03.03.1987
Sameinað þing: 57. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3607 í B-deild Alþingistíðinda. (3207)

356. mál, framtíð rásar tvö

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég fagna því að hæstv. menntmrh. er á þeirri skoðun að það beri að styrkja rekstur rásar tvö. Ég bið þingheim að taka vel eftir þeim orðum. Hér stóðu við síðustu fjárlagagerð hörð átök um fjárhag Ríkisútvarpsins, að halda inni hluta af þeim fjármunum sem því bar. Ég er þeirrar skoðunar að það beri að styrkja rekstur rásar tvö með öllum ráðum því að hún nær til alls landsins, hún er nauðsynleg fyrir menningarlega dagskrá í Ríkisútvarpinu og eðlilega verkaskiptingu þar á milli rásar eitt og rásar tvö svo að hún geti háð eðlilega samkeppni við einkastöðvar. Það er nú svo að miðað við það sem ég hef hlustað á einkastöðvar finnst mér þar vera lögð meiri áhersla á magn en gæði og lögð megináhersla á það að útvarpa allan sólarhringinn sem er góðra gjalda vert. Það sem okkur hins vegar vantar er menningarleg og nútímaleg dagskrá sem nær til allrar þjóðarinnar.