17.03.1987
Sameinað þing: 64. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4400 í B-deild Alþingistíðinda. (4144)

365. mál, vegáætlun 1987-1990

Helgi Seljan:

Herra forseti. Út af síðustu orðum hv. 5. þm. Vestf. söknum við þess ekkert í stjórnarandstöðunni að þeir hv. þm. stjórnarliðsins koma hér upp, ryðjast í stólinn hver um annan þveran núna í lok kjörtímabilsins, miðað við hvernig þeir hafa haldið á vegamálum á þessu kjörtímabili og miðað við hvað þeir hafa sýnt þessu máli mikinn áhuga þegar það hefur verið til almennrar umræðu hér. Ég held að það sé nefnilega nauðsyn, án þess að ég vilji á nokkurn hátt takmarka málfrelsi þeirra frekar en okkar stjórnarandstöðuþingmanna í þessum málum, að vekja athygli á því í lok þessarar umræðu hvert er einkenni hennar. Aðaleinkenni hennar er að stjórnarsinnar hafa þurft að koma hér í stólinn með sína slæmu samvisku hver um annan þveran í lok þessa kjörtímabils og þar af leiðandi hefur umræðan tekið þann langa tíma sem hæstv. forseti var að tala um áðan.

Það hefur jafnvel gengið svo langt, og sakna ég nú vinar í stað, að þegar mælt er hér fyrir hönd þingmannahóps eins kjördæmis, í þessu tilfelli Austurlandskjördæmis, af 1. þm. kjördæmisins, hæstv. sjútvrh., er haldið uppi andófi, ekki af þm. annarra kjördæma heldur af einum þm. kjördæmisins, stjórnarþm. að sjálfsögðu, sem er að reyna að útskýra hversu hlutur Austurlands er lakur í þessu efni. Svo koma flokksbræður þessa sama manns, bæði hæstv. samgrh. og hv. formaður fjvn., og reka ofan í hann allt saman og tala alveg þvert ofan í það sem hann var að segja áðan og lofuðu greinilegri leiðréttingu á því sem unnt væri að gera í ljósi þess sem nú þegar liggur fyrir. Þetta þykir mér með hreinum undrum.

En ég vil svo segja aðeins við hæstv. samgrh. í lokin, ég veit ekki hvort hann heyrir mál mitt, að ég harma þá almennu yfirlýsingu sem hæstv. ráðh. gaf um áhugaleysi manna hér á vegamálum. Ég segi a.m.k. það við hæstv. samgrh. að undir þeirri ásökun hans vil ég ekki sitja án þess að láta því mótmælt.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.