04.03.1987
Neðri deild: 51. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3741 í B-deild Alþingistíðinda. (3346)

273. mál, uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla

Gunnar G. Schram:

Herra forseti. Við Íslendingar höfum á liðnum árum og áratugum háð langa og harða baráttu fyrir því að ná yfirráðum yfir auðlindum landgrunnsins, fiskimiðum okkar. Við getum rakið þá baráttu allt aftur til ársins 1950 þegar landhelgin fyrir Norðurlandi var færð út í 4 sjómílur undir forustu Ólafs Thors og síðan í kringum allt Ísland 1952. Þessari löngu baráttu og mörgu þorskastríðum lyktaði árið 1976 þegar Ísland lýsti yfir 200 sjómílna efnahagslögsögu undir forustu Geirs Hallgrímssonar og ríkisstjórnar hans.

Það var mikið stríð sem á þessum árum var háð og það voru ýmsar fórnir færðar í því stríði. Það gekk ekki þrautalaust og kostaði úlfúð og illdeilur við ýmsa af okkar ágætu nágrönnum. Sú barátta var fyrst og fremst háð til þess að Íslendingar og Íslendingar einir fengju eignarhald og óskoruð yfirráð yfir auðlindum landgrunnsins. Auðlindir landgrunnsins hafa verið og eru undirstaðan undir velmegun og framförum íslensku þjóðarinnar. Á því leikur ekki hinn minnsti vafi þótt þáttur iðnaðar hafi farið vaxandi í íslenskum þjóðarbúskap á síðustu árum.

Með þetta í huga og þá sögu sem er að baki, er við losuðum okkur við útlendingana af íslenskum miðum fyrir aðeins örfáum árum, vekur það stóra undran og mikla furðu að lesa Alþýðublaðið þriðjudaginn þann 3. mars s.l. Í stórri forsíðufyrirsögn segir og efst á forsíðu: „Erlent fjármagn í fiskvinnsluna. „Fögnum nýju framtaki í atvinnumálum“, segir Karl Steinar Guðnason alþingismaður.“

Og síðan segir í frétt Alþýðublaðsins af þessum athyglisverðu ummælum þessa þm. Alþfl., Karls Steinars Guðnasonar, 6. landsk. þm., og með leyfi hæstv. forseta les ég orðrétt:

„Við fögnum öllu nýju framtaki í atvinnumálum.“ „Með þessu móti hefur fengist fjármagn.“ „Erlendir aðilar hafa nýverið keypt sig inn í tvö fyrirtæki. Við frábiðjum okkur“ - og ég held áfram að vitna í orð þm. - „allan gamaldags hugsunarhátt og einangrun. Það er því engin ástæða til annars en horfa björtum augum til framtíðarinnar því að þessi fyrirtæki vita nákvæmlega hvað þau eru að gera," sagði Karl Steinar.

Ég efast ekki um að þau erlendu fyrirtæki sem þm. tíundar hér vita nákvæmlega hvað þau eru að gera. Til þess hafa þau verið að kaupa sig inn í íslenskan sjávarútveg. Ég efast heldur ekki um að það er einhver skammvinnur og hugsanlega langvinnur stundargróði að slíkum kaupum, fyrst og fremst þó vitanlega fyrir hinn erlenda fjármagnsaðila, en hugsanlega einnig einhver skammvinnur gróði fyrir hina íslensku samstarfsmenn. Ég skal ekki neita því. En það sætir mikilli furðu að maður sem jafngerkunnugur er sjávarútvegsmálum og á svo langa þingsögu að baki sem hv. þm. Karl Steinar Guðnason skuli ekki gera sér ljóst hvílíkar dyr hættunnar eru opnaðar með slíku skrefi, að jafnreyndur þm. með jafnmikla þekkingu á sjávarútvegsmálum skuli fagna því sérstaklega að erlendu fjármagni sé á þennan hátt greidd leið inn í íslenskan sjávarútveg. Hann fagnar því sérstaklega að með þessu skuli horfið aftur inn á þá braut sem íslenska þjóðin hefur ötullega á undanförnum áratugum barist fyrir að yrði ekki farin. Hv. þm. fagnar þessu nýja framtaki í atvinnumálum svo að orð hans sjálfs séu notuð.

En hvernig mega þau undur og stórmerki gerast að erlent fjármagn sé að kaupa sig, og þetta eru aðeins fyrstu skrefin, inn í íslenskan sjávarútveg þar sem Íslendingar hafa vitanlega alla burði til þess að standa sjálfir að verki? Til þess voru þorskastríðin háð. Það er vegna þess að í íslenskri löggjöf er það sem oft og tíðum er nefnt „gat í lögum“. Ég vil skýra það örlítið nánar. Í því sambandi langar mig til að vitna í skýrslu sem hæstv. viðskrh. hefur nýlega lagt fyrir Alþingi og er 389. mál þessa þings og heitir „Skýrsla viðskiptaráðherra um erlenda fjárfestingu og íslenskt atvinnulíf.“

Í þessari skýrslu kemur það fram, sem hæstv. sjútvrh. rakti, að í lögum frá 1922, um fiskveiðar í landhelgi, segir að einungis íslenskum ríkisborgurum sé heimilt að stunda fiskveiðar í landhelgi við Ísland. Þessi regla nær ekki aðeins til einstaklinga heldur og til sameignarfélaga og annarra félaga sem rekin eru með ótakmarkaðri ábyrgð félagsmanna. Um hlutafélög gegnir að vissu leyti öðru máli. Þar kveða lögin svo á að meira en helmingur hlutafjár í hlutafélögum sem reka útgerð skuli vera í eigu íslenskra ríkisborgara. Félagið skuli eiga lögheimili hér á landi og stjórn þess skipuð íslenskum ríkisborgurum og sé a.m.k. helmingur þeirra búsettur hér.

Ákvæði þessara gömlu laga, sem hafa verið grundvöllurinn fyrir íslensku forræði í fiskveiðum frá 1922, eru ekki eins skýr að því er varðar fiskvinnsluna og fiskveiðarnar. Í skýrslu þeirri sem nú liggur fyrir Alþingi segir um það að samkvæmt athugasemdum sem fylgdu frv. frá 1922 hafi megintilgangur þeirra verið sá að koma í veg fyrir að útlendingar gætu stundað fiskveiðar innan landhelgi og verkað aflann þar eða á landi. Síðan segir í skýrslu viðskrh. um erlendar fjárfestingar:

„Um það álitaefni hvernig með skyldi farið ef útlendingur fjárfesti í fyrirtæki, sem einvörðungu stundar fiskvinnslu en ekki útgerð, virðist ekki fjallað í lögunum.“ Tilvitnun lýkur í þá fjárfestingarskýrslu sem viðskrh. lagði nýlega fyrir þing og hefur ekki verið hér enn til umræðu.

Það er því eyða í lögunum nr. 33 frá 1922. Þau eru fyrst og fremst ætluð til að koma í veg fyrir veiðar erlendra manna hér við land í íslenskri landhelgi, en þau taka varla og sennilega ekki til fiskvinnslunnar. Það er í skjóli þessa sem erlent fjármagn sér sér nú leik á borði að komast inn í íslenska fiskvinnslu og það er í skjóli þessa sem sumir þm., þingmenn Alþfl. fagna þessu nýja framtaki í atvinnumálum.

Herra forseti. Ég held að það fari ekki á milli mála þegar við ræðum um fiskmarkað og þau mál sem því efni tengjast að óhjákvæmilegt sé að minnast á þessi atriði einnig vegna þess að hér er um svo stórvægilegt atriði að ræða, þ.e. kaup erlendra aðila á fiski í gegnum íslensk fyrirtæki og félög, sem mikil áhrif gæti haft á væntanlega fiskmarkaði í Reykjavík og annars staðar á landinu. En það er kannske ekki aðalatriðið.

Aðalatriðið er að það er nauðsynlegt að setja skýr og ótvíræð lagaákvæði, eins og þessi skýrsla sýnir og eins og ummæli sjútvrh. báru með sér áðan, um það hvort við Íslendingar viljum að erlendir aðilar, erlent fjármagn eigi beina hlutdeild í íslenskri fiskvinnslu eða ekki. Við getum fallist á að erlent fjármagn og erlendar fjárfestingar séu nauðsynlegar á mörgum sviðum íslensks atvinnulífs. Sjálfur er ég talsmaður þess að víða geti verið gagn að erlendu fjármagni og erlendum fjárfestingum og þá frekar en beinum lánum þar sem áhættan hvílir öll á herðum Íslendinga einna. Þau lán eru orðin yfrið há.

En við verðum að gera skýran greinarmun á því á hvern hátt erlend fjárfesting er notuð í íslensku atvinnulífi og á hvaða sviðum hún getur átt sér stað. Þar verðum við fyrst og fremst, og það er meginatriði þessa máls, að undanskilja auðlindir Íslands þannig að útlendingar nái aldrei tangarhaldi á auðlindum okkar, hvort sem er til lands eða sjávar. Því er það í ljósi þessara ummæla Alþýðuflokksþingmannsins, sem fagnar innreið þessa erlenda fjármagns í íslenska fiskvinnslu, brýn nauðsyn, höfuðnauðsyn fyrir Alþingi Íslendinga að setja hér skýr ákvæði þar sem fram kemur hvort löggjafarsamkundan er sammála skoðun þessa forustumanns Alþfl. eða ekki.