29.10.1986
Neðri deild: 7. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í B-deild Alþingistíðinda. (391)

86. mál, stjórn fiskveiða

Halldór Blöndal:

Virðulegi forseti. Ég skal ekki vera langorður. Mér þykir leiðinlegt að hv. þm. Karvel Pálmason skyldi hafa misst af ræðu minni hér í gær, sem ég er með hér útskrift af og get fært honum, úr því hann var að tala um að það væri svo langt síðan ég hefði komið í þennan ræðustól.

En það sem ég vil aðeins vekja athygli á er þetta. Í fyrsta lagi hefur hvorugur þeirra flm., sem hér hafa talað eftir að ég talaði síðast, gert grein fyrir því hvað þeir reiknuðu með að um miklar tilfærslur á afla yrði að ræða samkvæmt því frv. sem hér liggur fyrir. Í öðru lagi kom í ljós að hv. þm. Karvel Pálmason reiknaði ekki með því að taka afla frá neinu skipi, sem þýðir það að öll skip í landinu eiga að halda sínum hlut miðað við heildaraflakvóta. Þannig að ég sé að Karvel ætlar að gera mikið úr litlu og ferst öðruvísi en skáldinu sem einu sinni orti:

Hugsað get ég um himin og jörð,

en hvorugt smíðað.

Vantar líka efnið í það.

En mér heyrist að Karvel ætli að úthluta þorski sem ekki er til eftir hans málflutningi.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað