16.03.1987
Efri deild: 67. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4338 í B-deild Alþingistíðinda. (4102)

430. mál, framleiðsla og sala á búvörum

Frsm. (Egill Jónsson):

Virðulegi forseti. Það er út af fyrir sig mikil ánægja fyrir mig að mæla fyrir þessu máli hér en það blandaðist nú ekki inn í þá ákvörðun að það væri lagt hér fram í þessari deild og flutt með þeim hætti sem hér var raun á. Ég held að landbrh. geti staðfest það að það er alveg hans ákvörðun að þessi málsmeðferð var viðhöfð.

Það má kannske segja að það sé vandmetið hvort þetta hefur orðið til þess að flýta málinu eða ekki en ef samkomulag hefði orðið í nefndinni um flutning málsins, þá hefði málið getað gengið áfram til Nd. í kvöld. Og þá var það náttúrlega fljótvirkasta leiðin sem fyrir hendi var og auk þess gafst meira ráðrúm til þess að meta þetta mál vegna þess að nefndin var kvödd til að flytja það. Þetta er nú um það að segja.

Ástæðan fyrir því að málið kemur svona seint til meðferðar hér á Alþingi hefur reyndar þegar verið skýrð, en hún er sú að um þessar mundir er verið að gera samning til tveggja ára milli bænda og ríkisvaldsins. Og eins og fram kemur í grg. er búið að leggja drög að þeim samningi. Hins vegar nást ekki tilskilin markmið á því árabili. Það var það sem ég var að rökstyðja í ræðu minni hér áðan. Á þeim árum næst mjólkurframleiðslan í fullt jafnvægi eins og búvörulögin kveða á um en aftur ekki sauðfjárframleiðslan. Og með því að inn í samningsgerðina á milli ríkisvaldsins og bændasamtakanna hefur verið fjallað um útrýmingu á riðuveiki úr sauðfjárstofninum, þá ná áhrif þeirra aðgerða allt til ársins 1992 og þar af leiðandi er talið eðlilegt að binda samninginn við þetta árabil allt saman. Og til þess að menn treystu sér til að gera samning til þetta langs tíma þótti eðlilegt að framlengja ákvæðin um útflutningsbæturnar, eða réttara sagt ákvæði VIII. kafla búvörulaganna. Þetta eru nú skýringamar.

Ekki mundi nú okkur hv. þm. Helga Seljan þykja þetta hafa verið mergjuð framboðsræða á Austurlandi, sú ræða sem ég flutti hér áðan, full af tölum og skýringum. Það eru nú ekki sérstaklega vinsælar framboðsræður. En eins og ég sagði áðan þótti mér nauðsynlegt að það kæmi hér fram vegna þess að VIII. kaflinn er í heimildarformi og eins og hv. þingdeildarmenn, og þá sérstaklega landbúnaðarnefndarmenn Ed., hafa getað sannfært sig um, þá liggja að baki þessari ákvörðun viss markmið sem ekki eru fest í lög, þau fylgja ekki sem fskj. með frv. og þar af leiðandi þótti mér nauðsynlegt að skýra þau nánar svo að það lægi fyrir hvaða meiningar liggja að baki fjögurra ára samningsgerð og breytingum á búvörulögunum til samræmis við þær ákvarðanir.

Um nýjar búgreinar fjallaði ég ekki í mínu máli, nákvæmlega ekki neitt, en í tólf línum gat ég um stöðu Framleiðnisjóðs og lagði áherslu á gildi þess að einmitt með þessari lagagerð núna er jafnframt tekin ákvörðun um að sjóðurinn þurfi ekki að sinna sams konar hlutverkum og áður, eins og hann tók að sér fyrir þetta framleiðsluár, heldur geti einbeitt sér að þeim verkefnum sem brýn eru í sambandi við önnur verkefni sjóðsins, og þá sérstaklega uppbyggingu nýrra greina í sveitum landsins.