11.03.1987
Sameinað þing: 62. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4024 í B-deild Alþingistíðinda. (3672)

396. mál, utanríkismál

Páll Pétursson:

Herra forseti. Mikið er ég feginn að þekkja aftur vin minn utanrrh. fyrir sama mann. Nú er hann kominn með sinn gamla tón sem hann hafði þegar hann var viðskrh., þennan friðsama og skynsamlega tón.

Ég vil þó gera nokkrar athugasemdir við mál hans. Ég lagði sérstaklega áherslu á það í ræðu minni fyrr í dag að ég teldi að fullt tilefni væri til þess að samstarfsráðherra skilaði sérstakri skýrslu um norrænt samstarf og um hana færi jafnframt fram umræða. En utanríkissamskipti á vegum ríkisstjórnarinnar hljóta náttúrlega að fara fram á milli Norðurlanda og það er eðlilegt að það sé sagt frá því í skýrslu ríkisstjórnarinnar og ítarlegar sagt frá því í skýrslu utanrrh., a.m.k. þangað til samstarfsráðherra fer að skila skýrslu um málefnið.

Skýrsla um starfsemi Norðurlandaráðs á þskj. 801 er fullkomlega á ábyrgð Íslandsdeildar Norðurlandaráðs og samstarfsráðherra átti engan þátt í þeirri skýrslugerð. Ég minnist þess þegar hæstv. utanrrh. var samstarfsráðherra að hann hafði við okkur samstarf um þessa skýrslugerð, en það mun ekki hafa verið að þessu sinni, enda er þar ekki greint frá málefnum á sviði ráðherranefndarinnar.

Hæstv. ráðh. gerði að umtalsefni að ekki væri samstaða innan Framsfl. um utanríkismál að öllu leyti. Mér kom nú á óvart fullyrðing hans um að forsrh. hefði verið samþykkur öllum hans gerðum og málatilbúnaði í utanríkismálum. Það kom mér nokkuð á óvart. Ég get sagt ráðherranum það að um utanríkismálaályktun Framsfl. sem samþykkt var á síðasta flokksþingi er full samstaða, full samstaða innan Framsfl. um það sem stendur í því plaggi.

Þetta er skynsamleg og gagnorð ályktun um utanríkismál og ég er stoltur af henni og þess vegna notaði ég tækifærið til þess að kynna hana sérstaklega við þessa umræðu. Þetta er stefnumörkun sem bindur Framsfl. til næstu ára, stefnumörkun sem verður að vera leiðarsteinn við hugsanlegar stjórnarmyndunarviðræður að kosningum loknum, ef Framsfl. kemur til með að taka á annað borð þátt í stjórnarmyndunarviðræðum, sem ég get ekki sagt um á þessari stundu.

Hv. 4. þm. Norðurl. v. Eyjólfur Konráð Jónsson vildi túlka ályktun Alþingis um afvopnunar- og öryggismál með sínum hætti. Mér er það hulin ráðgáta, ef þetta hefur verið skoðun nefndarinnar, af hverju þetta, sem formaður nefndarinnar sagði frá í ræðu sinni, var ekki sett í texta tillgr. Af hverju var þetta ekki sett í texta tillgr.? Mér finnst að það liggi í augum uppi að ef um þetta orðalag hefði verið samstaða í nefndinni þá hefði það verið sett í textann. (Gripið fram í: Það eru oft grg. með þál.) En nú langar mig til að leiða til vitnis sjálfan „hæstaréttinn“, þ.e. ritstjóra Morgunblaðsins, Styrmi Gunnarsson, sem í blaði sínu laugardaginn 8. júní 1985 fjallaði nokkuð um þessa ályktun. Þar segir hann m.a., með leyfi forseta:

„Í stuttu máli hefur það gerst að mínum dómi að þingflokkur Sjálfstfl. hefur gengið allt of langt til móts við vinstri flokkana um málamiðlun í mikilvægum utanríkismálum. Þessi afstaða á eftir að veikja Sjálfstfl. og vekja upp spurningar um það í sendiráði Sovétríkjanna við Túngötu og austur í Moskvu hvort sú staðfesta sem Sjálfstfl. hefur sýnt í utanríkismálum alla tíð sé að bresta.“

Síðar í greininni segir:

„Í pólitískum umræðum á okkar dögum nær hugtakið Norður-Evrópa ekki nema til Norðurlanda og hluta Þýskalands og Bretlandseyja. Þetta er að mínum dómi sá skilningur sem leggja ber í orðin Norður-Evrópa í pólitískum umræðum þótt landfræðileg merking þessara orða kunni að vera víðtækari.“

Síðar í greininni:

„Þetta orðalag er svo óljóst að Eyjólfur Konráð Jónsson, formaður utanríkismálanefndar og framsögumaður fyrir tillögunni í sameinuðu þingi, sá sig knúinn til að skýra hvað átt væri við. Hann sagði í ræðu sinni: „Allmiklar umræður urðu í utanríkismálanefnd um fyrri lið 6. mgr. ályktunartillögunnar og skilning á honum. Ýmsum hugmyndum var varpað fram um orðalagsbreytingar en á það var fallist að halda orðalagi undirnefndar óbreyttu en formanni falið að koma á framfæri fyrir hönd nefndarinnar eftirfarandi skýringum er hann mælti fyrir tillögunni.“"

Þá koma þessar skýringar sem hv. þm. flutti hér áðan, en síðan bætir greinarhöfundur, Styrmir Gunnarsson, við:

„Af orðum Eyjólfs Konráðs Jónssonar er ljóst að sett hefur verið fram í utanríkismálanefnd hugmynd þess efnis að skýrt kæmi fram í samþykkt Alþingis að átt væri við kjarnorkuvopnalaus svæði beggja vegna járntjalds en ekki einungis vestan megin þess. Þessari hugmynd hefur bersýnilega verið hafnað [með breyttu letri] en það hefur verið gert fyrir sjálfstæðismenn að samþykkja að formaður nefndarinnar flytti þessar skýringar. Hverjir eru það í utanrmn. Alþingis sem geta ekki fallist á að skýrt sé tekið fram við hvað er átt? Ég skal engum getum leiða að því eða hvað valdi andstöðu þeirra við hið afdráttarlausa orðalag um þetta efni. Hitt er alveg ljóst“ - og nú breytir greinarhöfundur um letur til áherslu orðum sínum - „að Sjálfstfl., sem í hálfa öld hefur mótað og fylgt fram utanríkisstefnu þjóðarinnar, fyrst í baráttunni fyrir lýðveldinu, síðan í baráttunni fyrir afdráttarlausri þátttöku Íslendinga í varnarsamstarfi vestrænna þjóða, getur ekki gengið til lágkúrulegrar málamiðlunar í þýðingarmiklu máli sem hér er um að ræða. Einhver kann að segja sem svo að þingflokkur Sjálfstfl. kalli ekki allt ömmu sína þegar um málamiðlanir er að ræða en eitt er að slaka á kröfum í pólitískri dægurbaráttu innanlands," - og svo aftur með svörtu letri - „annað að bjóða heim hættulegum hugmyndum upp í Túngötu og austur í Kreml um það að þingflokkur Sjálfstfl. sé að veikjast í varðstöðu sinni um þjóðarhagsmuni út á við.“

Síðar segir í greininni, með leyfi forseta:

„Nú víkur sögunni til utanríkismálanefndar. Orðalag á tillögu hennar um kjarnorkuvopn á Íslandi er svohljóðandi: Um leið og Alþingi áréttar þá stefnu Íslendinga að á Íslandi verði ekki staðsett kjarnorkuvopn hvetur það til o.s.frv.

Upphaf tillögu Páls Péturssonar og félaga hans skal endurtekið hér. Það hljóðaði svo: „Alþingi áréttar þá stefnu Íslendinga að á Íslandi verði ekki staðsett kjarnorkuvopn eða eldflaugar.“

Tillaga utanríkismálanefndar, sem þingflokkur Sjálfstfl. stendur að, er samhljóða tillögu Páls Péturssonar og fleiri nema að því leyti að orðið eldflaugar er tekið út.“ - Ja, guð minn almáttugur.

Síðar segir í greininni:

„Af þessum tilvitnunum er ljóst að skilningur þeirra flokka sem að þessari samþykkt Alþingis standa er gerólíkur að því er þetta orðalag varðar. En eftir stendur að um þetta viðkvæma mál hefur þingflokkur Sjálfstfl. fallist á orðalag í tillögu vinstri flokkanna. Mér er óskiljanlegt með öllu hvað það er sem hefur rekið alla þm. Sjálfstfl. til þess að ganga til málamiðlunar á nótum vinstri flokkanna og hvaða hag þeir sjá sér í samþykkt í tillögu Alþingis sem þm. skilja með svo mismunandi hætti.“

Læt ég nú lokið að vitna í Styrmi en það er reyndar ýmislegt fleira í þessari grein sem væri vel þess virði að lesa þeim til upprifjunar því að ég sé ekki betur en að Styrmir leggi allt annan skilning í orðalag tillögunnar heldur en hv, formaður utanrmn. og eins og menn vita þá er nú eins og það sé tekið mark á Styrmi þessum í herbúðum Sjálfstfl.

Svavar Gestsson, hv. 3. þm. Reykv., flutti hér eina af sínum einkennilegu ræðum áðan. Honum þótti það nýlunda að hlusta á ræðu mína hér fyrr í dag. Ég get skýrt honum frá því þó að minni hans sé kannske eitthvað farið að bila að svipaðar skoðanir hafa iðulega komið fram hjá mér hér í þessum ræðustól og í skrifum mínum og tillöguflutningi á Alþingi. Ég gagnrýndi t.d. ákveðið byggingu radarstöðva á Langanesi og hjá Bolungarvík. Ég gagnrýndi árásina á Líbýu. Það gekk nú svo langt haustið 1985 að Sjálfstfl. var með kjánalegar hótanir um stjórnarslit vegna ummæla minna sem þeir skildu sem vantraust á hæstv. þáv. utanrrh. Það var mikill misskilningur hjá þeim eins og margt annað sem þeir menn misskilja. En svo hljóp, ég vil nú ekki segja fjandinn í svínið, heldur rann berserksgangur á hv. ræðumann Svavar Gestsson. Það er svoleiðis með Svavar Gestsson, þó að þetta sé gæfur maður í umgengni daglega þá er það einstöku sinnum sem hann umhverfist í ræðustólnum og þá ætlar hann að láta fara að taka til sín og tekur þá heilmikil gönuskeið. Það eru til hestar sem verða svona vitlausir alveg upp úr þurru en það eru óeigandi skepnur og það er ómögulegt að treysta þeim til neins. Ég veit að hv. þm., sem er hestamaður góður, hefur einhvern tímann rekist á svona drógar og ég veit að hann getur ekki haft uppáhald á þeim. Núna fór hann að láta eins og farísei, hann gerir það stundum, og það er ekki von að þessi maður nái árangri í pólitík. Hann rauk upp með stórskammir þegar hann heyrði að ég var ekki sammála utanrrh. og sér er nú hver foringinn. Alltaf þarf hann að berja frá sér alla - ekki bara flokksmenn sína, ekki bara samherja sína, heldur alla þá sem hann heldur að hafi kannske eitthvað svipaðar skoðanir. Hann stendur orðið aleinn í flokki sínum, hann er búinn að lemja frá sér þetta lið og tvístra því öllu saman, m.a.s. rekið mikið af því inn undir Ólaf Ragnar og stendur svo einangraður í flokki sínum og lætur svo hér . . . (GHelg: Ekki mig undir Ólaf Ragnar.) Nú, já hann hefur eitthvað rekið undir þig líka. Stendur hér svo einangraður í flokki sínum þessi leiðtogi og svo þarf hann að ráðast á mig þegar hann hefur engan Alþýðubandalagsmann til þess að andskotast á lengur því þeir eru allir búnir að flýja hann. Illu heilli þá fékk Svavar Gestsson áhuga á kjarnorkuvopnalausu svæði á Norðurlöndum. (Gripið fram í: Illu heilli?) Já, illu heilli. Ég er nefnilega dauðhræddur um að hann með ofstopa sínum og hroka geti eyðilagt möguleika okkar Íslendinga á því að taka þátt í þessu samstarfi, því það er nefnilega svoleiðis að það er afar margt sem klúðrast sem Svavar Gestsson snertir á. Sennilega hættir hann nú ekki fyrr en hann stendur einangraður og einsamall í því máli líka og berst fyrir hugmyndinni með því að lemja á öllum flokksbræðrum sínum og öllum öðrum sem kynnu að geta náð samstöðu um þessa hugmynd. Því þetta er nú verklagið hans.

Ég held að það sé nú tími til kominn að Guðrún fari að taka við Alþb. áður en Svavari tekst að bólusetja ekki bara félaga sína gegn samstarfi við sig heldur alla aðra stjórnmálamenn á Íslandi gegn samstarfi við Alþb. Það vinnur náttúrlega enginn með svona stjórnmálaforingja og allra síst til lengdar.

En varðandi kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum hef ég ekki mótaða afstöðu, ég er ekki búinn að ákveða mig enn þá hvort ég er tilbúinn að standa að þessu kjarnorkuvopnalausa svæði. En ég held að það sé alveg lífsnauðsyn fyrir okkur Íslendinga að fylgjast með þessari umræðu og reyna að móta hugmyndirnar þannig að Íslandi verði ekki að skaða. Það yrði til skaða ef svæði yrði myndað án þátttöku Íslands vegna þess að þrýstingur mundi aukast á svæðin í kringum kjarnorkuvopnalaus svæði.

En hugsanlegt er nú reyndar að hugmyndir um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum séu að verða að einhverju leyti úreltar. Seinasta frumkvæði Rússa gefur vonir um að samningar gætu tekist um langtum víðtækari afvopnun en talað er um í viðræðunum um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum, nýir húsbændur hljóta að taka við í Hvíta húsinu, húsbændur sem kannske létu af hinum fáránlegu stjörnustríðshugmyndum sem Reagangengið ber fyrir brjósti og þá kann vel að vera að við getum búist við friðvænlegri og betri heimi og víðtækari afvopnun en bara á tilteknu afmörkuðu svæði í Norður-Evrópu eða á Norðurlöndum þar sem eru enn ekki kjarnorkuvopn og reyndar ekki áform um að koma þeim fyrir.