03.03.1987
Sameinað þing: 58. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3626 í B-deild Alþingistíðinda. (3236)

216. mál, mat á heimilisstörfum til starfsreynslu

Félagsmálaráðherra (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Hinn 22. apríl 1986 var samþykkt hér á Alþingi þáltill. um mat á heimilis- og umönnunarstörfum, sem unnin eru launalaust, til starfsreynslu. Skv. till. var ríkisstjórninni falið að láta athuga með hvaða hætti mætti meta slíka starfsreynslu þegar um óskyld eða sérhæfð störf er að tefla.

Ríkisstjórnin samþykkti að vísa málinu til félmrh. til nánari athugunar og að frumkvæði hans var Gerður Steinþórsdóttir cand. mag. fengin til að gera úttekt á stöðu þessara mála og gera tillögur um það hvernig meta skyldi til starfsreynslu heimilis- og umönnunarstörf. Gerður lauk rannsókn sinni á þessu málefni og kemur niðurstaða hennar fram í þskj. 231 sem dreift var til hv. alþm. í desembermánuði á fyrra ári. Mér þykir rétt að lesa úr inngangi Gerðar á þskj. til upplýsingar áður en lengra er haldið, en í inngangi með skýrslunni segir svo, með leyfi forseta. Þar er tillagan orðrétt sem samþykkt var:

„Alþingi ályktar að meta skuli sem starfsreynslu heimilis- og umönnunarstörf, sem unnin eru launalaust, þegar um hliðstæð störf er að ræða. Jafnframt felur Alþingi ríkisstjórn að láta athuga með hvaða hætti megi meta slíka reynslu, þegar um óskyld eða sérhæfð störf er að tefla.“

Undirritaðri var falið að vinna verkefnið og skila tillögum. Verkið var unnið á þann hátt að lesnar voru vandlega yfir þær umræður sem fram fóru um málið á Alþingi í því skyni að fá glögga mynd af þeim hugmyndum sem lægju að baki þáltill. Ljóst var að sú tillaga Kvennalistans að láta árafjölda við heimilisstörf ráða eingöngu við mat á starfsaldurshækkun fékk ekki hljómgrunn. Flestir þm. vildu fara einhverja millileið, ná áfangasigri. Af þeirri hugmynd er tekið mið.

Yfirlýsing Alþingis nær til „hliðstæðra“ starfa. Tillagan sem hér fylgir nær til „hliðstæðra“ starfa bæði faglærðra og ófaglærðra starfsmanna.

Í kjarasamningum BSRB og ríkisins er starfsreynsla opinberra starfsmanna metin að fullu þótt viðkomandi skipti um starf og fari í óskylt starf. Sú hugmynd Kvennalistans að meta heimilisstörf sem reynslu í öll störf fékk misjafnar viðtökur. Eins og þál. ber með sér hafnaði Alþingi ekki hugmyndinni, en fór fram á „athugun“.

Í grg. er stuttur kafli sem fjallar um afgreiðslu málsins á Alþingi. Þá kemur kafli um mat vinnumarkaðarins á því hvað séu hliðstæð störf og hvort mat sé réttmætt. Könnuð voru núgildandi ákvæði í kjarasamningum um mat á heimilisstörfum, en þau finnast víða, einkum í sérkjarasamningum félaga innan ASÍ og bæjarstarfsmannafélaga innan BSRB. Algengt er að reynsla af heimilisstörfum sé metin við almenn störf í lægstu launaflokkum eða „hliðstæð“ störf sem ekki krefjast sérhæfingar.

Varðandi síðari lið till. er einnig byggt a reynslu hjá nokkrum sveitarfélögum. Í Garðabæ, Kópavogi, á Akureyri og í Vestmannaeyjum eru heimilisstörf metin í öll störf hjá sveitarfélaginu. Tekið er mið af þeim ákvæðum í tillögugerðinni.

Í ákvæðum um mat á heimilisstörfum gætir töluverðrar fjölbreytni, oftar þó til þrengingar. Þó finnast sveitarfélög sem meta heimilisstörf „takmarkalaust“ til starfsreynslu, annaðhvort í öll störf eða í ákveðin tilgreind störf.

Að lokum er gerð tilraun til að meta þann kostnað fyrir vinnumarkaðinn sem hlytist af samþykkt tillagnanna.“

Þetta bréf er undirritað í september 1986 af Gerði Steinþórsdóttur.

Eins og fram kemur í inngangi skýrslunnar hafa verið könnuð ákvæði í kjarasamningum um mat á heimilisstörfum. Slík ákvæði eru orðin nokkuð algeng, einkum í sérkjarasamningum félaga innan ASÍ og bæjarstarfsmannafélaga innan BSRB. Fram kemur að reynsla af heimilisstörfum er metin við almenn störf í lægstu launaflokkum eða hliðstæð störf sem ekki krefjast sérhæfingar. Hvað varðar óskyld eða sérhæfð störf er einnig byggt á reynslu af heimilisstörfum í nokkrum sveitarfélögum.

Með hliðsjón af þeirri athugun sem fram fór á því hvernig heimilis- og umönnunarstörf eru metin til starfsreynslu setur Gerður Steinþórsdóttir fram þrjár tillögur. Tillaga 1 er þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Metin skulu til starfsreynslu heimilis- og umönnunarstörf þegar um hliðstæð störf er að ræða. Slíkur starfsaldur getur þó mest orðið sex ár, enda teljist eigi starfsaldur vegna launaðra starfa á sama tíma. Þegar um óskyld eða sérhæfð störf er að tefla skulu heimilis- og umönnunarstörf metin á sama hátt, þó mest til fjögurra ára starfsaldurs.“

Tillaga 2: „Metin skulu til starfsreynslu heimilis- og umönnunarstörf þegar um hliðstæð störf er að ræða. Þegar um óskyld eða sérhæfð störf er að tefla skulu heimilis- og umönnunarstörf metin til hálfs í starfsaldri. Slíkur starfsaldur getur þó mest orðið sex ár, enda teljist eigi starfsaldur vegna launaðra starfa á sama tíma.“

Tillaga 3: „Metin skulu til starfsreynslu heimilis og umönnunarstörf þegar um hliðstæð störf er að ræða. Slíkur starfsaldur getur þó mest orðið sex ár, enda teljist eigi starfsaldur vegna launaðra starfa á sama tíma. Þegar um óskyld eða sérhæfð störf er að tefla skulu heimilis- og umönnunarstörf í minnst þrjú ár metin til starfsaldurs. Slíkur áunninn starfsaldur getur mest orðið fjögur ár.“

Í skýrslunni eru framangreindar tillögur skýrðar með nokkrum orðum. Vakin er athygli á því að aðeins er gerð ein tillaga um fyrri hluta þáltill. Sú tillaga er sniðin eftir grein 1.1.8 í aðalkjarasamningi fjmrh. og BSRB sem gilti frá 1. febr. til 30. des. 1986, en greinin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Við ákvörðun starfsaldurs er heimilt að taka til greina starfstíma hjá öðrum vinnuveitendum en því opinbera á þann hátt að við starfsaldur sé bætt starfstíma við hliðstæð störf. Slíkur starfsaldur getur mest orðið sex ár. Um framkvæmd þessa ákvæðis gilda þær meginreglur sem samstarfsnefnd BSRB og fjmrn. hefur sett um grein 1.1.8 í fyrri aðalkjarasamningi.“

Í skýrslunni er bent á að í greininni er bæði talað um hliðstæð störf og hámarksárafjölda þegar lagt er mat á starfsreynslu þeirra sem ekki hafa unnið hjá hinu opinbera. Í tillögunni felst m.a. að ýmsum hömlum verður aflétt sem nú finnast í sérkjarasamningum ýmissa félaga varðandi mat á heimilisstörfum. Nefna má að í sumum sérkjarasamningum er miðað við lífaldur viðkomandi en ekki starfsaldur sem er miklu eðlilegra. Í núgildandi samningum ná þessi ákvæði oftast eingöngu til almennra ófaglærðra hliðstæðra starfa. Þessi till. nær hins vegar til allra sambærilegra starfa, faglærðra jafnt sem ófaglærðra, eins og fóstra, kennara og hjúkrunarfræðinga svo að einhverjar stéttir séu nefndar.

Varðandi síðari lið þáltill. eru gefnir upp þrír valkostir. Er tekið mið af því að hjá nokkrum sveitarfélögum er reynsla af heimilisstörfum metin í öll störf hjá sveitarfélaginu. Fyrsti valkostur gengur lengst og á sér ekki hliðstæðu hjá neinum sveitarfélögum. Annar valkosturinn á sér fyrirmynd hjá bæjarstarfsmönnum í Vestmannaeyjum og þriðji valkosturinn örlítið breyttur á sér fyrirmynd hjá Kópavogskaupstað og Garðabæ. Í báðum síðastnefndu tilvikunum stendur reyndar „heimilisstörf í minnst fjögur ár“. Enn fremur var tekið mið af umræðum sem fram fóru á Alþingi um mat á heimilisstörfum þar sem glögglega kom fram það sjónarmið að meta ætti meira reynslu af heimilisstörfum í hliðstæð störf á vinnumarkaði en óskyld störf.

Í niðurlagi þessarar skýrslu eru birtir nokkrir útreikningar sem gefa til kynna þann kostnað fyrir vinnumarkaðinn sem er því samfara að meta heimilis- og umönnunarstörf til starfsreynslu, en ljóst er að sá kostnaður er langt í frá að vera óyfirstíganlegur eins og kemur fram í mati skýrslugerðarmanns.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til, þó að það hefði verið freistandi, að lesa meira úr þeirri ágætu skýrslu sem hér er til meðferðar. Það tæki of langan tíma. Ég vænti þess að hv. alþm., sem á annað borð hafa áhuga á þessum málum, vilji í raun og veru vinna að því að færa þessi mál til þess vegar, sem ég vænti að allflestir séu sammála um, að meta þessi störf þannig að það fólk sem vinnur á heimilum fái fullan rétt á vinnumarkaði því að auðvitað vitum við það öll, og ekki síst við sem erum búin að lifa nokkuð langa ævi, að þetta fólk allflest hefur miklu meiri reynslu á mörgum sviðum en jafnvel þeir sem aldrei vinna slík störf.

Ég tel eðlilegt að á grundvelli þessarar skýrslu muni Jafnréttisráð hafa forgöngu um að gera tillögur um á hvern hátt eðlilegast er að koma þessum tillögum, sem hér eru fram settar, til framkvæmda í samningum um kaup og kjör, bæði á vinnumarkaði, hjá atvinnurekendum og því opinbera, ríki og sveitarfélögum, og ég vænti þess að þessi vel gerða skýrsla, sem inniheldur nákvæma úttekt á þessum málum eins og þau eru á okkar vinnumarkaði, verði leiðbeinandi um hvernig á að halda á þessum málum og það verði þrýst á bæði ríki og aðila vinnumarkaðarins að gera átak til að koma þessum málum í viðunandi horf. Að því tel ég að við eigum að vinna. Þessi skýrsla er upphafið að því að ná þessum áfanga.