16.03.1987
Neðri deild: 66. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4323 í B-deild Alþingistíðinda. (4078)

431. mál, orlof

Frsm. félmn. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um orlof fyrir hönd hv. félmn., en fyrir örskömmu skilaði svokölluð orlofsnefnd, sem félmrh. skipaði 11. mars 1983, áliti og lauk þar með störfum.

Samstaða varð í nefndinni um öll atriði málsins nema ákvæði sem eru í 8. gr. þessa frv., en þar varð ágreiningur. Meiri hl. nefndarinnar skilaði því áliti sem er í 8. gr., en í fskj. með frv. er getið um sérálit þeirra Björns Björnssonar og Láru V. Júlíusdóttur og þar er síðan texti þeirrar 8. gr. sem þau hefðu viljað sjá í frv. Munurinn er sá að þegar ráðningarsamningi lýkur milli launþega og vinnuveitanda skal vinnuveitandi við lok ráðningartímans greiða launþeganum öll áunnin orlofslaun hans samkvæmt reglu sem er að finna í 2. mgr. 7. gr., en Björn Björnsson og Lára V. Júlísdóttir vilja að þessi áunnu orlofslaun verði lögð inn á bundinn reikning á nafni launþega í banka eða sparisjóði. Síðan skuli þessir reikningar verða lausir 1. maí næstan á eftir og njóta bestu ávöxtunarkjara almennra innlánsreikninga.

Það gefst ekki mikill tími til þess hér, herra forseti, að fara í einstakar greinar þessa frv. Það er þó ljóst að með því að samþykkja þetta frv., sem á ekki að taka gildi ef að lögum verður fyrr en á næsta ári, er hægt að undirbúa mikla réttarbót, einkum og sér í lagi vegna þess að Póstgíróstofunni hefur ekki tekist að ná tökum á þessu lögboðna verkefni sínu þar sem erfitt hefur verið fyrir hana að afla upplýsinga um hverjum bæri að greiða orlofsfé og þá af hvaða stofni og hverjum bæri að greiða laun í orlofi. Um þetta efni verður ekki úrskurðað nema á grundvelli upplýsinga um sérhvern launþega og það raunar fyrir hvert greiðslutímabil.

Í nefndinni sem ráðherra skipaði 11. mars 1983 áttu upphaflega sæti Björn Björnsson og Lára V. Júlíusdóttir frá Alþýðusambandi Íslands, Þórarinn V. Þórarinsson frá Vinnuveitendasambandinu og Kristinn F. Árnason frá Vinnumálasambandi samvinnufélaganna og án tilnefningar þeir Jón Páll Halldórsson, Karvel Pálmason og Arnmundur Backman sem jafnframt var skipaður formaður nefndarinnar. Hann lét af störfum í júní 1983 og þá tók við hans starfi Gestur Jónsson hrl. og var hann skipaður formaður í hans stað. Þá lét Kristinn F. Árnason enn fremur af störfum í nefndinni, en í hans stað var Jón Steindór Valdimarsson skipaður í nefndina.

Upphaflega var ætlunin að endurskoðun þessi skyldi sérstaklega taka til þeirra ákvæða er lúta að innheimtu og vörslu orlofsfjár í ljósi þeirrar þróunar er orðið hafði frá setningu umræddra laga og reglugerðarákvæða, en á síðari stigum nefndarstarfsins varð hins vegar um það full samstaða innan nefndarinnar að nauðsynlegt væri að gera tillögur um róttækari breytingar á lagareglum um laun í orlofi en upphaflega var að stefnt.

Ég tel ekki ástæðu, herra forseti, til að fara frekari orðum um þetta atriði. Það er ljóst að frá árinu 1982 hefur orðið til reynsla um þetta efni, en þá samdi Alþýðusamband Vestfjarða við vinnuveitendur og bankastofnanir á Vestfjörðum um aðra skipan þessara mála en um getur í gildandi lögum.

Það er ástæða til að benda á að í 7. gr. er um að ræða mestu efnisbreytingarnar sem gerðar eru á löggjöfinni ef þetta frv. verður að lögum.

Herra forseti. Hv. félmn. hefur ekki haft langan tíma til að skoða þetta mál, en hefur fallist á að flytja frv. með tilliti til þess að talin er mikil réttarbót að því ef þetta frv. gæti orðið að lögum á yfirstandandi þingi. Þess vegna sé ég ekki ástæðu til, nema um það komi beiðni frá einhverjum hv. þingdeildarmanni, að þetta mál verði sent til nefndar á milli umræðna.