17.03.1987
Efri deild: 69. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4418 í B-deild Alþingistíðinda. (4177)

318. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Stefán Benediktsson:

Frú forseti. Ég ætla aðeins að reifa þær brtt. sem ég flyt við það frv. sem hér um ræðir, 318. mál Ed. Hér er annars vegar um að ræða brtt. er lúta að breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, sem mundu skoðast sem viðhengi við það frv. sem hér er verið að flytja ef þessar brtt. hlytu samþykki, en snerta að öðru leyti ekki efni þess frv. sem hér er um fjallað.

Þetta eru brtt. sem lúta að því að koma á ef verða mætti því mikla nauðsynjamáli sem Alþfl. hefur verið að berjast fyrir og kallast einu nafni kaupleiguíbúðir, og allir vita þá við hvað er átt. Þar sem menn vænta þess nú ekki að þessar brtt. verði samþykktar vegna þess hve andstaðan hefur verið mikil við þær hjá stjórnarflokkunum, þá eru þessar brtt. þó fluttar hér til þess að minna á hve mikið vantar á í hinum félagslega þætti þeirra laga sem hér er verið að fjalla um. Þessar brtt. eru fluttar á þskj. 1011.

Á þskj. 1010 hef ég leyft mér að flytja brtt. við 318. mál Ed. ásamt með hv. þm. Helga Seljan um það að við 1. mgr. bætist ný mgr. er orðist svo:

„Heimilt er húsnæðismálastjórn að hafna eða skerða lánveitingu úr Byggingarsjóði ríkisins ef umsækjandi á íbúð sem talist getur fullnægjandi að dómi húsnæðismálastjórnar.“

Þetta er brtt. sem lýtur að því að reyna að lagfæra þann alvarlega ágalla sem er á frv. hvað réttindi fólks snertir, að nokkuð stórum hópi fólks er með þessum lögum, sem samþykkt voru í fyrra, veittur aðgangur að niðurgreiddu lánsfé, fólki sem ekki er hægt með nokkru móti að réttlæta að eigi jafngreiðan aðgang og þeir sem miklu meiri þörf hafa fyrir þetta fé en það fólk sem hér um ræðir.

Ef svo fer sem mann grunar, að þessi brtt. verði ekki samþykkt, þá ætla ég mér að reyna að flytja brtt. við 3. umr. málsins sem gengur til þessarar áttar, en ekki alveg eins langt og hér er farið fram á, í þeirri veiku von að menn a.m.k. heimili hæstv. ráðh. að leitast við að draga úr þessum stóra ágalla.

Annar liður þessarar brtt. er um það að við frv. bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða svohljóðandi: „Húsnæðismálastjórn er heimilt að verja allt að 300 millj. kr. á árinu 1987, eftir reglum sem félmrh. setur, til þess að létta skuldabyrði þeirra sem keyptu eða byggðu íbúð á árunum 1980-1985. Reglurnar skulu miðast við að tiltekinn hluti skuldaaukningar umfram hækkun almenns kaupgjalds fram til 31. des. 1985, sem beint má rekja til íbúðaröflunar, myndi endurgreiðsluhluta sem gangi sem óafturkræft framlag til þess að greiða vanskilaskuldir, lækka skammtímaskuldir eða skuldir til langs tíma hjá viðkomandi og þá í fyrrgreindri forgangsröð.“

Ég spái því að þetta verði í og með einhverjar af seinustu tillögum sem lagðar verða fram, ekki bara á þessu þingi heldur í þessu máli, þ.e. að reyna að gera úrslitatilraun til þess að bjarga málefnum þess fólks sem óumdeilanlega varð mjög illa úti á árunum 1983 og 1984 þegar launastoppið varð og verðtryggingar samkvæmt lánskjaravísitölu æddu fram án þess að launin breyttust. Þó að launin hafi batnað frá þeim tíma þá varð til það mikill uppsafnaður vandi hjá þessu fólki að það fær enn þá ekki við neitt ráðið. Og það hlýtur að vera almenn skylda okkar, ekki hvað síst með tilliti til þess góðæris sem allir básúna nú og blessa, að hlaupa undir bagga með þessu fólki og reyna að bjarga því sem bjargað verður því að óneitanlega hefur sú langa töf, sem orðin er á því að þessu fólki sé komið til hjálpar, orðið til þess að mjög margir af þessum aðilum, sem hér um ræddi í upphafi, hafa fyrir löngu misst eignir sínar.