16.03.1987
Neðri deild: 66. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4324 í B-deild Alþingistíðinda. (4080)

431. mál, orlof

Félagsmálaráðherra (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég þakka félmn. Nd. fyrir að taka þetta mál til meðferðar og gera tilraun til að koma því í gegnum þingið svo að það verði að lögum. Ég vil geta þess að nefndin sendi þetta mál til ráðherra í dag og með bréfinu fylgdi frv. sem hér er til umræðu. Það var samstaða í nefndinni um öll atriði nema ákvæði 8. gr. um uppgjör orlofslauna við ráðningarslit og sérálit fylgir.

Ég tel ástæðu til að ítreka það, sem kom fram frá hv. frsm., að hér er um stórt mál að ræða og þýðingarmikið og er hægt að upplýsa það hér að á síðasta orlofsári kostaði rekstur Póstgíróstofunnar aðeins í sambandi við þetta mál um 20 millj. kr. og hefur farið vaxandi síðan. Síðan hefur ríkissjóður orðið að greiða til að halda í jafnvægi vaxtagreiðslu stórar fjárhæðir til að framfylgja þessu orlofsmáli. En hér er um mál að ræða sem hefur þróast gegnum tíðina í það form sem nefndin varð sammála um og ég legg mikla áherslu á að það geti orðið afgreitt á þessu þingi.