28.10.1986
Sameinað þing: 9. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í B-deild Alþingistíðinda. (334)

Framleiðnisjóður landbúnaðarins

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég verð að segja að oft hef ég verið hissa í umræðum hér á Alþingi en sjaldan eins og nú. Sumir af þeim mönnum sem hér hafa talað gera sér enga grein fyrir því hvernig þessi mál eru, ekki nokkra, og þar á meðal hv. þm. Páll Pétursson.

Það er ekki stefnan sem við förum eftir, það eru þrengingar í markaðsmálum sem neyða okkur til að taka svona á málum. Hæstv. landbrh. er ekki öfundsverður af því hlutverki að stjórna þessum málum og ekki síst þegar menn bregðast við eins og hér hefur gerst.

Ég spyr fyrrv. ráðherra í landbúnaðarmálum: Hvað meinar hann þegar hann er að tala um skipulagslausa fækkun á bústofni landsmanna? Vill hann segja mér eða öðrum að ég eigi að fækka? Eða hvernig á að taka á þessum málum? Hæstv. landbrh. hefur ekki neytt neinn heldur eru þetta ráð sem hann grípur til til að komast að hverjir vilja fækka. Það er ekki verið að neyða neinn til að gera það. Ef meiri hluti Alþingis vill hlaupa undir bagga í þessum málum og styrkja þá vöru alla sem þarf að framleiða í landbúnaði til þess að hann bjargist sæmilega, þá er vel. En til hvers er að framleiða vöru sem ekki fæst neitt fyrir?

Ég er hissa á fyrrv. fjmrh. Ég ætla að minna hann á jarðræktarframlagið sem bændur áttu að fá á hans árum til að byggja upp eitthvað í staðinn fyrir þessar hefðbundnu búgreinar. Við áttum marga glímu um það, en ég tapaði þeirri glímu.