28.10.1986
Sameinað þing: 9. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 377 í B-deild Alþingistíðinda. (339)

Framleiðnisjóður landbúnaðarins

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Nýju búvörulögin fela í sér mörg merk nýmæli. Það er hins vegar ekki rétt, sem hér var haldið fram, m.a. af hv. 11. landsk. þm., að áður en þau voru sett hafi framleiðsla búvöru verið óheft í landinu. Á sínum tíma 1980, þegar ég var í starfi landbrh., var gripið til harkalegra stjórnvaldsaðgerða á grundvelli þágildandi laga. Það var með fóðurbætisskatti og kvótakerfi. Það hafði þau áhrif að mjólkurframleiðsla féll úr 120 millj. lítra niður í 103 millj. lítra og var allan tímann sem ég gegndi starfi ráðherra að meðaltali um 105 millj. lítra, um 5% umfram innanlandsneyslu. Á sama tíma var ekki jafnharkalega tekið á sauðfjárframleiðslunni einfaldlega vegna þess að það þurfti tíma til þess að koma upp öðrum tekjuöflunarmöguleikum í sveitum landsins þannig að unnt væri að ganga svo hart að bændum sem nú er krafist í báðum aðalbúgreinum landbúnaðarins.

Ég minni á að þótt hv. þm. Páll Pétursson telji að ég hafi gengið of skammt í þessum efnum kom ekki fram krafa um það frá hans hálfu á þeim tíma. Á hinn bóginn reyndi ég að efla markaðsleit og markaðskönnun og ég þakka fyrir það sem gert hefur verið á innlendum vettvangi í því efni nú um stundir, en það er eins og menn hafi gersamlega gefist upp og gefið frá sér að leita eftir meiru á erlenda markaðnum fyrir íslenska búvöru, þessa hollu og góðu vöru.