40 000 tonna viðbótarkvóta með aðeins 3% toll á saltfiskinum og sköpuðust því ekki á árinu 1986 sérstök vandamál varðandi útflutning íslensks saltfisks til bandalagsins. Ákvarðanir um tollfrjálsa kvóta og lága tolla eru þó teknar til stutts tíma í senn þannig að óvissa getur skapast á ný í framtíðinni, einkum þegar liða tekur á ársfjórðunga og ef dregst að ákveða kvóta með lágum tolli.

Á fundi sameiginlegrar nefndar fulltrúa Íslands og EBE til að ræða um framkvæmd viðskiptasamningsins, sem haldinn var í desember á s.l. ári, fitjaði bandalagið enn upp á þeim möguleika að skiptast á viðskiptafríðindum og fiskveiðiréttindum, en ekki var léð máls á því. Var í því sambandi bent á að Bretar hefðu fyrir löngu viðurkennt þá staðreynd að fiskveiðiréttindi væri ekki að fá á Íslandsmiðum - og flestir Þjóðverjar einnig og sama máli mun einnig gegna um Portúgala. Það væri því óskiljanlegt ef Efnahagsbandalagið ætlaði að halda kröfum sínum til streitu. Það væri vissum bandalagsþjóðum í hag að fá saltfisk, en ef mikil óvissa ríkti um toll af honum mundi fiskaflinn nýttur meir á annan hátt. Búast má við að Portúgalar muni sem fyrr knýja á um að hagsmuna neytenda þar í landi verði gætt.

Auk lækkunar á saltfisktolli hafa Íslendingar áhuga á lækkun tolla á saltsíld og söltuðum ufsaflökum, en tollar hafa verið hækkaðir af hálfu bandalagsins á þessum vörum frá því sem var þegar fríverslunarsamningur Íslands við bandalagið var gerður árið 1972. Það má minna á að á nýjum eða ísuðum flökum er tollurinn 18% á sama tíma og tollur á frystum íslenskum flökum er enginn. Einnig má nefna að tollur á ísuðum skarkola, sem fluttur er út í gámum, er 15% þar eð sérfríðindi okkar á ísuðum fiski ná aðeins til helstu vörutegunda, karfa 2% og þorsks, ýsu og ufsa 3,7%.

Að sjálfsögðu viljum við tollfrelsi fyrir allar sjávarafurðir okkar. Reynt var að fá tollfrelsi fyrir allar þær vörur við gerð fríverslunarsamningsins á sínum tíma, en engin leið var til þess þá þótt fulltrúar bandalagsins á þeim tíma tækju að ýmsu leyti tillit til sérstöðu Íslands sem fiskveiðiþjóðar sem er mjög háð útflutningi sjávarafurða. Ekkert bendir til þess að nú sé betri aðstaða til að fá fram meiri viðskiptafríðindi.

Þeir aðilar sem mest áhrif hafa innan bandalagsins, fiskimáladeildin og sjávarútvegshagsmunirnir, leggja allt kapp á að selja aðgang að mörkuðum, aukin viðskiptafríðindi gegn fiskveiðiréttindum og taka þá ekki tillit til sérstöðu Íslendinga.