16.03.1987
Efri deild: 64. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4219 í B-deild Alþingistíðinda. (3855)

392. mál, almannatryggingar

Frsm. heilbr.- og trn. (Davíð Aðalsteinsson):

Hæstv. forseti. Vegna brtt. frá hv. þm. Kolbrúnu Jónsdóttur og þá sérstaklega vegna 3. brtt., um ákvæði til bráðabirgða, vil ég taka það fram að félmn. hefur haft til meðferðar frv. til laga um rétt foreldra til leyfis frá störfum vegna umönnunar barna. Flm. þessa frv. er hv. 11. þm. Reykv.

Meiri hl. félmn. hefur lagt það til að því frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar á ákveðnum forsendum þar sem gert er ráð fyrir að komið verði á fót viðræðunefnd aðila vinnumarkaðarins. Það var rætt sérstaklega í heilbr.- og trn. hvort mögulegt væri að setja inn í fæðingarorlofsfrv. einhver ákvæði sem lytu að þessu. Niðurstaðan var nú hins vegar sú og með í huga þá umfjöllun sem þá þegar hafði átt sér stað um langa tíð um hið fyrra frv. sem ég nefndi - að þetta þyrfti að fá meiri aðdraganda og að aðilar vinnumarkaðarins þyrftu um það að fjalla.

En ég kom hingað í ræðustól fyrst og fremst til að skýra frá því að meiri hl. félmn. ætlar sér að meðhöndla þetta mál hv. 11. þm. Reykv. með þeim hætti sem ég hef skýrt frá og við teljum að þannig fái frv. mjög jákvæða meðferð. Við lítum svo á því við teljum að það þurfi að skoða þetta mál en við viljum halda okkur við frv. hv. 11. þm. Reykv. vegna meðferðarinnar.