18.03.1987
Efri deild: 72. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk í B-deild Alþingistíðinda. (4389)

422. mál, almannatryggingar

Frsm. félmn. (Davíð Aðalsteinsson):

Hæstvirtur forseti. Eins og fram kemur á nál. leggur félmn. til að þetta frv. um orlof verði samþykkt óbreytt og undir nál. rita allir hv. nefndarmenn.

Eins og stendur í grg. með þessu frv. er frv. samið af nefnd sem félmrh. skipaði 11. mars 1983 til þess að endurskoða gildandi reglugerð um orlof nr. 150 frá 1972 og lög um orlof nr. 81 frá 1971, hvort tveggja með síðari breytingum, enda leiddi athugun nefndarinnar í ljós nauðsyn á breytingu laganna. Endurskoðun þessi skyldi sérstaklega taka til þeirra ákvæða er lúta að innheimtu og vörslu orlofsfjár í ljósi þeirrar þróunar er orðið hafði frá setningu umræddra laga og reglugerðarákvæða.

Samkvæmt þessu frv. felast meginbreytingarnar í ákvæðum 7. gr. frv. Um þá grein segir svo þar sem vikið er að tillögum umræddrar nefndar sem stóð að samningu frv.:

„Tillögur nefndarinnar felast því fyrst og fremst í ákvæðum 7. gr. frv. þar sem gert er ráð fyrir því að við hverja launagreiðslu sé orlofsréttur starfsmanns vegna viðkomandi greiðslutímabils reiknaður út sérstaklega. Þessi réttur verði kauptryggður með því að reikna hann til jafngildis dagvinnustunda á kauptaxta viðkomandi launþega og greiðist út við töku orlofs á því kaupi sem þá gildir. Á hinn bóginn taldi nefndin eðlilegt að tryggja rétt stéttarfélaga til að gera samninga um bankainnheimtu orlofsfjár svo sem nú tíðkast og eru ákvæði þar um í 7. gr. frv.“

Þetta sem ég hef hér getið um og lesið upp varðandi tillögur nefndarinnar og ákvæði eru um í frv. varðar í raun meginefni þess.

Ég geri ráð fyrir að þetta frv. hafi verið kynnt og efni þess í öllum þingflokkum áður en það var lagt fram og sé ekki ástæðu til þess, m.a. af þeim sökum, að fjalla um það frekar. Frv. var flutt, eins og fram kemur, af félmn. Nd.

Eins og ég sagði áðan leggur félmn. þessarar hv. deildar til að frv. verði samþykkt óbreytt.