11.03.1987
Sameinað þing: 61. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3927 í B-deild Alþingistíðinda. (3597)

396. mál, utanríkismál

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Skýrsla frá hæstv. utanrrh. til Alþingis er orðin árviss viðburður og hefðbundinn og umræður um hana. Það ber að fagna því að þingið skuli taka þessi mál á hverju ári til sérstakrar umræðu. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir að hafa staðið við þessa hefð nú sem í fyrra og fagna því að tækifæri er til að fara yfir nokkur atriði sem snerta okkar utanríkismál og störf og stefnu í þeim efnum.

Ég vil líka við upphaf þessarar umræðu þakka samstarfsmönnum í utanrmn. fyrir samstarfið á þessu þingi og milli þinga og formanni, hv. þm. Eyjólfi Konráði Jónssyni, fyrir forustu í nefndinni. Þó við séum ekki alltaf sammála á þeim vettvangi hefur hann að jafnaði reynt að þoka málum áfram sem til nefndarinnar er vísað og ég vænti þess að framhald verði á því einnig á þessu þingi, en minni um leið á að fyrir utanrmn. liggja nú óvenjumörg óafgreidd þingmál og er ég flm. að nokkrum þeirra. En ég þykist vita að formaður utanrmn. og aðrir nefndarmenn hafi hug á að afgreiða þau mál til þingsins þó skammur tími sé til þingloka.

Skýrslan sem hér liggur fyrir er að mörgu leyti með svipuðum áherslum og fram kom í fyrra hjá hæstv. ráðh. þegar hann flutti sína fyrstu skýrslu til þingsins, en milli þess sem málin hafa verið rædd á grundvelli slíkrar skýrslu hefur utanríkismál borið á góma í umræðum á þinginu, bæði í sambandi við einstakar till. og eins í umræðum utan dagskrár, þá einkum um þau miklu ágreiningsefni sem uppi eru í sambandi við okkar utanríkisstefnu og koma bæði fram í sambandi við afstöðu til afvopnunarmála og vígbúnaðarmála svo og í sambandi við aðild Íslands að hernaðarbandalagi og veru erlends herliðs hér í landinu.

Það ár sem liðið er síðan við ræddum síðustu skýrslu hæstv. ráðh., 14. apríl í fyrra, hefur verið mjög viðburðaríkt á alþjóðavettvangi, eins og fram kemur í skýrslu hæstv. ráðh. og hann vék að í sínu máli. Þar hafa orðið umtalsverð þáttaskil sem vekja okkur vonir um að það sé að vænta fyrr en seinna betri tíðar í samskiptum risaveldanna en verið hefur um langt skeið eða frá því snemma á síðasta áratug, árunum um og upp úr 1970, árum sem kennd voru við þíðu. Ég ætla ekki að fara að rekja þá sögu né heldur að vega og meta hlut risaveldanna í þeim stirðleika í sambúð sem ríkt hefur um langt skeið þar til nú að glæta hefur skapast á ný. Hitt dylst mönnum ekki að mjög stórvægilegar breytingar hafa orðið alveg sérstaklega hvað snertir afstöðu Sovétríkjanna í sambandi við vígbúnaðarmálin og það frumkvæði sem komið hefur úr þeirri átt eftir alllanga stöðnun og fastheldni sem gagnrýnd var af mér á þeim tíma, ekki síður en afstaða Bandaríkjanna í þessum efnum.

Það er vissulega ánægjuefni að fundur leiðtoga risaveldanna haldinn hér í Reykjavík á s.l. hausti skuli hafa orðið vettvangur til umbrota í þessum efnum og breytinga svo róttækra að heimsbyggðin er ekki söm í reynd eftir þau tíðindi og tillögur sem þar voru lagðar fram, þótt ekki tækist þar samkomulag og ekki tækist að ganga frá samningi sem markaði þáttaskil eins og allir hefðu vonað væntanlega að þar hefði tekist, a.m.k. hér á Íslandi.

Það var alveg ljóst eftir þennan fund að hið austræna risaveldi, Sovétríkin, lagði mikið undir að koma hreyfingu á afvopnunarmálin og það sem hefur verið að gerast síðan í þessum efnum og nú síðast nýjar tillögur af þeirra hálfu í afvopnunarviðræðunum í Genf sýnir mönnum að þar fylgir hugur máli í framhaldi af þeim tillögum sem fram komu á Reykjavíkurfundinum, án þess að ég vilji vera að meta stöðuna í einstökum atriðum eða leggja mat á tillögur sem ég hef ekki farið yfir öðruvísi en að fylgjast með þeim í fjölmiðlum. Þessi hreyfing og þetta frumkvæði, sem þarna er á ferðinni, hlýtur að vera öllum sem láta sig alþjóðamál varða og spurninguna um stríð og frið mikið ánægjuefni og krafan á gagnaðilann, risaveldið í vestri og bandamenn þess, að taka undir með eðlilegum hætti þann vilja sem þarna hefur komið fram og láta reyna á það á borði hvort ekki næst samkomulag hlýtur að vera mjög þung. Hún kemur fram ekki aðeins hjá vinstri öflum í Vestur-Evrópu heldur langt inn í raðir miðflokka og jafnvel hægri flokka, þó að hér á Íslandi kveði enn við talsvert ólíkan tón á við þann sem algengastur er frá ríkisstjórnum og meiri hluta þjóðþinga í Vestur-Evrópu, m.a. á öðrum Norðurlöndum.

Þegar við ræddum skýrslu utanrrh. í fyrra höfðu gerst tíðindi á alþjóðavettvangi sem vöktu ugg einmitt daginn á undan og þann sama dag eða sama sólarhring og skýrslan var rædd, en það var hin fyrirvaralausa árás Bandaríkjamanna á Líbýu sem færði heiminn nær hættuástandi kjarnorkustríðs en verið hafði um langt skeið. Þetta mál var rætt þá í tengslum við umræðuna og gagnrýnd hin veiku viðbrögð íslenskra stjórnvalda í þessum efnum. Hæstv. utanrrh. vék að hryðjuverkastarfsemi og fordæmdi hana og undir það er hægt að taka í almennum orðum, en það verður líka að gera kröfu til þess að þeir sem hafa helsprengjuna undir höndum leiki sér ekki að eldinum með gáleysi eins og fram kom í árásum Bandaríkjanna á Líbýu með aðstoð frúarinnar í Downing street 10. Síðan hefur komið fram að að baki þessarar árásar lágu kannske enn ákveðnari hvatir, að tortíma þjóðarleiðtoga í umræddu ríki, miður þokkuðum þjóðarleiðtoga, en sú aðför mistókst af tæknilegum ástæðum eftir því sem virt blöð í Bandaríkjunum greina frá.

Þetta er eitt lítið dæmi um afstöðu af Íslands hálfu sem var með öðrum hætti en gerðist hjá mörgum svokölluðum bandalagsríkjum okkar, en dæmin eru því miður miklu fleiri og skýrari sem sýna sérstöðu Íslands, núv. ríkisstjórnar og hæstv. utanrrh. sérstaklega, til afvopnunarmála og atburða a alþjóðavettvangi en þetta dæmi um Líbýu sem þó var nógu alvarlegt. Fleiri, eins og árásin á Grenada á sínum tíma, mætti til tína í því sambandi. En ég er þarna sérstaklega með í huga þá afstöðu og þau fyrirmæli sem hæstv. utanrrh. hefur gefið fulltrúum Íslands á alþjóðavettvangi varðandi ráðstöfun á atkvæði Íslands og hefur ítrekað verið rædd á Alþingi sú afstaða sem ráðherrann hefur þar tekið og fylgt hefur verið eftir trekk í trekk þar sem Ísland eitt Norðurlanda hefur staðið með Reagan-stjórninni, með Bandaríkjastjórn ásamt örfáum öðrum ríkjum.

Ég minni þar á afstöðuna sem tekin var öðru sinni, annað þing Sameinuðu þjóðanna í röð til tillögu Svíþjóðar, Mexíkó og fleiri ríkja varðandi frystingu kjarnavopna. Þar var Ísland eitt í hópi fjögurra ríkja sem sátu hjá eftir að 139 ríki Sameinuðu þjóðanna höfðu goldið jáyrði við atkvæðagreiðslu og aðeins 12 ríki greiddu atkvæði gegn. Ísland eitt Norðurlanda skipaði sér í hóp þeirra ríkja sem dyggust eru í fylgispekt við þá utanríkisstefnu sem forseti Bandaríkjanna hefur fylgt.

Og þær eru fleiri tillögurnar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna þar sem hið sama hefur verið uppi á teningnum. Þegar greidd voru atkvæði þar á síðasta allsherjarþingi um stöðvun allra kjarnorkuvopnatilrauna, tillögu sem Mexíkó er 1. flm. að, var Ísland einnig í þeim hópi sem ekki guldu jáyrði. Það voru 135 ríki sem voru þar með, þrjú á móti og Ísland var í 14 ríkja hópi sem sat hjá á meðan öll hin Norðurlöndin stóðu að þessari samþykkt og Danmörk og Noregur höfðu breytt afstöðu sinni frá því árið á undan. Þetta er heldur óskemmtilegur félagsskapur sem Ísland er í hópi með á þessum alþjóðavettvangi sem hvað mest er eftir tekið og það er engin tilviljun að atkvæði falla með þessum hætti. Þau eru að sjálfsögðu samkvæmt sérstökum beinum fyrirmælum hæstv. ráðh. sem stundum lætur að því liggja að hann sé að fylgja eftir samþykktum Alþingis, samþykkt um afvopnunarmál sem samþykkt var hér samhljóða 23. maí 1985, en það þarf alveg sérstök gleraugu til að lesa þá samþykkt og fá út úr henni þá afstöðu sem hæstv. ráðh. lætur Ísland fylgja fram á alþjóðavettvangi.

Frysting kjarnavopna, tillaga 41.60e á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, flutt af Indlandi. Þar var hið sama uppi á teningnum. Öll hin Norðurlöndin voru með tillögunni. Ísland sat hjá ásamt fimm öðrum ríkjum.

Ég ætla ekki að hafa þennan lestur lengri þó ég hafi hér undir höndum fjölda tillagna af vettvangi Sameinuðu þjóðanna þar sem Ísland tekur afstöðu með sama hætti og hér var rakið í sambandi við hin stærstu afvopnunarmál, sem þar eru til umræðu og afgreiðslu.

Það er sannarlega hörmulegt fyrir land þar sem verið er að reyna að laða að þjóðarleiðtoga, jafnvel fulltrúa risaveldanna, til að ráða ráðum sínum í afvopnunarátt, að afstaða ríkisstjórnar skuli vera með þessum hætti. Hæstv. forsrh. mun hafa viðrað það austur í Moskvu um daginn að það væri æskilegt að hér væri sett á fót sérstök stofnun til að hlúa að afvopnunarmálum, stofnun sem risaveldin legðu til fjármuni til að setja á laggirnar. Ég held að Íslendingar ættu að gera hreinna fyrir sínum dyrum í sambandi við þessi efni áður en þeir fara að vænta þess að hér verði sett á laggirnar stofnun af því tagi. Ég a.m.k. vildi sjá betra andrúmsloft og jákvæðara í kringum slíkar óskir bornar fram af talsmönnum Íslands og æðstu forustumönnum í þeim efnum.

Afstaðan til stöðvunar kjarnorkuvopnatilrauna er sannarlega einnig lýsandi um þá stefnu sem hæstv. utanrrh. hefur fylgt. Við ræddum það á Alþingi 11. febr. s.l. og þá kom í ljós að hæstv. ráðh. stóð einn í málsvörn. Af þeim talsmönnum flokkanna sem þar töluðu stóð hann einn í málsvörn fyrir það framferði Bandaríkjastjórnar að halda áfram kjarnorkusprengingum í tilraunaskyni neðanjarðar eftir að Sovétríkin höfðu einhliða stöðvað slíkar tilraunir, en Bandaríkin sprengt 20 sinnum.

Það var sannarlega athyglisverð ræðan sem hæstv. ráðh. flutti í þinginu þann dag, 11. febr. s.l., til rökstuðnings afstöðu sinni. Hæstv. ráðh. vitnaði áðan í allnokkrar ræður sem hann hafði flutt á liðinni tíð, en hann sleppti þessari réttlætingarræðu sinni í sambandi við kjarnorkusprengjutilraunir Bandaríkjastjórnar. En ég vil aðeins leyfa mér að grípa niður í máli hæstv. ráðh. til að rifja það upp fyrir þingheimi sem þá hraut af hans vörum, með leyfi forseta.

Ráðherrann sagði: „Við erum þátttakendur í varnarbandalagi sem hefur þá margyfirlýstu stefnu að það mun aldrei grípa til vopna að fyrra bragði. Þetta bandalag hefur gegnt sínu hlutverki vegna fælingarstefnu sem hefur sannfært hugsanlega árásaraðila um tilgangsleysi stríðsaðgerða. Þetta hefur gerst þrátt fyrir augljósa yfirburði Varsjárbandalagsríkjanna á sviði hefðbundins vígbúnaðar.“

Og síðan segir ráðherrann: „Staðreyndin er að kjarnavopn hafa gegnt lykilhlutverki í því að stöðva útþenslu Sovétríkjanna í Evrópu. Í öllum samningum um afvopnun á sviði kjarnorkuvígbúnaðar verður því að hafa hliðsjón af öðrum þáttum vígbúnaðar þannig að afvopnun leiði ekki til minna öryggis og stefni þannig friðnum í hættu. Vestrænum ríkjum er því mikill vandi hér á höndum“, segir ráðherrann.

Og síðar í sömu ræðu: „Á meðan enn hefur ekki tekist að undirbúa jarðveginn fyrir gagnkvæmt traust milli austurs og vesturs er það mat vestrænna ríkja að það verði að halda uppi sannferðugum fælingarmætti. Þetta er ástæða þess að Bandaríkjamenn halda áfram tilraunum sínum með kjarnavopn þrátt fyrir óskir manna um að þeim verði hætt.“

Þetta er rökstuðningur ráðherrans fyrir þessari afstöðu og er næsta fágæt á vettvangi utanríkisráðherra í Vestur-Evrópu að bera fram mál sem þetta til varnar fyrir afstöðu Reagans í kjarnorkumálum og kjarnorkutilraunum.

Þetta er auðvitað rökrétt hjá hæstv. utanrrh. miðað við þá stefnu sem hann hefur túlkað á Alþingi æ ofan í æ, m.a. stefnu hans og vörn fyrir stjörnustríðsáætlun Reagans. Hann er í hópi þeirra tiltölulega fáu utanríkisráðherra í Vestur-Evrópu, þeir eru mjög fáir, sem hafa haldið uppi hraustlegum vörnum fyrir stjörnustríðsáætlun Reagans eins og hæstv. ráðh. Matthías Á. Mathiesen. En það hefur hann gert og hann skjalfesti í skýrslu sinni í fyrra að það væri eftirsóknarvert fyrir Íslendinga að gerast þátttakendur í stjörnustríðsáætlun Bandaríkjanna.

Það væri kannske ágætt að hæstv. ráðh. gerði okkur grein fyrir því hvað miðað hefur í þeim efnum að þoka því hugsjónamáli áfram að Ísland verði þátttakandi í áætlun sem byggir m.a. á því að brjóta gagneldflaugasamninginn frá 1972, ABM-samninginn, sem byggir á þeirri afstöðu Bandaríkjastjórnar að túlka þann samning rúmt þannig að tilraunir með kjarnorkuvopn til undirbúnings að senda þau út í geiminn séu heimilar að þeirra mati innan ramma þessa samnings. Þetta er afstaða sem ég hef ekki heyrt nokkurn mæla bót í hópi utanrrh. eða talsmanna ríkisstjórna í Vestur-Evrópu, það má vera að hæstv. ráðh. hafi dæmi þar að lútandi. Þetta stangast á við það sem ég heyrði í ræðu hæstv. ráðh. áðan, sem mér þótti gott að heyra, þar sem hann sagði og lýsti því viðhorfi sínu að hann teldi óráðlegt og óæskilegt að farið verði út fyrir mörk ABM-samningsins frá 1972 samkvæmt þröngri túlkun þess samnings. En hæstv. ráðh. virðist ekki vera betur inni í þessum málum en fram kemur í orðum hans á Alþingi ekki fyrir löngu þar sem hann styður vígbúnaðaráætlanir Bandaríkjastjórnar og er að óska eftir þátttöku Íslendinga í þeim áætlunum sem byggja á því að brjóta ABM-samninginn, að brjóta þá túlkun sem viðtekin hefur verið þar og sem er yfirlýst stefna Bandaríkjastjórnar.

Ég held að það væri æskilegt fyrir hæstv. ráðh. að gera hreint fyrir sínum dyrum í þessum efnum. Hvernig samræmir hann stuðning sinn við stjörnustríðsáætlun Reagans þeim orðum sem féllu áðan, að hann styddi þrönga túlkun samningsins? Ég treysti því að hæstv. ráðh. geri rækilega grein fyrir þessu hér í umræðunni því að hér er um stórmál að ræða. Hefur ráðherrann breytt afstöðu sinni til stjörnustríðsáætlunarinnar? Er hann ekki lengur þeirrar skoðunar að æskilegt sé fyrir Íslendinga að gerast þar þátttakendur? Telur hann það kannske eftir að hafa upplifað það í eigin landi að stór stund í afvopnunarmálum varð strand vegna afstöðu Bandaríkjastjórnar til þessarar áætlunar, stjörnustríðsáætlunarinnar, sem var þröskuldurinn hér í Reykjavík á leiðtogafundinum s.l. haust?

Hæstv. ráðh. notaði nokkurn tíma í ræðu sinni áðan til að réttlæta afstöðu sína til hugmyndarinnar um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum. Þar kom í rauninni ekkert nýtt fram, en einnig þar er hæstv. ráðh. tiltölulega einmana á norrænum vettvangi og ég vænti þess að ráðherrann sé einmana í hópi þingflokka á Alþingi þó að það hafi ekki komið fram með skýrum hætti. Það væri fróðlegt, því ég reikna með að hv. þm. Kjartan Jóhannsson tali hér á eftir, að hann sem talsmaður Alþfl. og fulltrúi í utanrmn. skýri þingheimi frá því skýrt og greinilega hver sé afstaða Alþfl. á Íslandi til hugmynda sem eru bornar uppi og studdar ekki síst af sósíaldemókrötum á Norðurlöndum um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum. Hangir Alþfl. aftan í afstöðu Sjálfstfl. í þessu máli eins og flestum öðrum á sviði utanríkis- og afvopnunarmála? Hver er afstaða Alþfl. til þessa stóra máls? Það hlýtur að koma skýrt fram í umræðunni. Er Alþfl. sammála Anker Jörgensen og öðrum leiðtogum jafnaðarmanna á Norðurlöndum í sambandi við kjarnorkuvopnalaust svæði eða hefur hann aðra skoðun á þessu efni? Það hlýtur að liggja fyrir. Eitthvað man ég eftir að formaður Alþfl. hafi vikið að þessum málum í ræðum og riti og ekki var ég mjög hrifinn af því sem ég heyrði frá honum síðast, en það hefur kannske skýrst. Við heyrum það væntanlega í umræðunni á eftir.

Í þessum málum hefur unnið sérstaklega og meira en flestir af þm. formaður Alþb. Svavar Gestsson og ég geri ráð fyrir því að hann víki sérstaklega að stöðu þessara mála síðar í umræðunni þannig að ég ætla ekki að fara um þennan þátt mála fleiri orðum að sinni.

Áður en vikið er frá afvopnunarmálunum er rétt að draga saman það sem mér sýnist vera afstaða ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar eins og hún birtist til þessara stóru mála á því kjörtímabili sem senn er allt. Þar hefur verið ríghaldið í kaldastríðsviðhorf eins og þau voru nöprust áður en hlutirnir fóru að hreyfast og það er fátt eitt sem ber vott um að þar hafi orðið breyting á þó að forsrh. skjótist stundum hér upp í ræðustólinn og lýsi andstöðu við sjónarmið utanrrh. En þá er það eins og fyrr aðeins fimleikaæfing hjá Framsfl. í sambandi við utanríkismálin þar sem reynt er að bjarga sér frá þeirri ásýnd sem þau í reynd hafa eins og þau birtast sem ákvarðanir ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar. Í þessari sveit er liðtækur og ég tel vera einlægur formaður þingflokks Framsfl. sem hefur sýnt stuðning við þessi efni, en er því miður afar fáliðaður í eigin flokki. Það er kannske það afdrifaríkasta eða a.m.k. eitt það afdrifaríkasta í sambandi við stöðu Íslands í þessum málum sá tvískinnungur sem ríkt hefur í röðum framsóknarmanna alla tíð frá því að Ísland gekk í NATO í sambandi við afstöðuna til veru í hernaðarbandalagi, til hersetu í landinu. Þar hefur það verið einskis megnugur minni hluti sem hefur andæft og þeim hefur farið fækkandi sem þar hafa lyft merki gegn vígbúnaðarstefnunni, en þeir eru þó til og þökk sé þeim fáu sem þar standa á verði.

Hitt er ekki síður raunasaga, sú staða sem Alþfl. hefur kosið sér í þessum efnum. Það þarf kannske ekki annað en minna á að það eru tíðindi í þingsögunni þegar fulltrúi Alþfl. kemur í ræðustól á Alþingi og segist hafa á einhverju aðra skoðun en Sjálfstfl. í sambandi við vígbúnaðarmálin, afvopnunarmálin. Það gerðist hérna um daginn og menn hrukku við því það var svo sögulegt. Þá kom hv. þm. Kjartan Jóhannsson og sagðist vera sammála þeim meiri hluta á þingi Bandaríkjanna sem væri á móti stefnu Reagans í kjarnorkuvopnatilraununum, þeir teldu að hann hefði lokað glugga sem ekki átti að skella í lás áður en það væri um seinan. Þetta voru tíðindi. Ef þau táknuðu veðrabrigði sem héldust hjá Alþfl. og það væri í rauninni um einhverja stefnubreytingu að ræða væri ástæða til að fagna þessu, og gott er það svo veikt sem það var, en þetta segir sitt í reynd um hvaða stöðu Alþfl. hefur kosið sér í sambandi við þessi efni og þar hefur afstaðan síst þróast til betri vegar á því kjörtímabili sem nú er senn á enda.

Ég kem svolítið að framkvæmdum í sambandi við herstöðvarnar hér og veru erlends herliðs á eftir, en þar hefur sannarlega verið tekið til hendi í vígbúnaðarátt á því kjörtímabili sem nú er að ljúka með þeim hætti að utanrrh. Sjálfstfl., tveir sem gegnt hafa því starfi á kjörtímabilinu, þenja brjóstkassann þegar að því er vikið hversu vel þeir hafa staðið sig að greiða götu hernaðaruppbyggingar í landinu og þeir hafa sannarlega af nokkru að státa fyrir sinn málstað, því miður.

En áður en ég kem að því vil ég víkja að afstöðu hæstv. ráðh. til svæðisbundinna átaka, sem hann fór mjög skjótt yfir í sinni ræðu, og nefna það sem hann nefndi ekki í þeim efnum og vekja athygli á því.

Það er eðlilegt að menn lýsi áhyggjum sínum varðandi vopnuð átök hvar sem þau eru, varðandi kúgun og undirokun. A.m.k. vil ég taka undir slíkan málflutning almennum orðum og hlýt að gera það og eins þegar troðið er á eðlilegum mannréttindum eins og gerist hjá meiri hluta ríkja heimsins í raun. Þó menn hafi séð þar þróun til betri vegar innan Sovétríkjanna hin síðustu misseri, þróun sem vissulega ber að fagna, get ég verið sammála þeim sem gagnrýna það sem þar skortir á, og það er mikið, að þar hafi gerst þeir atburðir sem maður vildi sjá sem víðast í heiminum í sambandi við mannréttindamálin. En menn ættu að minnast þess að það er víðar en í Sovétríkjunum þar sem menn að ósekju hafa setið bak við lás og slá eða í gæslu í sérstakri meðferð og sætt ekki síður grimmúðlegri meðferð og það væri ástæða til þess að utanrrh. landsins véki einnig að og myndi einnig eftir því fólki, sem er víða um heim, sem eru búin slík örlög.

Hæstv. ráðh. minnti á Afganistan og þau átök sem þar eiga sér stað. Alþb. hefur allt frá því að þau hófust og Sovétríkin skárust þar í leikinn fordæmt þá íhlutun og gerir enn og gerir á meðan hún á sér stað. Vissulega eru vonir bundnar við að þróun verði þar til jákvæðrar áttar og nokkur teikn á lofti að svo geti orðið. En víðar er heitt í kolum og víðar brennur undir oki en í Afganistan.

Hæstv. ráðh. nefndi kannske almennum orðum Mið-Ameríku og Suður-Ameríku í sínu máli, en þau voru fá. En hvað segir hæstv. ráðh. um ástandið í Chile í skýrslu sinni? Eigum við aðeins að staldra við það? Hann segir:

„Horfur eru betri í efnahagsmálum í Chile en þær hafa oft verið. Hagvöxtur var rúmlega 4% s.l. ár, verðbólga var á milli 15 og 20% og atvinnuleysi minnkaði. Ástandið er þó dökkt í innanlandsmálum. Ríkisstjórn Pinochets forseta lætur engan bilbug á sér finna þrátt fyrir þrýsting frá Vesturlöndum um að taka upp lýðræðislegri og frjálslyndari stjórnarhætti. Mótmæli sem hafa blossað upp öðru hverju hafa verið brotin á bak aftur. Ríkisstjórnin segir aðgerðirnar beinast gegn kommúnistum. Ljóst er að kommúnistar gera það sem í þeirra valdi stendur til þess að auka spennu í landinu og fá ríkisstjórnina ti að grípa til harðneskjulegra aðgerða gegn andstæðingum sínum. Tilgangurinn er að afla stefnu þeirra um vopnaða andstöðu gegn stjórninni fylgis og að útiloka að hægfara öfl komi til áhrifa í landinu.“

Þetta er tilvitnun í skýrslu ráðherrans um ástandið í Chile þar sem herforingjastjórn náði völdum með stuðningi Bandaríkjanna fyrir líklega 13 árum eða svo, steypti lýðræðislega kjörnum forseta sem var myrtur í átökum á þeim tíma. Hér er verið nánast að skjóta skildi fyrir það ástand sem þarna ríkir og gera tortryggilega og draga þá í dilka sem standa þar við hin erfiðustu skilyrði í andófi við fasistastjórnina í Chile. Ég vænti þess að hæstv. ráðh. hafi séð kvikmynd Costa Garvas um valdatökuna í Chile og líkkestina sem þar var hlaðið upp með aðstoð leyniþjónustu Bandaríkjanna.

En það er annað ríki í Ameríku, Nicaragua, sem hæstv. ráðh. víkur að og þar er ekki talað mjög skýru máli. Hann segir, ráðherrann, m.a. eftir að hann hefur rakið hversu illa standi með mannréttindamál hjá sandinistastjórninni í Nicaragua:

„Kaþólsku kirkjunni í landinu hefur verið gert erfitt um vik. Dagblöðum og útvarpsstöðvum hefur verið lokað, gefið að sök að ganga erinda Bandaríkjastjórnar. Í skýrslu útgefinni í febrúarmánuði 1986 gagnrýnir Amnesty International stjórn sandinista í Nicaragua og andstæðinga hennar fyrir mannréttindabrot. Contra-skæruliðar, sem herja í landinu með stuðningi Bandaríkjastjórnar, hafa hingað til mátt láta í minni pokann fyrir sandinistum.“ - Það vantar bara: því miður. Það vantar bara að segja: því miður. En það er það sem liggur á bak við orðin.

„Þessi hernaður hefur leitt til spennu á landamærum Nicaragua og Hondúras og Nicaragua og Costa Rica. Hersveitir sandinista hafa elt skæruliða inn í þessi ríki. Efnahagur Nicaragua heldur áfram að versna og landið verður sífellt háðara erlendri efnahagsaðstoð.“

Svo kemur hér sérstök tilvitnun í skýrslu ráðherrans. „Í Keesing's Records of World Events (nr. 8/1986) kemur fram að Líbýumenn hafa á laun gefið stjórn Sandinista 400 millj. dollara í efnahagsaðstoð og að auki sent þeim ráðgjafa á ýmsum sviðum.“ Og svei, hæstv. ráðh. Er það ekki? - „Litlar líkur eru á bata í efnahagsmálum á meðan rúmlega helmingur ríkisútgjalda fer til hermála.“

Um sjónarmið íslenskra stjórnvalda segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Sjónarmið íslenskra stjórnvalda í málefnum Mið-Ameríku hefur verið að þar sem annars staðar beri að leysa deilur á friðsamlegan hátt. Ísland hefur lýst yfir stuðningi við frumkvæði „Contadora-ríkjanna“ (Venesúela, Mexíkó, Kólombíu og Panama). Þessi ríki hafa reynt að koma á viðræðum milli stjórnar og stjórnarandstöðu í Nicaragua annars vegar og milli stjórnar Nicaragua og grannríkja þess hins vegar. Eins og mál standa nú virðist pólitískur vilji ekki fyrir hendi til að gera alvöru úr tillögunum. Veldur þar mestu djúpstæður ágreiningur stjórnar sandinista annars vegar og stjórna annarra Mið-Ameríkuríkja hins vegar.“

Þetta er afstaða hæstv. ráðh. Þetta er afstaðan gagnvart þeirri íhlutun sem átt hefur sér stað og ekki fer leynt í málefni þessa smáríkis í Mið-Ameríku, þessa tiltölulega fámenna ríkis í Mið-Ameríku sem reynt hefur að brjótast undan fátæktaroki bandarísku auðhringanna sem ráðið hafa lögum og lofum á þessu svæði og ekkert munað um að steypa ríkisstjórnum, hvernig svo sem þær eru komnar til valda, þegar þeim hefur þótt það nauðsynlegt vegna hagsmuna sinna, Guatemala 1954 eitt af þeim dæmum sem eru orðin býsna mörg síðan. Afstaða engin.

„Kaþólsku kirkjunni í landinu hefur verið gert erfitt um vik“, segir hæstv. ráðh. Hvað segir kaþólska kirkjan í Nicaragua? Hvað segir kirkjan um Nicaragua sem hæstv. ráðh. er að draga hér inn í málið til varnar afstöðuleysi sínu og undirlægjuhætti við bandarísk sjónarmið sem koma fram í þessari skýrslu í sambandi við Nicaragua? Já, það er ástæða til þess því að fyrir þinginu liggur tillaga um að Alþingi lýsi stuðningi sínum við yfirlýsingu Alkirkjuráðsins við málefni Nicaragua. En hæstv. ráðh. og stuðningsmenn hans á Alþingi og í utanrmn. hafa ekki enn viljað taka undir þessa tillögu Alkirkjuráðsins. Hún er svona, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að styðja yfirlýsingu Alkirkjuráðsins í sept. 1986 um Nicaragua og felur ríkisstjórninni að beita áhrifum sínum þannig að koma megi í veg fyrir efnahagslega og hernaðarlega íhlutun gegn Nicaragua.“

Þetta er tillagan sem liggur í utanrmn. síðan í haust, samþykkt sem gerð var á fundi Alkirkjuráðsins í ágúst s.l. að mig minnir, alla vega var fundur haldinn hér á landi. Og það er ekkert skorið utan af því í samþykktum Alkirkjuráðsins. Það er ekki verið að kvarta undan meðferð á kaþólsku kirkjunni í Nicaragua í þeirri samþykkt. Það er lýst yfir eindreginni og fyrirvaralausri fordæmingu á íhlutun Bandaríkjanna í málefni þessa ríkis. Svo kemur utanrrh. Íslands með skýrslu og reynir að fela undirlægjuháttinn með því að vísa á kaþólsku kirkjuna! Fyrr má nú vera. Hefur þetta hrotið úr penna ráðherrans sjálfs? Hefur hann ekki farið yfir málin? Fylgdist hann ekki með því sem var að gerast hér? Hvaða fádæmi eru þetta? (Gripið fram í: Hann er ekki kaþólskur, ráðherrann.) Ja, hann er kaþólskari en sumir. Það vitum við að vísu.

En síðan, herra forseti, vildi ég aðeins víkja að herstöðvunum hérlendis þó ég ætli ekki að gera þeim skil sem verðugt væri. Ég rifja upp þá þróun sem hefur verið í gangi þetta kjörtímabil og Sjálfstfl. er að miklast yfir um hernaðaruppbygginguna hér a landi sem hefur verið meiri en á nokkru öðru sambærilegu tímabili ef frátalin eru fyrstu dvalarár hersins hérlendis og kann þó að vera að í krónutölu hafi hún farið yfir þau mörk, sú mikla hernaðaruppbygging sem hér hefur átt sér stað fyrir forgöngu hæstv. ráðh. í framhaldi af þeim óskum og undirbúningi sem fram för hjá forverum hans einnig, utanrrh. Framsfl. sem fór með völd í þessum efnum í fyrri ríkisstjórnum og Alþfl.

En hér er sem sagt allt á útopnu í vígbúnaðaruppbyggingu og það er rakið í skýrslu hæstv. ráðh. hvaða fjárfestingu Bandaríkjamenn telja sig eiga hér á landi í hernaðarmannvirkjum og mannvirkjum sem því tengjast. Hún er talin nema, fjárfestingin bein, 300 millj. bandaríkjadala eða 12 500 millj. ísl. kr. og endurnýjunarkostnaður þessara mannvirkja, sem Bandaríkjamenn hafa komið hér upp í krafti herstöðvasamningsins frá 1951, er metinn á 1400 millj. bandaríkjadala eða 56 000 millj. ísl. kr. Og hér er fjárfest í framkvæmdum á bilinu 50-100 millj. bandaríkjadala á ári hverju og ekkert lát á með blessun Framsfl. í ríkisstjórn, enda plægði hann akurinn í fyrri ríkisstjórnum meðan hann hafði húsbóndavaldið í utanrrn. En það var sprett úr spori þegar sú ríkisstjórn hafði misst þingmeirihluta sinn á Alþingi 1982. Það var ekkert beðið boðanna og það var fylgt á eftir af þeim ráðherrum sem við tóku og það undraði engan.

Og hvað stendur til núna? Eru menn eitthvað að íhuga að pakka saman? Eru menn eitthvað að íhuga það að hægja á? Eru menn að íhuga að það kunni að verða dregið eitthvað úr umsvifunum og uppbyggingunni hér? Ónei, þetta er allt tíundað í skýrslu hæstv. ráðh. Og það eru ekki bara hernaðarmannvirkin. Það er aðstaða fyrir liðið þar sem er nú ekki tjaldað til einnar nætur. 250 íbúðir skulu byggðar á næstu árum til að bæta hina félagslegu aðstöðu á Miðnesheiði og félagsheimili upp á 400 fermetra til viðbótar til að stíga þar dansinn um gullkálfinn, þann dans sem hefur dunað suður á heiði síðan 1951, að skúmaskotaliðið hér á Alþingi samþykkti utan þings herstöðvasamninginn við Bandaríkin sólarhring áður en herinn kom til landsins í skjóli leyndar, blekkinga og leynimakks sem síðan hefur varðað alla þá götu sem við höfum verið njörvuð hér í hernaðarbandalag og þurft að búa við vaxandi hersetu og vaxandi vígbúnað í landi okkar.

Nú boðar hæstv. ráðh. að við eigum að fara að gerast aðilar að mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins. A.m.k. liggur fyrir úttekt, sem eru nú fá orð um í skýrslu hæstv. ráðh. og við höfum lítið af frétt, um að Íslendingar kunni að gerast aðilar að mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins. Ætli það sé ekki til að geta þegið meira af dollurum til að koma hér upp varaflugvelli fyrir Atlantshafsbandalagið? Gæti það ekki hugsast, til þess að það fari ekkert á milli mála, að við getum gengið í sjóði þar til að auka hér umsvifin fyrir nýjar herstöðvar í landinu?

Herra forseti. Það hafa verið dregnir fram nýverið í einu vikublaði sem er gefið út í Reykjavík ýmsir þættir í sambandi við undirbúning samningsins sem gerður var 1951 í skjóli leyndar, varnarsamningsins svokallaða, en það hafa verið að koma fram opinberlega vestur í Bandaríkjunum skýrslur og gögn um hvernig að þessu máli var staðið af hálfu bandarískra stjórnvalda og af hálfu íslenskra stjórnvalda á þeim tíma. Ég er með fyrir framan mig tvær greinar sem birtust í Helgarpóstinum 5. febr. og 12. febr. s.l. í sambandi við viðræðurnar og aðdraganda þessa samnings, byggðar á gögnum sem hafa verið að koma fram sem opinber gögn vestur í Bandaríkjunum. Það er vissulega fróðleg lesning sem þar liggur fyrir. En það hefur verið undarlega hljótt um það hér, fyrir utan þessar greinar í þessu vikublaði, hvað aðhafst var í skjóli leyndar, leynimakks og blekkinga af íslenskum stjórnvöldum misserin áður en Bandaríkjaher steig hér á land í maí 1951. Það er raun til þess að vita að íslenskir stjórnmálamenn eins og Bjarni heitinn Benediktsson skuli þurfa að búa við það að sagan sé opinberuð vestur í Washington, en íslenskir aðilar eigi þess engan kost enn sem komið er að sjá gjörðir hans og ákvarðanir og undirbúning, aðdraganda þessa dæmalausa samnings sem skúmaskotaliðið á Alþingi á þeim tíma treystist ekki til að kalla löggjafarsamkunduna saman til að leggja blessun yfir fyrr en eftir á.

Það kemur einmitt fram í þessum gögnum, sem eru orðin opinber fyrir vestan, hvers vegna menn þorðu ekki að kalla Alþingi saman. Það var ekki nein tilviljun. Það var ótti manna við þing og þjóð sem réð þeim ákvörðunum sem teknar voru utan veggja Alþingis. Ég skora á fjölmiðlana í landinu, ríkisfjölmiðlana þar á meðal, að fara ofan í þessi mál nú, þegar þau liggja fyrir vestur í Ameríku eins og þau eru tilreidd þar í bandarískum frumgögnum og endursögn Lawsons sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi á þessum tíma, því að ég ætla ekki að segja að hans ummæli og fréttaskeyti og sendingar til Dean Achesons á þessum árum séu nákvæmlega það sem kom úr munni Bjarna Benediktssonar þáv. utanrrh. - eða úr penna, því að væntanlega liggja þessi gögn uppi í utanrrn.

Ég skora á utanrrn. að hafa frumkvæði að því fyrr en seinna að birta þessi gögn og leggja þau á borðið og sinna þar með upplýsingaskyldu sinni og framfylgja lögum um Þjóðskjalasafn Íslands, um ráðstöfun opinberra gagna, þó að þau séu ekki ótvíræð eins og þyrfti að vera, því að ég trúi því ekki að forustumenn Sjálfstfl. í dag, þar á meðal hæstv. utanrrh. Matthías Á. Mathiesen, vilji láta skrifa sögu Bjarna heitins Benediktssonar í gegnum þáverandi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi með þeim gloppum og getsökum sem geta sprottið af slíku. Ég treysti hæstv. ráðh. að leggja þessi gögn á borð þm. áður en Alþingi lýkur, að veita alþm. aðgang að gögnunum frá fyrri hluta árs 1951 sem varða samningana, undirbúning að komu bandaríska herliðsins til Íslands. Þar eru á ferðinni atriði sem eru svo alvarleg og snerta stjórnarskrá lýðveldisins að það getur ekki verið stætt á því fyrir íslensk stjórnvöld og embættismenn að sitja með þau niðri í kössum og láta menn vera að ráða í það með getsökum eða í gegnum penna frá bandaríska sendiráðinu á Íslandi á þeim tíma.

Það er látið að því liggja í þessum gögnum að Íslendingar hafi ekki aðeins verið blekktir um forsendurnar og ástæðurnar fyrir komu hersins. Og öll sú sviðsetning sem þar er dregin fram, m.a. koma Eisenhowers hershöfðingja til Íslands, líklega 25. jan. 1951, til að plægja akurinn fyrir það sem síðar gerðist, fáum mánuðum síðar, og mútufé sem borið var á Íslendinga í þessu samhengi, svokallað Marshall-fé, svolítið af þeim aurum sem rennt var inn til Íslendinga eftir vissri pöntun héðan að heiman til þess m.a. að geta sefað ákveðin öfl í verkalýðshreyfingunni því að þeir skulfu og titruðu þarna í aprílmánuði 1951 út af því að verkalýðshreyfingin hafði látið liggja að því að boðað yrði til verkfalla í maímánuði 1951. Það var aldeilis stórkostlega hættulegt því að það gat bara lokað á þessi nauðsynlegu viðbrögð, komu Bandaríkjahers til landsins, ef kommarnir stæðu nú að verkföllum í landinu einmitt ofan í þessar áætlanir um komu hersins. Það gæti verið gott að hafa einhverja aura þannig að ríkisstjórnin hefði efni á því að stuðla að friði á vinnumarkaðnum til þess að rugla ekki allt rímið. (Samgrh.: Og létu kommarnir múta sér?) Hæstv. viðskrh. Ja, það var gott að hæstv. viðskrh. gaf sig fram. Hann hlýtur að hafa eitthvað uppi í ráðuneyti.

Nú skora ég á hæstv. viðskrh. að opna kassana. Hvað var ráðið í viðskrn. íslenska einmitt á þessum dögum? Hæstv. ráðh. verður vafalaust ekki lengi að gefa vösku embættisliði sínu fyrirmæli um að pakka upp og draga þannig fram svo að úr því fáist skorið hvort kommarnir létu múta sér eða hverjir létu múta sér á þessum tíma. Ég sé að hæstv. ráðh. er risinn úr sæti svo að hann ætlar að gera alvöru úr þessu strax. (Gripið fram í: Að ná í kassana?)

Þetta er nú aðeins brot sem ég er að nefna hér. Það væri sannarlega freistandi að lesa þær tilvitnanir sem koma fram orðréttar, að vísu í þýðingu blaðamanns, úr þessum gögnum, en ég spara mér það, hæstv. utanrrh., í trausti þess að ráðherrann reiði fram við Alþingi Íslendinga áður en það lýkur fundum sínum þau gögn sem snerta samninga við Bandaríkjamenn um komu hersins á fyrri hluta árs 1951. Það getur ekki neitt minna verið, hæstv. ráðh., ef það á að hreinsa æru þeirra manna sem sátu í íslenska stjórnarráðinu sem valdamenn á þeim tíma því að það er sannarlega ekki falleg saga sem dregin er upp í þessum bandarísku gögnum sem nú eru orðin opinber.

Óttinn við kommana, já. Hann var að sjálfsögðu víða að finna. Honum var haldið að mönnum á forsíðum Morgunblaðsins og fleiri málgagna þar sem unnið var að þessum verkum sem hafa orðið afdrifaríkari en flest önnur fyrir stöðu lýðveldisins og afstöðuna til utanríkismála sem opinberast okkur með þeim hætti sem gerst hefur hvað ömurlegastur í tíð núv. hæstv. forsrh. Steingríms Hermannssonar þó að hann reyni stöku sinnum að skjótast hér upp í stólinn og andæfa gerðum utanrrh. síns.

Herra forseti. Ég ætla að stytta mál mitt og eins og ég segi: Ef tími er til og ástæða er til er full ástæða til að draga það fram sem liggur fyrir, draga það inn í umræður á Alþingi með skýrari hætti, en ég spara mér það í trausti þess að ráðherrann bæti um betur og leggi gögnin á borð þm.

Það væri sannarlega ástæða til að víkja að mörgum fleiri þáttum sem tengjast skýrslu hæstv. utanrrh. Ég veit að fleiri talsmenn míns flokks munu tala hér í umræðunni um þýðingarmikil efni. Ég vil aðeins undir lok míns máls víkja að einum þætti sem er því miður ekki þannig að Íslendingar geti glaðst eða verið stoltir af heldur miklu frekar hljóti að horfa undan þegar þeir líta niðurstöðurnar á kjörtímabilinu sem er að ljúka í sambandi við þróunaraðstoð og þróunarsamvinnu. Tölurnar sem þar blasa við og liggja fyrir á þskj. 216 í svari hæstv. utanrrh. við fsp. Steingríms J. Sigfússonar um framlög til þróunarsamvinnu og hjálparstarfs eru satt að segja með þeim hætti að ég skil það vel að hæstv. ráðh. horfi í gaupnir sér. Þar lesum við að framlag, sem hafði þokast upp í það þegar skást var að vera 0,15% á árinu 1983, er fallið niður í 0,062% af þjóðartekjum á árinu 1986 og mun vera komið enn neðar miðað við þær samþykktir sem ríkisstjórnin stóð að í þessum efnum við fjárlagagerð þannig að við erum komin niður í botninn sem var í þessum efnum í tíð ríkisstjórnar Geirs Hallgrímssonar 1977 þegar framlagið var 0,051% skv. þessu þskj.

Þetta gerist þrátt fyrir að Alþingi samþykki samhljóða einum rómi að tillögu utanrmn. að Ísland manni sig upp, taki loksins á í þessum efnum og sjái til þess að framlag okkar til þróunaraðstoðar nái því marki sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sett aðildarríkjum sínum og önnur Norðurlönd hafa þegar farið yfir, að Finnlandi undanskildu og hefur það þó stórbætt sinn hlut á undanförnum árum. En eftir að þessi samþykkt er gerð tekur málið þveröfuga stefnu. Þá fara bara tölurnar allar að hreyfast niður á við eins og hér hafi ekki gerst nokkur skapaður hlutur eða Alþingi hafi ályktað í þveröfuga átt. Hvernig í ósköpunum má þetta verða? Hvernig geta íslensk stjórnvöld sýnt Alþingi þá lítilsvirðingu sem endurspeglast í þeim ákvörðunum og þeim tölum sem liggja fyrir um þetta efni?

Við gerðum aðra samþykkt þetta sama vor. Það var í sambandi við leiðréttingu á mismunun gagnvart konum, alþjóðasamning, og það hefur farið með ósköp svipuðum hætti um efndirnar á þeim samningi, þær aðgerðir sem hér þyrfti helst að gera til að leiðrétta þá mismunun hér innanlands. Aðgerðirnar hafa verið í þveröfuga átt. Framlögin af hálfu hins opinbera til að leiðrétta þá mismunun hafa gengið í þveröfuga átt.

Íslenska ríkisstjórnin virðist hafa einsett sér að ganga þvert á vilja Alþingis í þessum málum þrátt fyrir að menn í utanrmn. hafi bundist saman um að flytja málið inn á vettvang þingsins. Hvaða skýringar á hæstv. utanrrh. við þessum ósköpum? Hvernig getur hann í raun vikið að þessu máli hér án þess að taka á því og gefa Alþingi skýringar á því? Það þýðir ekkert að vísa á Alþingi. Það er ríkisstjórnin sem er leiðandi í sambandi við fjárlagagerð og meiri hluti hennar hér á Alþingi sem ræður og sem fellt hefur tillögur um aukin framlög til þróunaraðstoðar, til barnaheimila og í öðrum þáttum félagsmála sem tengjast þeim atriðum sem ég vék hér að.

Það er ekki svo, herra forseti, að það sé öllu þannig farið í sambandi við meðferð utanríkismála á Íslandi að menn þurfi að hafa uppi reiðilestur, en það eru því miður svo mörg atriði að ég hlaut að víkja fyrst og fremst að þeim málum sem skera í auga, sem maður er ósáttur við og hefur verið ósáttur við lengi, en lætur hin málin liggja sem samstaða er um á Alþingi og viss atriði þar sem hæstv. utanrrh. hefur þokað málum fram með eðlilegum hætti og af réttsýni og ber að sjálfsögðu að þakka fyrir það.

Það ber einnig að þakka það mikla starf sem unnið er af íslensku utanríkisþjónustunni, bæði í sambandi við öll samskiptin við erlend ríki og einnig á sviði viðskiptamála, þar sem ýmislegt hefur færst til jákvæðrar áttar undanfarin ár, en margt þyrfti auðvitað betur að gera. Ég tel að miðað við þann aðbúnað sem er að íslensku utanríkisþjónustunni hafi þeir sem þar eru settir til verka í rauninni unnið afbragðsgott starf á mörgum sviðum og það þyrfti að meta jafnhliða því sem við styrkjum okkar starfsemi á sviði utanríkisþjónustunnar til góðra verka, en þar er það stjórnvalda að varða veginn í þeim efnum og þar skortir nokkuð á réttsýni að menn taki á málum með þeim hætti að samstaða geti tekist um það hér á Alþingi. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. ráðh. víki að í sínu máli nokkrum þeim atriðum sem ég hef vakið máls á. Ég hef ekki séð ástæðu til að bera fram við hann sérstakar beinar fsp. í þessum málum. Það væri af óteljandi þáttum að taka. Við höfum tekið á einstökum atriðum í umræðum fyrr á þinginu. Ég læt í bili máli mínu lokið.