03.03.1987
Sameinað þing: 58. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3659 í B-deild Alþingistíðinda. (3263)

378. mál, Skógrækt ríkisins

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég kem hér upp til að styðja þessa till. þó ég sé þm. annars kjördæmis. Ég held að einmitt sá reipdráttur sem hefur verið á milli landsbyggðarþingmanna sé ein af mörgum ástæðum fyrir því hvernig okkur gengur að flytja þjónustufyrirtækin út á land. Ég man eftir því að þegar Sigurður Blöndal tók við sínu starfi, fluttist einmitt frá Hallormsstað og hingað, var ég einn af þeim sem vildu alls ekki undir neinum kringumstæðum flytja hann að austan. Ekki það að ég hefði út af fyrir sig neina hagsmuni af því eða mitt kjördæmi annað en að þetta var sú stefna sem ég hef alltaf haft frá fyrstu tíð.

Síðasti ræðumaður, hv. þm. Helgi Seljan, minntist á Noreg í þessu sambandi og hvað þeim hefði gengið. Þá má minna á að þeir eru með fylkjaskipan og það er léttara fyrir þá að koma þessu fyrir vegna þess að fylkin eru með ákveðna þjónustu fyrir hvert svæði, hvert fylki. Hér höfum við þetta ekki. Við erum í ákveðnu munstri má segja. Okkur finnst að þetta þurfi að vera eins og það er og þó það sé einn og einn og jafnvel nokkuð af fólki sem vill brjótast út úr þessum munstrum gengur það illa af ýmsum ástæðum. Ég held að það sé ástæðan ekki einungis með þetta mál heldur mörg fleiri þegar við reynum að ná samstöðu um að flytja stofnanir út á land, brjótast út úr munstrinu. Ef það tekst ekki með þessum hætti þarf að stokka þetta upp og verður gert hvenær sem það gerist.