13.03.1987
Neðri deild: 63. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4183 í B-deild Alþingistíðinda. (3817)

422. mál, almannatryggingar

Frsm. heilbr.- og trn. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Það er gert ráð fyrir að reglugerð verði sett sem kveður á um frekari framkvæmd þessa máls. Sú reglugerð hefur að sjálfsögðu ekki verið sett enn þá, en mér er kunnugt um að nokkur undirbúningur hefur þegar farið fram að setningu þessarar reglugerðar og ég get upplýst að þær upphæðir sem þarna er talað um eru tvenns konar. Það er í fyrsta lagi að ef um er að ræða almenna hreyfihömlun er um 80 þús. kr. greiðslu að ræða, en sé um að ræða mjög hreyfihamlað fólk er um 250 þús. kr. upphæð að ræða.

Það er gert ráð fyrir að sérstök afgreiðslunefnd muni fjalla um umsóknir og hún yrði væntanlega skipuð þremur fulltrúum þannig að menn þurfa ekki fyrir fram að fyllast neinni skelfingu eða ótta um að þetta verði alfarið í hendi tryggingayfirlæknis. Mér heyrðist vera einhver ótti í rödd síðasta ræðumanns. En eins og ég segi: Reglugerð hefur að sjálfsögðu ekki enn verið sett vegna þess að lögin hafa ekki verið samþykkt. En undirbúningsvinna hefur nokkur farið fram í heilbrmrn.

Ég veit ekki hvað hv. þm. átti við þegar hann spurði um upphæðir, hvort það var eingöngu spurt um hvaða upphæðir væri að ræða til umsækjenda. En heildarupphæð vegna þessa, sem um er að ræða, er áætluð 57 millj. vegna þeirra sem fengu úthlutun eftir að tollar lækkuðu á árinu 1986 og sem bráðabirgðaákvæðið á þá við, en vegna 1987 er gert ráð fyrir að þetta séu 115,5 millj. Ég get ekki á þessu stigi svarað þessu frekar. Ég vona að þessi svör dugi.