25.02.1987
Efri deild: 43. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3498 í B-deild Alþingistíðinda. (3083)

273. mál, uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Svo að hér verði ekki neinn misskilningur þá skil ég það mætavel að í slíkum önnum geti hæstv. forseti ekki fylgst með því hvenær þm. þurfa að víkja af fundi og tók ég reyndar fram að það væri við mig eina að sakast. En ég vék hér af fundi rétt fyrir fjögur og taldi þá að umræðan um Útvegsbankann mundi duga út þann fund, en eins og fram hefur komið var fundi haldið áfram kl. fimm. En mér nægir alveg umræðan núna við 3. umr. þessa máls og ætla ekki að tala mjög lengi en gera örfáar athugasemdir.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. vék að máli sem ég hef flutt tvívegis hér á þingi og taldi að ég hefði fengið í arf. Það er alveg rétt. Það mál var flutt hér á Alþingi á undan mér af Vilmundi Gylfasyni en ég held að hv. þm. ætti að lesa málið betur svo að hann öðlist skilning á því, því hann talaði um oddamann hér áðan sem persónugerving en ég hef ætíð litið á það sem stjórnkerfisatriði hvort það sé ríkisvaldið sem tekur að sér það hlutverk að semja um fiskverð en fari ekki að mestu leyti,eftir því hvaða persóna semur fyrir ríkisvaldið. á undanförnum árum þá hefur það verið svolítið breytilegt hvaða maður hefur setið í þessu oddamannsembætti, það hefur ekki ætíð verið forstjóri Þjóðhagsstofnunar heldur staðgengill hans jafnvel, þannig að ég tel það mjög mikla skammsýni og ekki hv. þm. til sóma að persónugera slík mál. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess að svara neinu því sem hann kom hér fram með í sinni ræðu, ég held að það skýri sig sjálft og skýri þann misskilning sem hjá honum hefur kviknað við þau ummæli mín sem ég hafði við þessa umræðu.

Ég vil þakka hv. 3. þm. Vesturl. hans orð hér áðan og taka undir það að ég hef trú á því einnig að viðmiðunarverð eigi sér stað en það getum við ekkert fullyrt á þessari stundu eins og fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni. Það verður reynslan að leiða í ljós. En auðvitað verðum við að vona að það verð sem um semst á mörkuðum verði viðmiðunarverð um allt land vegna þess að við vitum að fiskur verður ekki seldur almennt á mörkuðum. Og þar sem sama fyrirtækið á bæði útgerð og fiskvinnslu geta komið upp vandamál en það eru þó skipstjórar og sjómenn almennt sem eiga hluta af þessum verðmætum og þeir láta það ekki líðast að þeir beri minna úr býtum ef þeir leggja upp hjá viðkomandi fyrirtæki úti á landi heldur en á fiskmarkaði. Þannig að ég held að þetta viðmiðunarverð muni skapast á þeim uppboðsmörkuðum sem starfræktir verða hvort sem það verða fjarskiptamarkaðir eða þeir markaðir sem hér er gert ráð fyrir í frv.

Að lokum, hæstv. forseti, verð ég að biðjast velvirðingar á því að hafa hér nefnt hv. þm. með nöfnum en ekki með númerum. Það er einfaldlega vegna þess að mér er fastara í minni nöfn manna en númer. En ég vil biðja hæstv. forseta velvirðingar á slíku. (Forseti: Það er vissulega tekið til greina.)